Fara í efni

Vænn kost­ur fyr­ir stór­ar fjöl­skyld­ur

Fréttir

Opel Zafira get­ur tal­ist góð viðbót við úr­val 7-manna bíla á markaðnum. Bæði er hann á ágætu verði og er prýðilega vel bú­inn.

Hann er ekki ódýr­asti 7-manna bíll­inn á markaðnum en gæti tal­ist til næ­stó­dýr­asta flokks­ins. Á móti kem­ur að í grunn­inn er bíll­inn býsna vel bú­inn.

Fyrsta kyn­slóð Opel Zafira kom á markað árið 1999, önn­ur kyn­slóð árið 2005 og sú þriðja árið 2011. Það er því þriðja kyn­slóð bíls­ins sem fá­an­leg er núna og var prófuð um helg­ina.

Rými og þæg­indi

Bíl­stjóri og farþegi í fram­sæti geta látið fara vel um sig í óþrjót­andi rým­inu. Dyrn­ar eru mjög stór­ar (líka að aft­an) og er auðvelt að kom­ast inn í bíl­inn, enda gengið beint inn og ekk­ert klif­ur. Sæt­in eru þægi­leg og hægt að stilla nokkuð marg­vís­lega. Það sama gild­ir um leður­klætt stýrið sem bæði má stilla hæð á og færa fram og aft­ur.

Vel fer um farþega í aft­ur­sæt­un­um, þ.e. á „öðrum bekk“ því þetta er jú 7-manna bíll. Í öft­ustu sæt­un­um tveim­ur gæti farið þokka­lega um grísl­inga en senni­lega er of lítið rými fyr­ir ung­linga nema í styttri bíltúra, eða eins og sum­ir segja: „Til að kom­ast á milli A og B.“

Þess ber að geta að eng­ar til­raun­ir voru gerðar, hvorki með grísl­inga né ung­linga, þannig að hér er aðeins um álykt­un und­ir­ritaðrar að ræða út frá rým­is­greind og til­finn­ingu.

Í heild má því segja að bíll­inn sé mjög þægi­leg­ur og rúm­góður, einkum og sér í lagi fyr­ir fimm manns. Tvö smælki geta vel bæst við án þess að þrengi að hinum fimm.

Afl og al­menn vinnsla

Zafira hef­ur það vel af að þræða Kamb­ana upp í móti í hálku og þæf­ingi. Eft­ir sem áður finn­ur maður að hann er ekki til stór­ræðanna með þessa vél. Hún er fín fyr­ir bíl af þess­ari stærð í venju­legt snatt og ferðalög að sumri til. Eitt er það sem kom veru­lega á óvart og það er hversu stöðugur bíll­inn er á veg­in­um í af­leitu veðri. Þrátt fyr­ir stærðina tek­ur hann ekki á sig mik­inn vind þannig og kem­ur þar hönn­un­in ör­ugg­lega við sögu. Veg­hljóð er ekki mjög mikið þó að ef­laust mætti ein­angra bet­ur. Tveggja lítra dísil­vél­in mall­ar nokkuð hátt og minn­ir ei­lítið á drátt­ar­vél sem get­ur verið nota­legt á köfl­um. Eyðslan var 6,8 l á hverja 100 kíló­metra í blönduðum akstri. Ein­hver áhrif hef­ur það haft hversu bál­hvasst var og færðin lé­leg. Má því reikna með að upp­gef­in eyðsla (frá fram­leiðanda), sem er um 6 l, geti vel staðist.

Verð og sam­keppni

Bíll­inn sem var prófaður var með glerþaki og fleiru sem telst til auka­búnaðar. Glerþakið er al­veg frá­bært því það birt­ir mjög til í bíln­um við að sjá þarna í gegn auk þess sem bíll­inn virðist stærri. Hafi kaup­end­ur ráð á má mæla með glerþak­inu en upp­lýs­ing­ar um verð fást hjá umboðinu.

Verðið er frá 5.790.000 kr. og kepp­ir Zafira við aðra 7-manna fólks­bíla á borð við Mazda 5, Toyota Prius +, Renault Grand Scenic, Kia Car­ens, Ford Grand C-Max og Citroën Grand C4 Picasso svo þeir helstu séu nefnd­ir.

Grand C-Max er þeirra ódýr­ast­ur og kost­ar frá 4.050.000 kr. Mazda 5 kost­ar frá 4.090.000 kr, Grand Scenic frá 4.290.000 kr., Prius + kost­ar frá 5.860.000 kr., C4 Picasso frá 4.390.000 kr., Car­ens frá 4.890.777 kr., Zafira frá 5.790.000 kr og Prius + kost­ar frá 5.860.000 kr. Sá síðast­nefndi er eini tvinn­bíll­inn af þeim sem hér eru nefnd­ir og því ekki al­veg rétt að bera hann sam­an við dísil­bíl­ana en hann fær samt að vera með segir á mbl.is