Fara í efni

Vilja millistig í viðgerðaferli tjóna­bíla

Fréttir

mbl.is segir frá

"Fyr­ir fá­ein­um vik­um birt­ust grein­ar í bíla­blaði Morg­un­blaðsins þar sem fjallað var um viðgerða tjóna­bíla. Lýstu fagaðilar áhyggj­um sín­um af því að illa viðgerð öku­tæki gætu reynst dauðagildr­ur í um­ferðinni og að eft­ir­liti með viðgerðum væri veru­lega ábóta­vant.

Borið hef­ur á því að viðgerðir á tjóna­bíl­um sem keypt­ir eru á upp­boðum séu ekki í sam­ræmi við þá staðla sem fram­leiðand­inn set­ur og hafa dæm­in því miður sýnt að ör­ygg­is­búnaður í sum­um þess­ara viðgerðu tjóna­bíla hafi ekki virkað í al­var­leg­um um­ferðarslys­um, enda ekki verið skipt um hann eins og gert er ráð fyr­ir. Hér er auðvitað vitnað í verstu dæm­in en eins og flest­ir hljóta að vera sam­mála um er hvert bana­slys (eða al­var­legt slys) í um­ferðinni einu slysi of mikið.

Hvað um trygg­inga­fé­lög­in?

Trygg­inga­fé­lög­in hafa selt tjóna­bíla á upp­boðum og eins og fram kom í sam­tali við Özur Lárus­son hjá Bíl­greina­sam­band­inu sem rætt var við í blaðinu hinn 20. janú­ar hafi sala á tjóna­bíl­um verið í ágætu horfi fyr­ir hrun. Eft­ir hrun hafi orðið al­geng­ara að hver sem er geti boðið í þessa bíla. Úr þessu þarf að bæta á nýj­an leik. Það er þó ekki al­gilt að trygg­inga­fé­lög sýni ekki aðgát þegar að sölu tjóna­bíla kem­ur. Þegar allt kem­ur til alls er það vissu­lega allra hag­ur að þeir bíl­ar sem í um­ferð eru séu ör­ugg­ir. Bæði borg­ar­anna og trygg­inga­fé­lag­anna.

Trygg­inga­fé­lagið Sjóvá brást við grein­un­um tveim­ur sem minnst var á hér að ofan og út­skýrði hvernig staðið væri að sölu tjóna­bíla þeim meg­in. „Við höf­um unnið mjög öt­ul­lega að því að stuðla að auknu um­ferðarör­yggi og einn liður í því er að vinna mark­visst með verk­stæðum að því að ná fram enn meiri gæðum og það sam­starf hef­ur gengið mjög vel,“ seg­ir Auður Daní­els­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri tjóna­sviðs Sjóvár. Eft­ir sem áður seg­ir hún að Sjóvá hafi mik­inn áhuga á því að efla sam­starfið enn frek­ar, bæði við verk­stæðin sem og Sam­göngu­stofu og Frum­herja. Vikið verður að því síðar í grein­inni.

Tjóna­mat, niðurrifslás og parta­söl­ur

Í kjöl­far tjóns sem kem­ur inn á borð hjá Sjóvá fer bíll í tjóna­mat hjá viður­kenndu rétt­ing­ar­verk­stæði og sé bíll­inn viðgerðar­hæf­ur sér viður­kennt verk­stæði um viðgerðina. Í þeim til­vik­um þegar áætlaður viðgerðar­kostnaður er um­fram verðmæti bíls­ins kaup­ir Sjóvá bíl­inn. „Þrátt fyr­ir að öku­tækið standi ekki und­ir viðgerðar­kostnaði eru oft tölu­verð verðmæti í því sem eru nýtt. Þá er tvennt í stöðunni þ.e. selja öku­tækið til parta­sala og þá með niðurrifslás eða selja það á útboðsvefn­um bila­upp­boð.is. Þau öku­tæki sem eru með skrán­ing­una tjóna­bíll eða eru það mikið tjónuð að þau ógna um­ferðarör­ygg­inu eru alltaf seld með niðurrifslás frá Sjóvá,“ seg­ir Auður.

Þegar tjónaður bíll er skráður með niðurrifslás í öku­tækja­skrá og skrán­ing­ar­núm­er­in lögð inn hjá Sam­göngu­stofu er ekki hægt að skrá bíl­inn aft­ur í um­ferð og fer hann því ein­göngu til notk­un­ar á vara­hlut­um. „Þetta,“ seg­ir Auður, „er ein­göngu gert til að girða fyr­ir það að tjónuð öku­tæki fari eft­ir­lits­laust í um­ferðina aft­ur.“ Í sum­um til­vik­um væri án efa hægt að fá meira fyr­ir bíl­flakið með því að selja bíl­inn á upp­boði án niðurrifsláss og hef­ur það ef til vill freistað ein­hverra en væri það áhætt­unn­ar virði?

„Það er að frum­kvæði Sjóvár sem niðurrifslás­inn kem­ur til á sín­um tíma. Til­gang­ur þessa var ein­göngu til efla um­ferðarör­yggi,“ seg­ir Auður.

Millistig í ferlið

Niðurrifslás­inn hef­ur sannað gildi sitt og væri ánægju­legt og neyt­end­um í hag að hann væri notaður víðar. Sjóvá hef­ur viðrað hug­mynd til að stuðla frek­ar að ör­yggi og það er að fá eins kon­ar millistig í ferlið á milli tjóns og þess sem verða vill um bíl­inn. „Við hjá Sjóvá vilj­um efla þetta enn frek­ar og fá fram millistig í ferlið. Við höf­um komið því á fram­færi við Sam­göngu­stofu og Frum­herja að öll öku­tæki sem eru seld á upp­boðsvefn­um sem ekki falla und­ir það að vera með niðurrifslás verði tek­in af núm­er­um þannig að þegar að viðgerð er lokið þá fái þau í út­tekt hjá fagaðilum áður en þau fara aft­ur í um­ferðina. Við telj­um mik­inn ör­ygg­is­ávinn­ing af því að fara þessa leið og með því má girða fyr­ir eitt gapið í þessu ferli,“ seg­ir Auður Daní­els­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri tjóna­sviðs Sjóvár. Nán­ar verður fjallað um millistigið þegar það hef­ur verið rætt hjá þeim sem að mál­inu kunna að koma."

http://www.mbl.is/bill/frettir/2015/02/17/vilja_millistig_i_vidgerdaferli/