Fara í efni

Lög félagsins

LÖG BÍLGREINASAMBANDSINS

 

1. gr.
Nafn.

Nafn sambandsins er Bílgreinasambandið, skammstafað BGS, að viðbættri skýringunni: "Samtök atvinnurekenda í sölu ökutækja, vöru og þjónustu þeim tengdum.

2. gr.
Varnarþing.

Heimili og varnarþing sambandsins er í Reykjavík.

3. gr.
Tilgangur.

Tilgangur sambandsins er:

 1. Að vera í málsvari fyrir sambandsaðila um málefni bílgreinarinnar gagnvart öllum opinberum aðilum, samtökum, framleiðendum, öðrum viðskiptamönnum og almenningi.
 2. Að efla og þróa bílgreinina á Íslandi, með því að:
      a) halda utan um stefnumörkun í málefnum bílgreinarinnar,
      b) vinna að eflingu menntunar til aukinnar þekkingar innan bílgreinarinnar.
      c) vinna að eflingu faglegra vinnubragða innan bílgreinarinnar,
      d) vinna að því að viðhafðir séu réttmætir viðskiptahættir innan bílgreinarinnar,
      e) vera í forsvari fyrir bílgreinina við gerð kjarasamninga sem stuðli að gagnkvæmum hag samningsaðila,
      f) að stofna til, skipuleggja og halda sýningar á bifreiðum, hlutum tengdum þeim og iðnaðinum í heild.
 3. Að vera sambandsaðilum leiðbeinandi um gildi faglegra vinnubragða til aukinnar hagkvæmni og arðsemi í rekstri sambandsaðila.
 4. Vinna að umhverfisvernd og stuðla að bættri umferðarmenningu og auknu umferðaröryggi.
 5. Að láta til sín taka öll málefni sem hafa almenna þýðingu fyrir sambandsaðila og eflingu bílgreinarinnar í landinu.

4. gr.
Aðild að BGS.

Aðild að sambandinu geta öðlast fyrirtæki og einstaklingar sem annast sölu á ökutækjum, vöru og þjónustu þeim tengdum.

Umsókn um aðild að BGS skal senda skriflega til stjórnar sambandsins ásamt þeim upplýsingum um félagið sem stjórn ákveður. Inntökubeiðni telst samþykkt ef meirihluti stjórnar telst henni samþykkur. Við ákvörðun sína skal stjórn hafa til hliðsjónar hvort umsóknaraðilar fullnægja kröfum sambandsins og yfirvalda um útbúnað, tæki, starfsumhverfi o.þ.h.

Stjórn er óheimilt að samþykkja aðildarumsókn verkstæða sem uppfylla ekki lagaskyldur, m.a. skv. iðnaðarlögum nr. 42/1978 með síðari breytingum, um að hafa starfandi hjá sér í fullu starfi að minnsta kosti einn aðila með meistarapróf á einhverjum af þeim sviðum sem viðkomandi verkstæði starfar á.

Stjórn er heimilt að kalla eftir þeim gögnum frá umsóknaraðila sem hún telur nauðsynleg til að ganga úr skugga um að viðkomandi umsóknaraðili uppfylli fyrrgreindar lagaskyldur. Við mat á aðildarumsókn skal einnig litið til þess hvort umsóknaraðilar fylgi viðurkenndum meginreglum um góða viðskiptahætti og hvort aðild þeirra samrýmist hagsmunum sambandsins.

Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. er stjórn að beiðni umsóknaraðila heimilt að víkja tímabundið frá fortakslausum kröfum um réttindi skv. iðnaðarlögum nr. 42/1978. Þannig getur stjórn veitt umsóknaraðila tímabundinn frest til að afla tilskilinna réttinda skv. lögunum. Veittur frestur skal aldrei vara lengur en 2 ár og verður umsækjandi ekki fullgildur félagsmaður fyrr en öflun tilskilinna réttinda er lokið. Þannig nýtur hann ekki atkvæðisréttar á félagsfundum BGS, fyrr en tilskilinna réttinda hefur verið aflað. Þrátt fyrir takmörkun atkvæðisréttar á tímabilinu, skal umsóknaraðili að öðru leyti njóta sömu réttinda og aðrir félagsmenn BGS auk þess að greiða full aðildargjöld á tímabilinu. Ef umsóknaraðili af einhverjum ástæðum, öðlast ekki tilskilin réttindi innan tveggja ára tímabilsins, telst hann hafa sagt sig úr sambandinu og öðlast sú úrsögn samstundis gildi. Eftir það á hvorugur aðili kröfu á hendur hinum. (5. mgr. samþykkt á aðalfundi BGS þann 4. júní 2020)

