mbl.is segir frá
"Fyrir fáeinum vikum birtust greinar í bílablaði Morgunblaðsins þar sem fjallað var um viðgerða tjónabíla. Lýstu fagaðilar áhyggjum sínum af því að illa viðgerð ökutæki gætu reynst dauðagildrur í umferðinni og að eftirliti með viðgerðum væri verulega ábótavant.
Borið hefur á því að viðgerðir á tjónabílum sem keyptir eru á uppboðum séu ekki í samræmi við þá staðla sem framleiðandinn setur og hafa dæmin því miður sýnt að öryggisbúnaður í sumum þessara viðgerðu tjónabíla hafi ekki virkað í alvarlegum umferðarslysum, enda ekki verið skipt um hann eins og gert er ráð fyrir. Hér er auðvitað vitnað í verstu dæmin en eins og flestir hljóta að vera sammála um er hvert banaslys (eða alvarlegt slys) í umferðinni einu slysi of mikið.
Hvað um tryggingafélögin?
Tryggingafélögin hafa selt tjónabíla á uppboðum og eins og fram kom í samtali við Özur Lárusson hjá Bílgreinasambandinu sem rætt var við í blaðinu hinn 20. janúar hafi sala á tjónabílum verið í ágætu horfi fyrir hrun. Eftir hrun hafi orðið algengara að hver sem er geti boðið í þessa bíla. Úr þessu þarf að bæta á nýjan leik. Það er þó ekki algilt að tryggingafélög sýni ekki aðgát þegar að sölu tjónabíla kemur. Þegar allt kemur til alls er það vissulega allra hagur að þeir bílar sem í umferð eru séu öruggir. Bæði borgaranna og tryggingafélaganna.
Tryggingafélagið Sjóvá brást við greinunum tveimur sem minnst var á hér að ofan og útskýrði hvernig staðið væri að sölu tjónabíla þeim megin. „Við höfum unnið mjög ötullega að því að stuðla að auknu umferðaröryggi og einn liður í því er að vinna markvisst með verkstæðum að því að ná fram enn meiri gæðum og það samstarf hefur gengið mjög vel,“ segir Auður Daníelsdóttir, framkvæmdastjóri tjónasviðs Sjóvár. Eftir sem áður segir hún að Sjóvá hafi mikinn áhuga á því að efla samstarfið enn frekar, bæði við verkstæðin sem og Samgöngustofu og Frumherja. Vikið verður að því síðar í greininni.
Tjónamat, niðurrifslás og partasölur
Í kjölfar tjóns sem kemur inn á borð hjá Sjóvá fer bíll í tjónamat hjá viðurkenndu réttingarverkstæði og sé bíllinn viðgerðarhæfur sér viðurkennt verkstæði um viðgerðina. Í þeim tilvikum þegar áætlaður viðgerðarkostnaður er umfram verðmæti bílsins kaupir Sjóvá bílinn. „Þrátt fyrir að ökutækið standi ekki undir viðgerðarkostnaði eru oft töluverð verðmæti í því sem eru nýtt. Þá er tvennt í stöðunni þ.e. selja ökutækið til partasala og þá með niðurrifslás eða selja það á útboðsvefnum bilauppboð.is. Þau ökutæki sem eru með skráninguna tjónabíll eða eru það mikið tjónuð að þau ógna umferðarörygginu eru alltaf seld með niðurrifslás frá Sjóvá,“ segir Auður.
Þegar tjónaður bíll er skráður með niðurrifslás í ökutækjaskrá og skráningarnúmerin lögð inn hjá Samgöngustofu er ekki hægt að skrá bílinn aftur í umferð og fer hann því eingöngu til notkunar á varahlutum. „Þetta,“ segir Auður, „er eingöngu gert til að girða fyrir það að tjónuð ökutæki fari eftirlitslaust í umferðina aftur.“ Í sumum tilvikum væri án efa hægt að fá meira fyrir bílflakið með því að selja bílinn á uppboði án niðurrifsláss og hefur það ef til vill freistað einhverra en væri það áhættunnar virði?
„Það er að frumkvæði Sjóvár sem niðurrifslásinn kemur til á sínum tíma. Tilgangur þessa var eingöngu til efla umferðaröryggi,“ segir Auður.
Millistig í ferlið
Niðurrifslásinn hefur sannað gildi sitt og væri ánægjulegt og neytendum í hag að hann væri notaður víðar. Sjóvá hefur viðrað hugmynd til að stuðla frekar að öryggi og það er að fá eins konar millistig í ferlið á milli tjóns og þess sem verða vill um bílinn. „Við hjá Sjóvá viljum efla þetta enn frekar og fá fram millistig í ferlið. Við höfum komið því á framfæri við Samgöngustofu og Frumherja að öll ökutæki sem eru seld á uppboðsvefnum sem ekki falla undir það að vera með niðurrifslás verði tekin af númerum þannig að þegar að viðgerð er lokið þá fái þau í úttekt hjá fagaðilum áður en þau fara aftur í umferðina. Við teljum mikinn öryggisávinning af því að fara þessa leið og með því má girða fyrir eitt gapið í þessu ferli,“ segir Auður Daníelsdóttir, framkvæmdastjóri tjónasviðs Sjóvár. Nánar verður fjallað um millistigið þegar það hefur verið rætt hjá þeim sem að málinu kunna að koma."
http://www.mbl.is/bill/frettir/2015/02/17/vilja_millistig_i_vidgerdaferli/