Saga BGS
Bílgreinasambandið (BGS) er samtök atvinnurekenda í sölu ökutækja, vöru og þjónustu þeim tengdum. Í Bílgreinasambandinu eru yfir 100 fyrirtæki þ.e. almenn bílaverkstæði, bílasölur, bílaumboð, hjólbarðaverkstæði, málningar- og réttingaverkstæði, ryðvarnarstöðvar, smurstöðvar, varahlutasalar og aðrir þjónustuaðilar í bílgreininni.
Upphaf - aðild
BGS var stofnað 14. nóvember 1970 með samruna tveggja félaga, Sambands bílaverkstæða á Íslandi (stofnað 1933) og Félags bifreiðainnflytjenda (stofnað 1954). BGS er því í raun sameiginleg samtök stéttarfélaga og vinnuveitenda en samvinna hefur alla tíð verið mikil og góð með launþegum og launagreiðendum í bílgreinum, enda hafa yfirmenn fyrirtækjanna gjarnan verið „niðri á gólfinu“ til jafns við starfsmennina, umfram það sem oftast gerist í öðrum starfsgreinum.
Bílgreinasambandið var stofnað að norrænni fyrirmynd og hefur alla tíð haft mikla samvinnu við systursamtök sín á Norðurlöndum. Aðal hvatamaður að stofnun Bílgreinasambandsins og fyrsti formaður var Gunnar Ásgeirsson. Síðan hafa formenn verið: Geir Þorsteinsson, Ingimundur Sigfússon, Þórir Jónsson, Þórir Jensen, Gísli Guðmundsson, Sigfús Sigfússon, Hallgrímur Gunnarsson, Bogi Pálsson, Erna Gísladóttir, Úlfar Steindórsson, Egill Jóhannsson, Guðmundur Ingi Skúlason, Sverrir Viðar Hauksson og Jón Trausti Ólafsson.
Bílgreinasambandið gekk úr Vinnuveitendasambandi Íslands árið 1998 og átti því ekki hlut að Samtökum atvinnulífsins er þau voru stofnuð. BGS var hins vegar alla tíð þátttakandi í Landssambandi iðnaðarmanna og Samtökum málm- og skipasmiða. Það átti líka aðild að lífeyrissjóðum iðnaðarmanna innan sinna raða og átti þar forystumönnum á að skipa, svo sem Þóri Jónssyni og Geir Þorsteinssyni. Fyrsti sjálfstæði kjarasamningur Bílgreinasambandsins annars vegar en Samiðnar hins vegar var gerður árið 2000.
Útgáfa - kynningarmál
Fullyrða má að enginn einn hlutur hefur á síðari öldum haft eins mikil áhrif á og valdið eins miklum breytingum í íslensku þjóðlífi og bíllinn. Íslenskt efnahags- og menningarlíf byggist á samgöngum og samgöngur á Íslandi byggjast á bílum. Saga bílsins skiptir því íslenskt samfélag verulegu máli.
Árið 1972 keypti BGS upplag og útgáfurétt á bókinni Bifreiðir á Íslandi 1904-1930 eftir Guðlaug Jónsson. Þetta merka ritverk var gefið út í tveim bindum 1983, en höfundur hafði áður gefið fyrra bindið út á eigin kostnað árið 1956. Haustið 2000 stóð BGS fyrir stofnun hlutafélags um að skrifa sögu bílsins til útgáfu árið 2004 er öld var liðin frá því að fyrsti bíllinn kom til Íslands. Til að skrifa söguna var ráðinn Sigurður Hreiðar Hreiðarsson bílablaðamaður og bókin kom út á tilsettum tíma, Saga bílsins á Íslandi 1904-2004, mikil bók prýdd fjölda mynda. Starfsfólk BGS hafði veg og vanda af fjármála- og framkvæmdalegri umsjón verksins.
Á aðalfundi BGS 24. mars 2001 og afmælisfundi í tilefni af 30 ára afmælinu var vefsíða BGS tekin í notkun. Þar er að finna ýmsar upplýsingar um starfsemi BGS auk þess sem almenningur getur m.a. reiknað út verð notaðra bíla. Sérstök tölvuvædd viðmiðunarverðskrá notaðra bíla var tekin í notkun 1999. Í framhaldi af því var í janúar 2001 tekið í notkun nýtt kerfi með upplýsingum um notaða bíla og raun verð notaðra bíla.
Bílgreinasambandið hefur einnig staðið fyrir útgáfu fréttabréfs um starfsemi félagsins, auk dreifibréfa um einstaka þætti starfsins.