5. gr.
Trúnaður.

Með upplýsingar, sem látnar verða í té við aðildarumsókn, skal farið með sem algjört trúnaðarmál. Þær má aðeins ræða í stjórn sambandsins eða á fundum þess eftir tölulega úrvinnslu og án tilgreiningar einstakra fyrirtækja.

6. gr.
Úrsögn.

Aðila er heimilt að segja sig úr sambandinu með minnst þriggja mánaða fyrirvara. Úrsögn skal vera skrifleg, undirrituð af stjórnendum aðildarfyrirtækis og skal sendast skrifstofu sambandsins. Aðilar, sem úr sambandinu ganga, eiga ekki kröfu til endurgreiðslu iðgjalda, annarra framlaga til sambandsins eða nokkurs hluta af eignum þess.

Aðili má ekki segja sig úr sambandinu á meðan vinnudeila er snertir hlutaðeigandi (verkbann eða verkfall), stendur yfir.

7. gr.
Brottrekstur.

Stjórn BGS er heimilt að víkja aðildarfélagi úr sambandinu vegna vanskila eða annarra brota á lögum þessum eða öðrum ákvörðunum sambandsins. Sama á við vinni aðildarfélag gegn hagsmunum sambandsins eða ef félagið verður uppvíst að brotum gegn lögum, reglum eða viðteknum venjum um góða viðskiptahætti.

Aðilar sambandsins sem skulda iðgjöld eða aðrar greiðslur til sambandsins fyrir meira en sex mánuði, skulu taldir segja sig úr sambandinu enda verði þeir ekki við greiðsluáskorun, sem send skal þeim í ábyrgðarbréfi með einnar viku fyrirvara. Framlög þessi má innheimta með málsókn og má höfða slíkt mál á varnarþingi sambandsins skv. 2. gr.

8. gr.
Aðalfundur.

Aðalfundir fara með æðsta vald í málefnum sambandsins en almennir félagsfundir á milli aðalfunda. Aðalfund skal að jafnaði halda fyrir lok maí mánaðar ár hvert. Heimilt er þó þegar sérstaklega stendur á að halda aðalfundinn á öðrum tíma enda samþykki stjórnin það. Til aðalfundar skal boða með tveggja vikna fyrirvara með bréfi til sambandsaðila eða með auglýsingu í dagblaði.

Dagskrá fundarins skal vera sem hér segir:

 
 1. Skýrsla stjórnar
 2. Reikningar bornir upp til samþykktar
 3. Kosning stjórnar og varamanna
 4. Lagabreytingar
 5. Önnur mál

   

  (Breytingar á 8. gr. samþykktar á aðalfundi BGS þann 4. júní 2020)

9. gr.
Lögmæti aðalfundar, atkvæðisréttur.

Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað án tillits til fundarsóknar. Aðalfundi stjórnar fundarstjóri sem aðalfundur kýs. Fundarstjóri kannar lögmæti fundarins. Einfaldur meirihluti nægir til löglegra samþykkta á aðalfundi.

Sérhver sambandsaðili hefur eitt atkvæði og síðan eitt atkvæði fyrir hver 80 þúsund krónur sem hann greiðir umfram 50 þúsund krónur til sambandsins.

Aðili sem eigi getur sótt aðalfund getur látið starfsmann sinn eða annan sambandsaðila sækja aðalfund fyrir sína hönd, enda fái hann til þess skriflegt umboð. Enginn getur þó farið með atkvæði fleiri en tveggja aðila auk síns (sinna) eigin.

