Lög félagsins
Samþykktir Bílgreinasambandsins
- kafli
Heiti, heimili, tilgangur og aðild.
1. gr.
Heiti.
Heiti samtakanna er Bílgreinasambandið, skammstafað BGS.
BGS er lögpersóna sem nýtur sjálfstæðs rétthæfis með kennitöluna 440181-0159.
2. gr.
Heimilisfang
Heimili BGS og varnarþing er hjá SVÞ - Samtökum verslunar og þjónustu, Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, 105 Reykjavík.
3. gr.
Tilgangur.
Tilgangur BGS er að:
- Vera í málsvari fyrir aðildarfyrirtæki um málefni bílgreinarinnar á vettvangi SVÞ, Samtaka atvinnulífsins (SA), gagnvart öllum opinberum aðilum, samtökum, framleiðendum og samtökum þeirra, öðrum viðskiptamönnum bílgreinarinnar og almenningi.
- Efla og þróa bílgreinina á Íslandi, með því að:
- annast sameiginlega stefnumótun um umhverfi bílgreinarinnar,
- efla menntun og auka þekkingu innan bílgreinarinnar,
- efla fagleg vinnubrögð innan bílgreinarinnar,
- stuðla að því að réttmætir viðskiptahættir séu viðhafðir innan bílgreinarinnar,
- stofna til, skipuleggja og halda sýningar á bifreiðum, hlutum tengdum þeim og bílgreininni í heild.
- Vera aðildarfyrirtækjum til leiðbeiningar um gildi faglegra vinnubragða.
- Stuðla að umhverfisvernd, bættri umferðarmenningu og auknu umferðaröryggi.
- Stuðla að aukinni hagkvæmni og arðsemi í rekstri aðildarfyrirtækja.
- Vinna að öðrum málefnum sem hafa almenna þýðingu fyrir aðildarfyrirtæki.
- Reka eignir BGS.
4. gr.
Aðild.
Aðild að BGS geta öðlast fyrirtæki og einstaklingar í atvinnurekstri sem eru aðilar að SVÞ og Samtökum atvinnulífsins og annast sölu á ökutækjum, vöru og þjónustu þeim tengdum.
Við meðferð aðildarumsóknar skal litið til þess hvort:
- Umsækjandi teljist uppfylla settar kröfur um útbúnað, tæki, starfsumhverfi o.fl.
- Umsækjandi hafi fylgt og þyki líklegur til að fylgja settum reglum um góða viðskiptahætti.
- Hætta sé á að aðild umsækjanda geti stefnt starfsemi BGS í beina eða óbeina hættu m.t.t. tilgangs BGS og almennra hagsmuna aðildarfyrirtækja.
Óheimilt er að veita verkstæði aðild að BGS uppfyllir það ekki kröfur 8. gr. iðnaðarlaga, nr. 42/1978, með síðari breytingum. Þó er heimilt að veita umsækjanda takmarkaða aðild til bráðabirgða gangist hann undir skuldbindingu þess efnis að kröfurnar verði uppfylltar innan tiltekins tíma. Slík aðild skal aldrei vara lengur en tvö ár. Umsækjandi sem nýtur slíkrar aðildar ber sömu réttindi og skyldur og önnur aðildarfyrirtæki BGS á meðan á henni stendur en með þeirri undantekningu að hann nýtur ekki atkvæðisréttar á fundum BGS, þ. á m. aðalfundum og félagsfundum. Ljúki gildistíma tímabundinnar aðildar án þess að umsækjanda takist að uppfylla skilyrði skuldbindingarinnar telst hann ekki aðili að BGS frá og með þeim degi að telja er skilyrðin skyldu uppfyllt.
Stjórn BGS er heimilt að útfæra aðildarskilyrði BGS nánar innan marka ákvæða greinarinnar og skal þá útfærslan birt á vef BGS.
Umsókn um aðild að BGS skal senda skrifstofu SVÞ og skulu henni fylgja allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo leggja megi mat á hvort aðildarskilyrði teljist uppfyllt.
Aðildarfyrirtæki BGS skulu flokkuð eftir starfsemi undir sölusvið og þjónustusvið. Undir sölusvið flokkast fyrirtæki sem annast sölu á ökutækjum og vörum þeim tengdum (bifreiðaumboð). Undir þjónustusvið flokkast fyrirtæki sem annast þjónustu við eigendur ökutækja og vörusölu því tengda (verkstæði).
2. kafli
Skipulag
5. gr.
