Fara í efni

Vetrarfundur BGS fór fram hjá Velti

Fréttir

Á hverju ári heldur Bílgreinasambandið svokallaðan vetrarfund fyrir alla sína félagsmenn. Var hann núna haldinn fimmtudaginn 23. janúar síðastliðinn en í hvert sinn er fundurinn haldinn á mismunandi stöðum eftir því hvað ber hæst og hvað er áhugavert að skoða á hverjum tíma. Að þessu sinni fór fundurinn fram í nýjum og glæsilegum húsakynnum Veltis - atvinnutækjasviðs Brimborgar að Hádegismóum 8 en óhætt er að fullyrða að þar er ein besta og flottasta verkstæðisaðstaða sem fyrirfinnst á landinu.

Fundurinn gefur félagsmönnum tækifæri til að hittast yfir léttum veitingum og eiga gott samtal sín á milli en ekki síður að fræðast og sjá hvað er efst á baugi á markaðnum hverju sinni. Að þessu sinni hélt María Jóna Magnúsdóttir framkvæmdastjóri BGS kynningu á því helsta sem hefur verið unnið að hjá sambandinu á síðastliðnu ári og þá hélt Sigurður Svavar Indriðason frá Iðunni stutta tölu um nám í bílgreinum sem hefur verið í mikilli sókn síðustu misserin. Einnig hélt Egill Jóhannsson forstjóri Brimborgar erindi um Brimborg með áherslu á Velti og hið nýja húsnæði fyrirtækisins. Að þessu loknu bauðst félagsmönnum að rölta um húsið í fylgd starfsmanna og kynna sér aðstæður og heyra söguna að baki byggingu hússins þar sem allsstaðar var vandað til verka. Þótti þetta mjög áhugavert og vakti mikla lukku á meðal félagsmanna.

Líflegum og fræðandi fundi er þar með lokið þetta árið og þakkar BGS félagsmönnum sínum fyrir frábæra mætingu.