Atkvæðagreiðsla á aðalfundi skal fara fram með handauppréttingu, nema 3 menn krefjist skriflegrar atkvæðagreiðslu. Einfaldur meirihluti atkvæðamagns ræður úrslitum mála sbr. þó 17. grein varðandi lagabreytingar.

Þeir einir njóta atkvæðisréttar sem eru skuldlausir við Bílgreinasambandið á aðalfundi, miðað við álögð gjöld um síðustu áramót.

10. gr.
Félagsfundir.

Almenna félagsfundi Bílgreinasambandsins skal halda þegar stjórnin telur ástæðu til eða ef 10 sambandsaðilar fara fram á það. Fundinn skal boða svo fljótt sem unnt er.

Nefndir á sérsviðum sambandsins skulu standa fyrir félagsfundum fyrir sína félagsmenn í samráði við stjórnina. Félagsfundi skal boða með minnst viku fyrirvara

nema sérstakar ástæður mæli með því að boða til hans með skemmri fyrirvara. Félagsfundum stýrir fundarstjóri sem fundurinn kýs. Fundarstjóri tilnefnir fundarritara. Í fundarboði skal getið hvert fundarefnið er. Ekki er heimilt að álykta um fundarefni sem ekki hefur verið auglýst fyrirfram nema með samþykki 3/4 hluta fundarins.

Um atkvæðagreiðslur skulu gilda sömu reglur og á aðalfundi.

11. gr.
Stjórn.

Kjörgengir í stjórn sambandsins eru atkvæðisbærir félagsmenn og fulltrúar fyrirtækja sem aðild eiga að Bílgreinasambandinu.

Stjórn sambandsins skipa 6 menn. Stjórnarmenn skulu kosnir á aðalfundi og skulu koma þrír menn frá hópi fyrirtækja á sölusviði og þrír menn úr hópi þeirra fyrirtækja sem starfa á þjónustusviði. Ef framboð eru fleiri en þrjú á öðru sviðinu eða báðum, skulu þeir þrír sem hljóta flest atkvæði á hvoru sviði fyrir sig, teljast réttkjörnir stjórnarmenn. Ef tveir eða fleiri frambjóðendur fá jafnmörg atkvæði skal kosið sérstaklega á milli þeirra.

Þá skulu kosnir tveir menn til vara, einn frá hvorum hópi. 

Stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára þegar þeir eru kosnir í fyrsta sinn. Varamenn skulu kosnir til eins árs í senn.

(Breytingar á 11. gr. samþykktar á aðalfundi BGS þann 4. júní 2020)

12. gr.
Verkaskipting stjórnar.

Stjórnin skal á fyrsta fundi sínum eftir aðalfund skipta með sér verkum. 

Framkvæmdastjóri boðar stjórnarfundi þegar þurfa þykir, sbr. 14. gr., en auk þess er honum skylt að boða til fundar ef 2 stjórnarmenn krefjast þess. Fundur er lögmætur og ályktunarfær ef meirihluti stjórnarmanna er mættur. Hver stjórnarmaður hefur eitt atkvæði. Ef atkvæði falla jöfn, ræður hlutkesti úrslitum.

Stjórnin ákvarðar iðgjöld til sambandsins sbr. 15. gr.

Undirskrift fjögurra stjórnarmanna nægir til að skuldbinda sambandið gagnvart öðrum. Stjórnin ræður málefnum Bílgreinasambandsins á milli almennra félagsfunda og aðalfunda. Stjórnin ákvarðar hvaða mál stjórn Bílgreinasambandsins tekur til umfjöllunar og ákveður starfssvið stjórnar. Telji hún þörf á nánari faglegri umfjöllun um tiltekin mál vísar hún þeim til viðeigandi nefndar, sbr. 13. gr.

Fundargerð skal haldin um það sem fram fer á stjórnarfundum og skal fundargerð borin undir stjórn til staðfestingar.

(Breytingar á 12. gr. samþykktar á aðalfundi BGS þann 4. júní 2020)

13. gr.
Nefndir.

