Fara í efni

Nýr rafmagnaður Kia e-Soul frumsýndur

Bílaumboðið Askja frumsýnir nýjan Kia e-Soul, 100% rafbíl, í Kia húsinu að Krókhálsi 13 nk. laugardag, 17.ágúst kl. 12-16. Mikil eftirvænting hefur ríkt eftir komu bílsins eftir að hann var fyrst kynntur á alþjóðlegu bílasýningunni í LA í vetur.

Ný kynslóð e-Soul er mjög breytt í hönnun sem og aksturseiginleikum frá núverandi Soul EV. Eins og forverinn er e-Soul nettur fjölnotabíll og er hábyggðari en fólksbílar af svipaðri stærð sem þýðir þægilegt er að ganga um hann þar sem sætin eru há og útsýni gott. Hönnun nýja bílsins er glæsileg, innanrýmið er vandað og nútímalegt og búið góðum þægindum og öllum helsta tæknibúnaði sem völ er á frá Kia. Hátæknivæddur 10,25 tommu skjár miðlar öllum upplýsingum um akstur og afþreyingu til ökumanns og farþega. Kia e-Soul er mjög rúmgóður miðað við aðra rafbíla í þessum stærðarflokki.

Nýr e-Soul er aflmeiri og langdrægari en forverinn auk þess sem aksturseiginleikar bílsins hafa verið bættir enn frekar. Rafmótorinn skilar bílnum 204 hestöflum og hann er aðeins 7,9 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Drægnin er mikil eða alls 452 km miðað við hinn nýja WLTP staðal.

Forverinn Kia Soul EV hefur notið mikilla vinsælda um allan heim síðan hann kom fyrst fram á sjónarsviðið fyrir fimm árum. Suður-kóreski bílaframleiðandinn  bindur miklar vonir við að arftaki hans e-Soul verði enn vinsælli enda býður nýi bíllinn upp á meiri kraft og aukna drægni sem og enn betri aksturseiginleika.