Sérgreinafélag innan SVÞ
BGS er sérgreinafélag innan SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, sbr. 3. mgr. 3. gr. samþykkta SVÞ. Stangist ákvæði samþykkta BGS á við ákvæði samþykkta SVÞ skulu ákvæði samþykkta SVÞ ganga framar.
Stjórnskipulag BGS er að öðru leyti með eftirfarandi hætti:
- Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum BGS.
- Félagsfundir fara með æðsta vald í málefnum BGS milli aðalfunda.
- Stjórn BGS fer með æðsta vald í málefnum BGS milli aðalfunda, þó sbr. 8. gr.
- Framkvæmdastjóri BGS framfylgir ákvörðunum aðalfundar, félagsfunda og stjórnar milli funda og annast daglegt málefnastarf og aðra starfrækslu BGS.
- Nefndir eru ráðgefandi stjórn BGS, geta lagt fram tillögur fyrir stjórn og fylgja eftir hagsmunamálum aðildarfyrirtækja innan þeirra raða að höfðu samráði við stjórn BGS og framkvæmdastjóra.
6. gr.
Aðalfundur.
Aðalfund skal að jafnaði halda fyrir lok maímánaðar ár hvert. Stjórn BGS er þó heimilt, þegar sérstaklega stendur á, að ákveða aðra tímasetningu aðalfundar.
Boða skal til aðalfundar með tveggja vikna fyrirvara með tölvupósti eða rafrænu fundarboði (t.d. í Outlook) sem sent er fyrirsvarsmönnum aðildarfyrirtækja.
Á aðalfundi skal a.m.k. taka eftirfarandi dagskrárliði til umfjöllunar:
- Kjör fundarstjóra og -ritara.
- Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
- Kosning stjórnar og varamanna.
- Reikningar BGS.
- Önnur mál.
Fundarstjóri úrskurðar um lögmæti aðalfundar.
Sérhvert aðildarfyrirtæki fer með eitt atkvæði á aðalfundi. Til viðbótar fer sérhvert aðildarfyrirtæki með eitt atkvæði fyrir hverjar 80 þús. kr. umfram lágmark greiddra árgjalda til SA og SVÞ. Aðeins aðildarfyrirtæki njóta atkvæðisréttar á aðalfundi sem eru skuldlaus við SA og SVÞ fyrir aðalfund.
Geti fyrirsvarsmaður aðildarfyrirtækis ekki sótt aðalfund er honum heimilt að fela starfsmanni fyrirtækisins eða fyrirsvarsmanni annars aðildarfyrirtækis að fara með atkvæði á aðalfundi. Fyrirsvarsmanni aðildarfyrirtækis er einvörðungu heimilt að fara með atkvæði eins aðildarfyrirtækis til viðbótar því fyrirtæki sem hann gætir fyrirsvars fyrir. Framsal atkvæðaréttar telst þá aðeins fullgilt að til grundvallar liggi fullgilt umboð.
Að meginreglu skulu atkvæði greidd á aðalfundi með handauppréttingu. Aðalfundi er er heimilt að ákveða að atkvæði verði greidd með öðrum viðurkenndum hætti, t.d. skriflega eða með rafrænum hætti.
Einfaldur meirihluti ræður atkvæðum á aðalfundi, þó sbr. 14. gr.
7. gr.
Félagsfundir
Félagsfundir skulu haldnir samkvæmt ákvörðun stjórnar. Þó skal stjórn ávallt boða félagsfund, eins fljótt og verða má, um tiltekið málefni ef a.m.k. tíu aðildarfyrirtæki krefjast þess.
Félagsfundir skulu boðaðir með tölvupósti eða rafrænu fundarboði og skal fundarboðun að meginreglu eiga sér stað einni viku fyrir fundardag en ella með eins löngum fyrirvara og unnt er.
Félagsfundur skal kjósa fundarstjóra og ber honum að tilnefna ritara.
Á félagsfundi skal ganga til boðaðrar dagskrár og ræður afl atkvæða úrslitum um ályktanir fundarins. Þó skal ályktun styðjast við 2/3 greiddra atkvæða varði hún málefni sem ekki hefur verið tilgreint í boðaðri dagskrá.
8. gr.
Stjórn.
Stjórn BGS er skipuð sex mönnum.