Húsnæði - stjórnendur
Frá stofnun 1970 fram til 1982 var Bílgreinasambandið til húsa hjá Félagi íslenskra stórkaupmanna að Tjarnargötu 14. FÍS annaðist skrifstofuhald BGS en framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins var jafnframt framkvæmdastjóri FÍS.
Fyrsti framkvæmdastjóri BGS var Júlíus Ólafsson, 1970-1977. Jónas Þór Steinarsson tók við starfinu 1977 og gegndi því óslitið til 2006. Frá árinu 2006 til 2018 var Özur Lárusson framkvæmdastjóri. Núverandi framkvæmdastjóri er María Jóna Magnúsdóttir.
30. desember 1974 gerðist BGS stofnaðili að Húsi verslunarinnar og flutti starfsemi sína þangað árið 1982 er húsið var fullbyggt. Árið 2000 var einkahlutafélagið Bílmennt stofnað í eigu BGS og Bíliðnafélagsins. Bílmennt ehf. byggði síðan hús að Gylfaflöt 19 þar sem Bílgreinasambandið var til húsa til ársins 2014 ásamt Fræðslumiðstöð bílgreina, en Bíliðnafélagið er nú hluti af Félagi iðn- og tæknigreina. Bílgreinasambandið er nú til húsa í Borgartúni 35, Húsi atvinnulífsins.
Sýningar - kynningar
Í maí 1973 var fyrsta bílasýning að undirlagi BGS haldin í húsnæði Heildar hf. við Klettagarða, en Félag bifreiðainnflytjenda hafði haldið bílasýningu í Skautahöllinni 1969, árið áður en Félag bifreiðainnflytjenda og Samband bílaverkstæða á Íslandi runnu saman í eitt. BGS stóð einnig fyrir bílasýningum í Húsgagnahöllinni 1978, 1981 og 1984. Samhliða voru gjarnan haldnar sýningar á vörubílum í ÁG-húsinu handan götunnar. Vorið 2011 stóð svo BGS fyrir bílasýningu er haldinn var í Fífunni í Kópavogi undir heitinu "Allt á hjólum" og var hún haldin síðast vorið 2013.
BGS hefur einnig staðið fyrir fjölda hópferða á erlendar sýningar fyrir félaga innan sinna vébanda, hina fyrstu þegar árið 1973 er haldið var á alþjóðlegu bílasýninguna í Frankfurt. Enn fremur hefur BGS staðið fyrir heimsóknum til nágrannalandanna til að fræðast um ýmisskonar starfsemi tengda bílgreininni og hvernig að henni er staðið með öðrum þjóðum.
Árið 1977 stóð BGS fyrir fjölmennum norrænum fundi í bílgreininni hér á Íslandi og aftur 1987, 1997 og 2009 og 2012 en árið 1966 hafði Félag bifreiðainnflytjenda haldið sambærilegan fund.
Menntamál
Bílgreinasambandið leggur áherslu á sem mestan stöðugleika í leikreglum og starfsumhverfi bílgreinarinnar. Það leggur áherslu á gæðastjórnun og virka menntastefnu ásamt öflugri þjónustu og upplýsingamiðlun til félagsmanna.
Bílgreinasambandið hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á bætta iðnmenntun í bílgreinum. Bifvélavirkjadeildin við Iðnskólann í Reykjavík stofnuð upp úr 1970 fyrir forgöngu BGS. Sérfræðingur frá MAF í Svíþjóð kom hingað á vegum BGS til að vinna að uppbyggingu og skipulagi námsins.
1983 var efnt til eftirmenntunarnámskeiða á vegum BGS og Félags bifvélavirkja. Á vegum sömu aðila vann Sveinn Sigurðsson ári síðar skýrslu um þróun menntunar í bílgreinum þar sem lögð var til breyting á menntuninni. Segja má að þær tillögur hafi að hluta komist í framkvæmd í Fræðslumiðstöð bílgreina. Eftirmenntunin komst í fastara form og fékk sinn ramma, en frá árinu 1983 hefur eftirmenntun sífellt verið að aukast og námskeiðum fjölgað.
Árið 1994 sömdu BGS, Bíliðnafélagið og Menntamálaráðuneytið um tilraunakennslu í bílgreinum þar sem bílgreinin hét verulegum fjármunum til styrktar kennslu í bílgreinum, 20 milljónum í upphafi og síðan 5 milljónum á ári. Fræðslumiðstöð bílgreina var stofnuð og hóf starfsemi í nýjum Borgarholtsskóla haustið 1996. Tilraunir voru gerðar með kennslu í bílgreinum í Borgarholtsskóla undir stjórn Fræðslumiðstöðvar bílgreina í tvö ár og önnur tvö ár starfaði þar sérstakur stýrihópur. Á þessum árum voru framlög bílgreinarinnar til kennslu í bílgreinum í formi tækja, búnaðar og kennslugagna að verðmæti 70 – 80 milljónir.