 Á milli stjórnarfunda vinna einnig nefndir á sérsviðum BGS. Eftirfarandi nefndir eru starfandi innan sambandsins:

 
 1. Sölunefnd
 2. Nefnd almennra verkstæða
 3. Nefnd málningar og réttingaverkstæða
 4. Varahlutanefnd
 5. Bílasalanefnd

Stjórn BGS skipar fulltrúa í nefndirnar að fengnum tillögum frá aðildarfélögum. Nefndarmenn kjósa sér formann.

Nefndir vinna að hagsmunamálum þeim sem þær varða og stjórnin hefur beint til þeirra. Þær skila niðurstöðum sínum til stjórnar. Nefndirnar geta leitað til vinnuhópa til þess að fjalla nánar um þau málefni sem eru til umfjöllunar hjá nefndunum.

14. gr.
Framkvæmdastjóri og skrifstofa.

Stjórnin ræður framkvæmdastjóra fyrir sambandið. Hann stjórnar skrifstofu þess. Hann hefur á hendi allar daglegar framkvæmdir og annast ráðningu aðstoðarfólks.

Framkvæmdastjóri kemur fram út á við fyrir hönd BGS og annast m.a. öll samskipti við fjölmiðla í tengslum við málefni sambandsins. Framkvæmdastjóri eða fulltrúi hans situr alla stjórnarfundi sambandsins. Hann annast einnig boðun stjórnarfunda.

(2. mgr. 14. gr. samþykkt á aðalfundi BGS þann 4. júní 2020)

15. gr.
Iðgjöld.

Greiða skal iðgjöld frá þeim degi sem félag gerist aðili að BGS.

Fyrirtæki á sölusviði greiða iðgjöld eftir veltu en fyrirtæki sem starfa á þjónustusviði greiða fast grunngjald. Innifalið í grunngjaldi er einn starfsmaður en svo bætist við föst fjárhæð fyrir hvern starfsmann umfram það. Stjórn BGS hverju sinni tekur ákvörðun um fjárhæð iðgjalds og hvernig það er byggt upp.

Iðgjöld skulu að hluta til vera föst fjárhæð, sú sama fyrir alla og að hluta fjárhæð sem skal vera í hlutfalli við stærð fyrirtækis t.d. fjölda seldra eininga eða fjárhæð greiddra launa, fjölda starfsmanna eða veltu árið áður.

Ef sambandsaðili lætur undir höfuð leggjast að veita upplýsingar sem nauðsynlegar eru til ákvörðunar iðgjalda hans, skal stjórnin áætla honum hæfileg iðgjöld.

Iðgjöld ber að greiða ársfjórðungslega skv. útsendum greiðsluseðlum.

16. gr.
Reikningar- Fjárhagsáætlun.

Reikningsár sambandsins er almanaksárið. Löggiltur endurskoðandi skal endurskoða reikninga og skila athugasemdum til stjórnar sambandsins.

Fyrir 15. apríl ár hvert, skal framkvæmdastjóri hafa lokið við reikninga fyrir liðið starfsár og sent þá endurskoðanda er skilar stjórninni athugasemdum sínum innan 14 daga.

Þá skal framkvæmdastjóri leggja fjárhagsáætlun næsta starfsárs fyrir stjórn sambandsins eigi síðar en 30. nóvember ár hvert. Áætlunin skal endurskoðuð og lögð fram í endanlegri mynd eigi síðar en mánuði fyrir aðalfund þess.

17. gr.
Lagabreytingar.

Tillögur til breytinga á lögum Bílgreinasambandsins skulu sendar stjórn sambandsins, er leggur þær fyrir aðalfund. Slíkar tillögur þurfa að berast eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund. Til að slík tillaga nái fram að ganga þarf samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða.

18. gr.
Gildistaka laganna.

Lög þessi öðlast þegar gildi og falla jafnframt úr gildi eldri lagaákvæði Bílgreinsambandsins.

Reykjavík, 26. mars 2015
1. breytingar samþykktar á aðalfundi BGS þann 4. júní 2020