Kjörgengir í stjórn BGS eru fyrirsvarsmenn og fulltrúar atkvæðisbærra aðildarfyrirtækja BGS. Stjórnarmenn skulu kosnir á aðalfundi og skulu þrír stjórnarmenn koma úr hópi aðildarfyrirtækja á sölusviði og þrír menn úr hópi aðildarfyrirtækja á þjónustusviði. Komi fram fleiri framboð til stjórnarsetu en þrjú á hvoru sviði skulu þeir þrír sem hljóta flest atkvæði á hvoru sviði fyrir sig, teljast réttkjörnir stjórnarmenn. Hljóti tveir eða fleiri frambjóðendur jafnmörg atkvæði skal kosið á milli þeirra innbyrðis. Tveir stjórnarmenn skulu kosnir til vara og skal annar þeirra koma frá aðildarfyrirtæki á sölusviði en hinn frá aðildarfyrirtæki á þjónustusviði.
Kjörtímabil stjórnarmanna og varamanna er tvö ár. Stjórnarkjöri skal hagað þannig að oddatöluár skal kjósa þrjá meðstjórnendur og einn varamann en hitt árið þrjá meðstjórnendur og einn varamann. Gangi stjórnarmaður eða varamaður úr stjórn á fyrra ári kjörtímabilsins skal kjósa nýjan stjórnarmann í hans stað á næsta aðalfundi til eins árs.
Á fyrsta fundi stjórnar eftir aðalfund skal stjórn skipta með sér verkum. Stjórn skal undirrita trúnaðar- og samkeppnisréttaryfirlýsingu SVÞ.
Fundir stjórnar skulu haldnir samkvæmt ákvörðun hennar og skal stjórnin fela framkvæmdastjóra BGS að annast boðun stjórnarfunda. Þó er ávallt skylt að boða til stjórnarfundar að framkominn kröfu tveggja stjórnarmanna.
Stjórnarfundur er ályktunarbær sæki meirihluti stjórnarmanna fundinn. Hver stjórnarmaður fer með eitt atkvæði á stjórnarfundi og ræður afl atkvæða úrslitum. Falli atkvæði jafnt ræður hlutkesti úrslitum.
Eftir því sem við á skal stjórn BGS skora á stjórn SVÞ með ályktun.
Fundargerð skal haldin um það sem fram fer á stjórnarfundum og skal hún borin undir stjórn til staðfestingar.
9. gr.
Framkvæmdastjóri.
Framkvæmdastjóri BGS er starfsmaður SVÞ.
Framkvæmdastjóri kemur fram út á við fyrir hönd BGS og annast samskipti við fjölmiðla, stjórnvöld og aðra vegna málefna BGS. Framkvæmdastjóri situr alla stjórnarfundi sambandsins.
10. gr.
Nefndir.
Á vettvangi BGS skulu starfa ráðgefandi nefndir um málefni eftirfarandi flokka aðildarfyrirtækja BGS:
- Bifreiðaumboð,
- Bifreiðasala,
- almenn verkstæði,
- málningar- og réttingarverkstæði,
- sala varahluta.
Stjórn BGS skipar nefndirnar að fengnum tillögum frá aðildarfyrirtækjum BGS. Nefndarmenn skipta með sér verkum og velja nefndarformann.
Nefndirnar taka fyrir málefni sem stjórn BGS beinir til þeirra og skila niðurstöðum til stjórnar BGS. Við meðferð mála er nefndunum heimilt að mynda vinnuhópa um einstaka þætti málefna.
3. Kafli
Réttindi og skyldur aðildarfyrirtækja.
11. gr.
Trúnaður.
Aðildarfyrirtæki BGS skulu kynna sér samkeppnisréttarstefnu og samkeppnisreglur SVÞ. Stjórn skal undirrita trúnaðar- og samkeppnisréttaryfirlýsingu SVÞ.
Við meðferð upplýsinga um um aðildarfyrirtæki BGS skal gæta trúnaðar um efni þeirra, þ. á m. við meðferð aðildarumsóknar á vettvangi stjórnar.
Framkvæmdastjóra BGS er heimilt að vinna með upplýsingar frá aðildarfyrirtækjum en skal gæta þess sérstaklega að vinnsla þeirra hafi ekki neikvæð áhrif á samkeppni.
12. gr.
Úrsögn.
Tilkynning aðildarfyrirtækis BGS skal berast skrifstofu SVÞ skriflega, t.a.m. með tölvupósti, og tekur hún þá þegar gildi. Skal hún bera undirritun fyrirsvarsmanns aðildarfyrirtækis. Um úrsögn úr SVÞ og SA fer samkvæmt ákvæðum samþykkta þeirra.
13. gr.