Árið 1999 var Fræðsluráð bílgreina gert að hlutafélagi í eigu Bíliðnafélagsins og BGS. Árið 2000 var Bílmennt ehf. stofnað sem hlutafélag Bílgreinasambandsins og Bíliðnafélagsins og stóð fyrir byggingu húss að Gylfaflöt 19 þar sem Fræðslumiðstöð bílgreina er til húsa og nú einnig skrifstofa BGS. Húsið er nú að jöfnu í eigu BGS og Félags iðn- og tæknigreina.
Bílaábyrgð - skipafélagið Bifröst
Fyrirtækið Bílaábyrgð var stofnað í febrúar 1974 upp úr Sparnaðarsjóði 1 hjá BGS. Skömmu áður hafði Eimskip hf. hætt að veita svonefnt ryðvarnarleyfi sem bifreiðainnflytjendur höfðu haft í nokkur ár og þannig fengið gjaldfrest til að ryðverja og ganga frá bílum fyrir sölu áður en bílarnir væru seldir. BGS og Bílaábyrgð hf. sömdu við fjármálaráðuneytið um tollkrít á nýjum bílum og ábyrgðist allar tilskildar greiðslur fyrir hönd félagsmanna sinna. Þetta auðveldaði mjög ryðvörn og standsetningu.
Í janúar 1977 var skipafélagið Bifröst hf. stofnað, að meiri hluta til af félögum úr BGS og Bílaábyrgð. Bifröst hafði veruleg áhrif varðandi flutning á bílum til landsins. Hugmyndin varð til fyrst og fremst vegna óánægju með þá þjónustu sem í boði var með bílaflutninga til landsins, með úreltum flutningaaðferðum og innan um annan flutning sem ekki fór vel saman við flutning á bílum. Hagvangur var fenginn til að kanna fyrir BGS hvort grundvöllur væri fyrir því eiga og reka bílaflutningaskip. Í framhaldi af þeirri könnun voru gildandi flutningsgjöld lækkuð verulega. Það út af fyrir sig þótti ekki nóg. Leitað var samstarfs við fiskútflytjendur að þeir flyttu út vöru sína í skipi sem notað væri til að flytja bíla til landsins og taka þannig þátt í kostnaðinum. Keypt var 10 ára gamalt skip frá Frakklandi, nýstandsett og í góðu lagi. Flotbryggju var komið upp á athafnasvæði Bifrastar hf. í Hafnarfjarðarhöfn svo hægt væri að aka að og frá borði, en fram að því höfðu allir bílar verið hífðir á land. Með tilkomu skipsins lækkaði flutnings- og uppskipunarkostnaður verulega auk þess sem meginreglan varð nú að bílar kæmu óskemmdir út flutningi til landsins.
Að því þarf ekki að spyrja að aðal keppinauturinn gerði allt hvað í þess valdi stóð til að halda sínum hlut í flutningunum, meðal annars með undirboðum að bjóða lægra verð. Sumir hluthafanna í Bifröst hf. féllu í þá freistni að þiggja þann kost heldur en standa við bakið á sínu félagi. Þegar kom fram um 1980 var skipafélagið Bifröst komið í talsverða rekstrarörðugleika og var selt keppinautnum, enda voru þar komnir nýir menn að stjórn og fyrirsjáanlegt að ekki yrði horfið aftur til gamla fyrirkomulagsins. Til langs tíma stendur eftir að stofnun Bifrastar hf. flýtti verulega fyrir því að nútíminn hélt innreið sína í skipaflutninga að og frá landinu.
Málefni verkstæða og skoðunnar
1976 lagði BGS fram greinargerð um stöðu bílaverkstæða gagnvart Bifreiðaeftirliti ríkisins. Þetta var í raun fyrsti áfangi að breyttum aðferðum við skoðun bifreiða og að skoðun yrði færð inn á verkstæðin. Endurskoðun á verkstæðum var fyrst kynnt 1983 og hófst sem tilraun á Norðurlandi 1984. Árið 1987 er endurskoðun komin um allt land og síðan þróast þetta í það form sem er í dag. Bílgreinasambandið vann og sá um námskeið fyrir endurskoðun og sá um úttektir og lagði grunninn að endurskoðun á verkstæðum.
