Fara í efni

Vel heppnuðum aðalfundi Bílgreinasambandsins lokið

Fréttir

Á aðalfundi Bílgreinasambandsins, sem fór fram í gær, var sérstaklega fjallað um aðgerðir gegn svarti atvinnustarfsemi. Ennfremur var ályktað um ástand vega, sem er óvenju slæmt og hvílir jafnt á bíleigendum og bílgreininni. Stjórnarkjör fór fram og var Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju, endurkjörinn formaður Bílgreinasambandsins.

Aðildarfyrirtæki Bílgreinasambands Íslands eru 126 og starfa þau á flestum sviðum bílgreinarinnar. Ýmis brýn málefni voru lögð fyrir fundinn. Til sérstakrar umræðu voru aðgerðir gegn svartri atvinnustarfsemi innan greinarinnar, sem er nýtt og gamalt málefni sem Bílgreinasambandið hefur beitt sér gegn og beint til þar þar til bærra yfirvalda.

Þá var fjallað um meðferð tjónabíla og ábyrgðarmál.

Stjórnarkjör fór fram á aðalfundinum. Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju, var endurkjörinn formaður sambandsins. Nýr í stjórn er Friðbert Friðbertsson, framkvæmdastjóri Heklu. Aðrir í stjórn eru Einar Sigurðsson frá Bifreiðaverkstæði Reykjavíkur, Skúli Skúlason frá BL, Sverrir Gunnarsson frá Nýsprautun, Steingrímur Birgisson frá Höldi og Lárus Blöndal Sigurðsson frá Bílanausti. Varamenn voru kjörnir Atli Vilhjálmsson frá Betri bílum og Benedikt Eyjólfsson frá Bílabúð Benna.  Rúmlega 70 manns mættu á aðalfund enda voru málefni og fyrirlestrar athyglisverð og var gerður góður rómur að.

Aðalfundurinn sendi frá sér sérstaka ályktun þar sem bent var á bágborið ástand vega og gatnakerfisins.Hér undir má lesa þá ályktun:

„Aðalfundur Bílgreinasambandsins haldinn 26. mars sl. á Hótel Reykjavík Natura sendir frá sér eftirfarandi ályktun. 

Eins og mikið hefur verið í umræðunni uppá síðkastið er ástand vega og gatna, hvort sem um er að ræða þjóðvegi eða vegi í þéttbýli afar bágborið og er staðan víða þannig að hættuástand hefur myndast. Fjöldi bifreiða hefur skemmst bæði þannig að hjólbarðar og felgur hafa eyðilagst sem og hjólabúnaður hefur laskast og þannig skapast mikil hætta fyrir þá aðila sem í umræddum bílum ferðast sem og öðrum sem á vegi þeirra kunna að verða. 

Aðilar innan Bílgreinasambandsins fagna ávallt að hafa næg verkefni en þeim hefur fjölgað gífurlega nú í vetur vegna ástands gatna og vega. Það er hins vegar engum greiði gerður með stórhættulegu gatnakerfi og því  telja aðilar Bílgreinasambandsins sig knúna til að benda stjórnvöldum á þessa  alvarlegu stöðu sem er að skapa stórhættu oft á dag og gæti endað með banaslysi.  Öllum er ljóst að undanfarin ár hefur mikið skort á í viðhaldi vega og gatna vegna mikils niðurskurðar og nú verður ekki lengur við svo búið. 

 Aðalfundur Bílgreinasambandsins hvetur alla sem hlut eiga að máli að hefjast handa við að bæta úr þessu ófremdarástandi og nýta þá fjármuni sem falla  til m.a. í gegnum skattkerfi bílgreinarinnar sbr. bensínskatta til viðhalds og endurnýjunar vegakerfisins þar til vegir og götur eru komin í viðunandi ástand að nýju.   

Þá vill Bílgreinasambandið benda á að við búum á norðurhjara veraldar, þar sem bíllinn er einn þarfasti þjónninn og flest allar aðgerðir til að þrengja um of að bílnum, t.d. með þrengingum gatna, fækkun bílastæða o.s.frv. eru til þess fallnar að auka kostnað og óþægindi íbúanna og þeirra sem byggja þetta land.“

Nánari upplýsingar um ályktanir fundarins veita Jón Trausti Ólafsson, formaður Bílgreinasambandsins og Özur Lárusson, framkvæmdastjóri.