Allsherjar rafbílasýning BL
BL heldur allsherjar rabílasýningu á morgun, laugardag, í sýningarsal fyrirtækisins við Sævarhöfða og opnar húsið kl. 10 með léttum veitingum. Formleg dagskrá hefst kl. 11 með klukkustundarlangri fræðslu um tækni bíla sem búnir eru rafmótor, hvort sem aðalaflgjafa eða til aðstoðar sprengihreyfli. Að lokinni fræðslu hefst rafbílasýningin sem stendur frá kl. 12 til 16.
Tólf mismunandi rafvæddir bílar
Á sýningunni við Sævarhöfða verða sýndar tólf gerðir raf- og tengiltvinnbíla frá sex framleiðendum sem BL hefur umboð fyrir. Um er að ræða 100% rafbílana BMW i3, Jaguar I-Pace, Hyundai Kona og Ionic, Nissan Leaf og e-NV200 og Renault Kangoo EV og ZOE, og tengiltvinnbílana Hyundai Ioniq og Mini Countryman BMW 2 Series og loks hinn nýja BMW X5 xDrive45e, sem frumsýndur verður á morgun í BMW-salnum við Sævarhöfða.
Rafbílaskóli BL
Þess má geta að áður en rafbílasýningin hefst á morgun, eða kl. 11, verður haldinn fyrirlestur með fræðslu um það helsta sem við kemur hugmyndafræðinni að baki tækni bíla með rafmótor, hvort sem um er að ræða bíla þar sem eini aflgjafinn er rafmótor eða bíla sem hafa bæði rafmótor og sprengihreyfil, svo sem tengiltvinnbíla eða tvinnbíla þar sem rafmótorinn gegnir mismunandi hlutverki. Um er að ræða fyrsta fyrirlestur rafbílaskóla BL sem starfræktur verður vikulega frá og með næsta ári fyrir áhugasama aðila sem skrá sig hjá BL og verða fyrirlestrarnir hugsaðir fyrir tíu þátttakendur að hámarki í hvert sinn. Ekki þarf að skrá sig á fyrirlesturinn á morgun og geta allir sem áhuga hafa komið og hlýtt á fyrirlesturinn.