Fara í efni

Tímabundin afskráning ökutækja

Nú er heimild fyrir því að allir eigendur, ekki einungis bílaleigur, hafi heimild til að skrá ökutæki sín tímabundið úr umferð með miða. Skatturinn hefur fallist á að bifreiðagjöld falli niður á árinu 2020 með þessari leið, sama hver eigandinn er. Það eru ekki tímamörk á hve lengi ökutæki þarf að vera skráð úr umferð en hver skráning kostar 1.000 kr. 

Til að senda inn umsókn um tímabundna afskráningu ökutækis skal fylla inn þetta skjal hér  og senda á netfangið afgreidsla@samgongustofa.is .

 

Framkvæmdin er í höndum Samgöngustofu en niðurfelling á bifreiðagjöldum gerist sjálfkrafa í framhaldi af breyttri skráningu í ökutækjaskrá.

Útfærslan er með þeim hætti að eigandi sendir Samgöngustofu lista yfir þau ökutæki sem taka á úr umferð og í staðinn fæst límmiði sem líma skal yfir skráninganúmer ökutækis. Þá er gengið út frá því að ökutækin verði ekki í umferð ef tryggingar falla niður vegna innlagnar. Í 14. gr. reglugerðar um skráningu ökutækja nr. 751/2003 segir:

14. gr.
Ökutæki skráð tímabundið úr notkun að ósk eiganda (umráðamanns).

Óski eigandi (umráðamaður) ökutækis þess að mega taka ökutækið tímabundið úr notkun, skal hann senda tilkynningu þess efnis til Umferðarstofu sem skráir ökutækið úr umferð í ökutækjaskrá og er þá óheimilt að nota það. Skal annað hvort taka skráningarmerki af ökutækinu og afhenda þau, sbr. 16. gr., eða setja yfir skoðunarmiða merkisins miða frá Umferðarstofu með áletrun um að notkun ökutækisins sé bönnuð.

Óski eigandi (umráðamaður) þess að mega taka ökutæki aftur í notkun skal senda tilkynningu þess efnis til Umferðarstofu sem skráir ökutækið í notkun á ný að fullnægðum skilyrðum 3. gr. Óheimilt er að nota ökutækið fyrr en skráningarmerki hafa verið sett aftur á það eða skoðunarmiði frá Umferðarstofu, sem er í samræmi við gilda skoðun ökutækisins, hefur verið settur yfir miða um að notkun þess sé bönnuð.

Athyggli er vakin á því að þegar ökutæki er skráð úr umferð með miða að ekki er tryggt að bifreiðagjöld og tryggingar falli niður líkt og þegar númer eru lögð inn. Þá er lögreglu heimilt að klippa skráningarmerki af ökutækjum sem skráð eru úr umferð með miða sem standa á lóðum við almannafæri, á götum og í almennum bifreiðastæðum. Ökutæki sem skráð eru úr umferð með miða er eins ástatt og ökutæki sem er án skráningarmerkja. 

Við hvetjum ykkur sem ætlið að nýta ykkur þetta úrræði tímabundið að vera í sambandi við ykkar trygginagarfélög um framkvæmd til að tryggja það að ökutæki ykkar séu ekki ótryggð þó svo þau séu ekki í umferð.