Fara í efni

Velta Brimborgar jókst um 1700 milljónir

Fréttir

www.visir.is segir frá

Hagnaður bílaumboðsins Brimborgar nam rúmlega 62 milljónum króna á síðasta ári, samkvæmt ársreikningi. Það er verulegur viðsnúningur frá fyrra ári þegar fyrirtækið tapaði 183 milljónum króna. 

Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 693 milljónum króna en afskriftir námu tæplega 279 milljónum og nam rekstrarhagnaðurinn því 414 milljónum. Rekstrartekjur fyrirtækisins námu rétt rúmlega 9,3 milljörðum íslenskra króna. Eignir félagsins nema 5,5 milljörðum króna, en eigið fé er tæpar 675 milljónir. Eiginfjárhlutfallið er rúm 12 prósent. 

Stjórnendur Brimborgar telja að heildarmarkaður bíla (fólksbílar, sendibílar, minni rútur og pallbílar) hafi vaxið umtalsvert á liðnu ári. Í greinargerð sem fylgir ársreikningnum kemur fram að 10.462 nýir bílar hafi verið skráðir á árinu sem er 32 prósent vöxtur frá fyrra ári þegar aðeins 7.913 nýir bílar voru nýskráðir. Vöxtur bílamarkaðar án bílaleigubíla var 24 prósent.

Þá segir í greinargerðinni að 4.470 bílaleigubílar hafi selst á árinu sem er 45 prósent vöxtur og hlutfall þeirra af heildarsölu var 43 prósent. „Sala til annarra fyrirtækja en bílaleiga tók vel við sér og óx um 35 prósent og nam 2.008 bílum,“ segir í greinargerðinni. 

Þá kemur einnig fram að einstaklingsmarkaður fór rólega af stað á árinu 2014 en tók við sér seinni hluta ársins og jókst sala til einstaklinga á árinu um 19 prósent. Keyptu einstaklingar 3.984 bíla sem er 38 prósent af heildarmarkaði. Brimborg seldi 1.282 nýja bíla sem er 57 prósent vöxtur frá fyrra ári þegar seldust 817 nýir bílar.

http://www.visir.is/velta-brimborgar-jokst-um-1700-milljonir/article/2015703179917