Fara í efni

TÍMAMÓT. VOLVO RAFMAGNSVÖRUBÍLASÝNING OG REYNSLUAKSTUR

Það verða stór tímamót hjá Velti, Volvo atvinnutækjasviði Brimborgar, og tímamót á Íslandi þegar fyrstu 14 rafmagnsvörubílarnir og þeir fyrstu á Íslandi verða til sýnis og boðið verður upp á reynsluakstur, en bílarnir eru allir frá alþjóðlega vörubílaframleiðandanum Volvo Trucks.

  • Sýningarstaður: Hádegismóar 8, 110 Árbæ
  • Sýningartími: Laugardagurinn 29. apríl frá 10:00 – 16:00

Ökupróf: Gild, aukin ökuréttindi, eru nauðsynleg til að fá að reynsluaka. Þau sem ekki hafa aukin ökuréttindi fá að sitja í með starfsmanni Veltis. Börn skulu vera í fylgd með fullorðnum.

Þessi tímamót ryðja brautina fyrir sjálfbæra þungaflutninga á Íslandi með það að markmiði að allir þungaflutningar verði á íslensku rafmagni enda er rafmagn beint á ökutæki lang orkunýtnasta leiðin. Það styður við endurreiknaða raforkuspá Orkustofnunar frá apríl 2023 þar sem gert er ráð fyrir að árið 2040 verði öll nýskráð ökutæki, meðal annars vörubílar og rútur, rafknúin.

Leiðtogar í orkuskiptum í atvinnulífinu stíga stór skref

Leiðtogar í orkuskiptum, Ölgerðin, Garðaklettur, Eimskip, Íslandspóstur, GS Frakt, Íslenska gámafélagið, Ragnar og Ásgeir, Húsasmiðjan og Steypustöðin fá afhenta fyrstu rafmagnsvörubílana. Þessi fyrirtæki starfa í fjölbreyttum geirum atvinnulífsins og eiga það sameiginlegt að vera öflugir leiðtogar í orkuskiptum á Íslandi.

Þung ökutæki vega mikið í losun koltvísýrings

Losun frá vegasamgöngum er 31% af heildarlosun sem er á beinni ábyrgð Íslands. Ef markmið stjórnvalda um 55% samdrátt í heildarlosun árið 2030 miðað við árið 2005 er heimfært upp á vegasamgöngur þá þarf losun frá þeim að fara úr 775 þús tonnum af koltvísýringsígildum (tCO2í) í 349 þús. tonn árið 2030. Til að ná markmiði um jarðefnaeldsneytislausar vegasamgöngur í samræmi við markmið stjórnvalda um jarðefnaeldsneytislaust Ísland árið 2040 þá má ekkert jarðefnaeldsneytisökutæki vera í landinu í lok árs 2039.

Í dag eru 278 þús ökutæki í landinu, þar af um 18 þús. rafknúin og um 260 þús. jarðefnaeldsneytisökutæki. Af þessum jarðefnaeldsneytisökutækjum teljast 4.437 þeirra í árslok 2022 til þungra ökutækja sem er 1,7% af jarðefnaeldsneytisökutækjum landsins. En losun þessara ökutækja er áætluð 128,8 þús. tonn af koltvísýringsgildum árið 2022 sem nemur 14,6% af heildarlosun frá vegasamgöngum. Það er því til mikils að vinna að rafvæða þungaflutninga.

Stór hluti þungaflutninga getur farið strax á rafmagn með miklum ávinningi

Flest verkefni er hægt að leysa strax í dag með rafknúnum vörubílum í öllum þéttbýliskjörnum og í allt að 200 km radíus í kringum þá eða milli þeirra. Ávinningur er gríðarlegur fyrir notendur, rekstraraðila og íslenskt samfélag. Má þar nefna;

  • Betri orkunýtni
  • Styttri þjónustutími og lengri nýtingartími bílanna
  • Betra vinnuumhverfi fyrir bílstjóra vegna minni hávaða og titrings
  • Minni koltvísýringslosun sem styður við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og hjálpar fyrirtækjum að ná sjálfbærnimarkmiðum sínum
  • Betri loftgæði vegna engrar NOx- og sótmengunar
  • Minni hávaðamengun sem bætir lífsgæði í þéttbýliskjörnum en gerir um leið kleift að nota þungaflutningabíla utan dagvinnu
  • Orkusjálfstæði og orkuöryggi fyrir Íslendinga
  • Minni virkjanaþörf eða meiri orka verður til reiðu fyrir aðra geira atvinnulífsins
  • Betri nýting á dreifikerfi raforku um allt land þar sem hleðsla rafknúinna ökutækja mun að miklu leiti fara fram á kvöldin og nóttunni þegar lægð er í raforkunotkun
  • Styrkir hraðhleðslunet fyrir rafknúin ökutæki um allt land því fólksbílar geta auðveldlega notað sömu hleðslustöðvar og rafknúnir vörubílar
  • Sterkari ímynd Íslands sem land endurnýjanlegrar orku, hreins lofts og ósnortnar náttúru

Ítarefni má finna hér.

Allar nánari upplýsingar veitir Marteinn Jónsson, framkvæmdarstjóri Veltis, marteinn@veltir.is eða í síma 5109101.