Brottrekstur.
Nú brýtur aðildarfyrirtæki gegn ákvæðum samþykkta þessara, samþykkta SVÞ, samþykkta SA eða lögmætum ákvörðunum aðalfunda framangreindra samtaka eða BGS og er þá stjórn BGS heimilt að víkja aðildarfyrirtækinu úr BGS. Sama á við telji stjórn BGS aðildarfyrirtæki vinna gegn tilgangi BGS eða almennum hagsmunum aðildarfyrirtækja. Hið sama á við verði aðildarfyrirtæki uppvíst að brotum gegn lögum, reglum eða viðteknum venjum um góða viðskiptahætti.
4. kafli
Gildistaka o.fl.
14. gr.
Breytingar á samþykktum.
Tillögur um breytingar á samþykktum þessum skulu sendar skrifstofu SVÞ eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund BGS.
Löglega fram komnar tillögur um breytingar á samþykktunum fá gildi gegn samþykkt 2/3 greiddra atkvæða á aðalfundi.
15. gr.
Gildistaka.
Samþykktir þessar öðlast gildi á aukaaðilafundi BGS hinn 15. febrúar 2022.
Þrátt fyrir 1. mgr. taka samþykktir þessar þá aðeins gildi að á aukaaðalfundi BGS hinn 15. febrúar 2022 hafi aukaaðalfundurinn samþykkt samhljóða tillögu stjórna BGS og SVÞ um sameiningu samtakanna og staðfest samkomulag stjórna BGS og SVÞ um sameiningu samtakanna.
Samþykktir þessar koma til framkvæmda hinn 1. apríl 2022 en þá því aðeins að aðalfundur SVÞ hafi samþykkt samhljóða tillögu stjórna BGS og SVÞ um sameiningu BGS og SVÞ og breytingar á samþykktum. Samþykki aðalfundur SVÞ framangreint ekki teljast samþykktir þessar úr gildi fallnar frá öndverðu (l. ex tunc).
Samhliða því að samþykktir þessar koma til framkvæmda falla úr gildi lög Bílgreinasambandsins frá 26. mars 2015, með síðari breytingum.
Ákvæði til bráðabirgða
I
Þrátt fyrir ákvæði 12. sbr. 15. gr. fer um úrsögn úr Bílgreinasambandinu skv. 6. gr. laga Bílgreinasambandsins frá 26. mars 2015, með síðari breytingum, hafi fullgild tilkynning um úrsögn borist Bílgreinasambandinu eigi síðar 31. mars 2022.
Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 15. gr. gilda ákvæði 6., 7. og 15. gr. laga Bílgreinasambandsins frá 26. mars 2015, með síðari breytingum, eftir því sem við á um aðildarfélag BGS sem segir sig úr BGS skv. 1. mgr.
II
Núverandi stjórn Bílgreinasambandsins skal sitja óhögguð fram að næsta reglulega aðalfundi þess á vormánuðum 2022.
Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 8. gr. og 15. gr. skal kjörtímabil þriggja stjórnarmanna og eins varamanns vera tvö ár en þriggja stjórnarmanna og eins varamanns vera eitt ár á næsta reglulega aðalfundi BGS á vormánuðum 2022.
III
Þegar samþykktir þessar koma til framkvæmda, sbr. 3. mgr. mgr. 15. gr., verða aðildarfyrirtæki Bílgreinasambandsins sjálfkrafa aðildarfyrirtæki BGS, sérgreinafélags innan SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, aðildarfyrirtæki SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu og aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins. Um réttindi og skyldur aðildarfyrirtækjanna fer samkvæmt samþykktum SVÞ, Samtaka atvinnulífsins og samþykktum þessum.
IV
Þegar samþykktir þessar koma til framkvæmda, sbr. 3. mgr. 15. gr., skal stjórn BGS skora á aðildarfyrirtæki SVÞ sem annast sölu á ökutækjum, vöru og þjónustu þeim tengdum að tilkynna inngöngu í BGS. Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. skulu aðildarfyrirtæki SVÞ sem tilkynna inngöngu teljast aðilar að BGS þegar samþykktir þessar koma til framkvæmda, sbr. 3. mgr. 15. gr.
V
Eigi síðar en einni viku fyrir reglulegan aðalfund SVÞ 2022 skal stjórn BGS tilkynna skrifstofu SVÞ um tilnefningu fulltrúa aðildarfyrirtækis BGS til setu stjórn SVÞ til bráðabirgða starfsárið 2022/2023.