Nýir Mercedes-Benz GLC og GLS frumsýndir
Bílaumboðið Askja mun frumsýna nýja Mercedes-Benz GLC og GLS sportjeppa nk. laugardag að Krókhálsi 11 klukkan 12-16.
GLC sem tengiltvinn
GLC kemur nú í nýrri tengiltvinnútfærslu með bensínvél og rafmótor. Samanlagt skilar tengiltvinnvélin 320 hestöflum í gegnum hina einstöku níu þrepa sjálfskiptinguna 9G-TRONIC. Rafhlaðan er stærri en áður og er drægið nú allt að 50 km á hreinu rafmagni samkvæmt WLTP-staðli. Síðar á árinu verður GLC fáanlegur sem tengiltvinnbíll með dísilvél.
Nýr GLC er glæsilega hannaður sportjeppi með kraftmiklar og skýrar línur. Sportlegir stuðarar og sterklegt útlit einkennir GLC og ný LED aðalljós gefa honum sterkan svip.
Stjórnkerfið er nýstárlegt og einfalt. Í GLC er nýr og stór 10,25” háskerpuskjár með hinu margrómaða MBUX margmiðlunarkerfi sem hægt er að stjórna bæði með snertingu og rödd. GLC er búinn nýjustu aksturs- og örygggiskerfum frá Mercedes-Benz. Hann greinir veginn vel, ójöfnur og krappar beygjur. GLC er búinn hinu tæknivædda 4MATIC fjórhjóladrifi frá Mercedes-Benz sem er alltaf í fullri virkni hvort sem ekið er á rafmagni eða eldsneyti.
Stór og stæðilegur GLS
Nýr GLS er stór og stæðilegur jeppi sem býður upp á meiri þægindi, fullkomnari tæknibúnað og meiri lúxus en áður. Í GLS eru sæti fyrir 7 manns og hægt er að stilla sætin eftir fjölda farþega og farangursmagni. GLS er einnig fáanlegur í 6 sæta lúxusútfærslu. Hann býður upp á allt að 2.400 lítra farangursrými. Jeppinn er búinn 9G-TRONIC, níu gíra sjálfskiptingu sem er skilvirk, þægileg, snörp og dregur úr eldsneytisnotkun þegar við á. Hin fullkomna loftpúðafjöðrun í jeppanum bregst ávallt hárnákvæmt við ólíkum akstursaðstæðum og gerir aksturinn betri og öruggari.
GLS er búinn hinu háþróaða MBUX-margmiðlunarkerfi sem lagar sig að venjum ökumanns og gerir hvern akstur að ánægjustund með þrívíðri grafík, snertiskjá og raddstýringu.
GLS 350d skilar 286 hestöflum en jeppinn er einnig fáanlegur með kraftmeiri dísil- og bensínvélum, sem skila allt að 612 hestöflum. Dráttargetan er alls 3.5 tonn og jeppinn er búinn 4MATIC fjórhjóladrifinu.