Fara í efni

Samþykktar aðgerðir vegna Covid-19 vegna viðskipta með ökutæki

Hér er yfirlit yfir þær aðgerðir sem geta nýst aðilum í bílgreininni við að komast í gegnum þann erfiða tíma sem heimsfaraldur Covid-19 hefur á fyrirtækin í landinu. Bílgreinasambandið hefur verið að vinna að þessum aðgerðum í samstarfi við stjórnvöld og skattayfirvöld.


"Allir vinna" - 100% endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu við fólksbíla

Nú býðst eigendum fólksbíla, sem ekki eru notaðir í rekstur, 100% endurgreiðslu á virðisaukaskatti sem þeir hafa greitt af vinnu vegna bílaviðgerðar, bílamálningar og/eða bílaréttingar fólksbíla. Allar frekari upplýsingar um þetta er að finna hér.


Breyting á skuldfærslu vörugjalds af ökutækjum

Breytingin tekur til innflytjenda sem stunda innflutning á ökutækjum í atvinnuskyni og hafa gert upp vörugjald af ökutækjum miðað við eins mánaðar uppgjörstímabil, sbr. 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 331/2000. Þeir munu frá 1. mars 2020 fá að fresta greiðslu vörugjalds fram að nýskráningu ökutækis, þó ekki lengur en í 12 mánuði frá tollafgreiðsludegi. Þessi breyting, sem er ætlað að létta undir og koma til móts við innflytjendur ökutækja í atvinnuskyni á tímum Covid-19, verður gerð með breytingu á 7. gr. fyrrnefndrar reglugerðar og mun hún öðlast gildi föstudaginn 17. apríl.

Breytingin hefur í för með sér að gjalddaginn 15. apríl 2020 fellur niður vegna ökutækja sem ekki hafa fengið nýskráningu. Fjársýsla ríkisins vinnur að tæknilegri útfærslu breytingarinnar. Þeir innflytjendur sem þegar hafa greitt gjaldið geta óskað eftir endurgreiðslu vegna þeirra ökutækja sem falla undir gjalddagabreytinguna.


Breytingar á greiðslum félagsgjalda í Bílgreinasambandið

Stjórn Bílgreinasambandsins hefur samþykkt breytingar á greiðslum félagsgjalda Bílgreinasambandsins vegna áhrifa heimsfaraldurs Covid-19 á fyrirtæki í landinu.

Í stað þess að senda út reikning fyrir öðrum ársfjórðungi í heild sinni, sem vaninn er, verður félagsgjöldum ársfjórðungsins skipt niður á þrjá reikninga. Það er, greiðslunni verður skipt niður á apríl, maí og júní. Fyrsti greiðsluseðillinn verður sem sagt einungis greiðsla fyrir félagsgjöld í apríl. Annar reikningur verður svo sendur í byrjun maí og sá þriðji í byrjun júní.

Vonir sambandsins eru að þetta komi sér vel á meðan við erum að koma okkur öllum saman í gegnum þetta erfiða tímabil.


Tímabundin afskráning ökutækja

Nú er heimild fyrir því að allir eigendur, ekki einungis bílaleigur, hafi heimild til að skrá ökutæki sín tímabundið úr umferð með miða. Skatturinn hefur fallist á að bifreiðagjöld falli niður á árinu 2020 með þessari leið, sama hver eigandinn er.

Framkvæmdin er í höndum Samgöngustofu en niðurfelling á bifreiðagjöldum gerist sjálfkrafa í framhaldi af breyttri skráningu í ökutækjaskrá.

Frekari upplýsingar um útfærsluna er að finna með því að smella á hnappinn hér.


Frestun á gjaldskrábreytingum Samgöngustofu

Tilkynnt var um fyrirhugaða hækkun gjaldskrár Samgöngustofu með tölvupósti þriðjudaginn 17. mars. Bílgreinasambandið mótmælti hækkuninni harðlega í ljósi aðstæðna á markaði.

Samgöngustofa brást samdægurs við beiðni sambandsins þar sem hækkunin var afturkölluð og frestað til 1. september næstkomandi í samráði við ráðuneytið sem fer með málefni samgöngumála.


Aðgerðaráætlun fyrir fyrirtæki í viðskiptum

Hægt er að nálgast upplýsingar um þær aðgerðir sem Bílgreinasambandið óskaði eftir í byrjun fyrir fyrirtæki í viðskiptum með ökutæki með því að smella á hnappinn hér fyrir neðan.

Aðgerðaáætlun