Tjónabílar - reglugerð um gerð og búnað - áfrýjunarnefnd - sáttamaður
Tillögur um afskráningu tjónabíla hafa verið á dagskrá allt frá 1983. Árið 1984 var í gangi sérstakt átak gegn fúski „Fúsk er ekki til fyrirmyndar” og unnin sérstök viðgerðaskýrsla fyrir bíla sem skemmst hafa í árekstrum. Þá komust einnig á sérstök burðarvirkis- og hjólastillinganámskeið. Segja má að þetta sé grunnur að þeirri skoðun og eftirliti með tjónabílum sem nú er orðinn veruleiki, en 1998 hófst sérstök skráning tjónabíla.
Ný reglugerð um gerð og búnað ökutækja var unnin 1989 og vann BGS mikið að gerð þeirra reglugerða í samræmi við erlenda framleiðendur og fulltrúa þeirra og sá um að reglugerðin væru gefin út á ensku.
Áfrýjunarnefnd var stofnuð í samvinnu við FÍB í september 1975. Um leið tók sáttamaður til starfa og hefur hann starfað óslitið frá þessum tíma m.a. að kvörtunarþjónustu. Hann tekur að sér að leysa úr ágreiningi um verkstæðisvinnu og ábyrgð nýrra bíla sem upp kunna að koma.
Innflutningsgjöld - vörugjöld
1978 var innflutningsgjald á vörubifreiðar lækkað allnokkuð eftir að BGS sýndi fram á að meðalaldur stórra vörubifreiða í landinu var orðin óeðlilega hár og vandræði höfðu myndast vegna ónógrar endurnýjunar þeirra. BGS hefur löngum barist fyrir lækkun vörugjalda á bifreiðir og varahluti, jafnframt samræmingu gjalda á bílgreinina í heild sinni. Gjöld á bíla hafa breyst oft á undanförnum árum, lækkuðu mikið á árinu 1986 og hækkuðu síðan aftur, en hafa lækkað aftur frá 1993. BGS hefur ítrekað bent á hinar miklu tekjur ríkisins af bílum og nauðsyn þess að stjórnvöld marki ákveðna stefnu í gjaldamálum bílgreinarinnar. Bílgreinasambandið gaf út skýrslu um bílagjöld og bar fram ákveðnar tillögur þar að lútandi 1997 og 1998. Frá 1993 og fram til dagsins í dag hefur gjaldflokkum fækkað úr 7 í 2 og hæstu vörugjöld á ökutæki hafa lækkað um helming.
Frjáls verðlagning - ábyrgðargjald - virðisaukaskattur
Bílgreinasambandið fékk Hagvang til að vinna skýrslu um skilyrði frjálsrar verðlagningar í bílgreininni 1980 og 1985. Þetta varð grunnur að breytingum í verðlagsmálum og forsenda þess að verðlagning í bílgreininni var með því sem fyrst var gefið frjálst. Fyrst hafði verið tekið upp sérstakt 2% ábyrgðargjald á bifreiðir 1980 eftir könnun á kostnaði við ábyrgðarviðgerð. Við þetta hækkaði álagning á bifreiðir um nærri þriðjung, en hæsta leyfileg álagning var þá um 7%.
Í kjölfar þessara kannana Hagvangs á skilyrðum frjálsrar verðlagningar var álagning á bifreiðavarahluti gefin frjáls 1984 og bifreiðar nokkru síðar. Útseld vinna á verkstæðum var gefin frjáls 1. október 1986, m.a. á grundvelli könnunar BGS á álagningu og samkeppni. Ýmsar aðrar iðngreinar fylgdu í kjölfarið.
1989 tók virðisaukaskattur gildi og var kynning, umfjöllun og upplýsingamiðlun um virðisaukaskatt í bílgreininni viðamikið verkefni.
Árið 1993 var virðisaukaskattur af ábyrgðarviðgerðum felldur niður eftir baráttu BGS. Í framhaldi stóðu aðilar innan BGS að málarekstri gagnvart skattayfirvöldum og höfðu sigur.
Árið 2020 var bílgreinin aðila að verkefninu "Allir vinna" þar sem eigendur fólksbíla hafa tækifæri til að óska eftir endurgreiðslu viðrisaukaskatts af vinnu sem er unnin á ökutæki þeirra.
Gæðaátak - gæðavottun
Á aðalfundi 1995 var gengist fyrir gæðaátaki á smurstöðvum og er það upphaf að viðurkenningu, vottun og eftirliti á með verkstæðum Bílgreinasambandsins.
|