Frétt af mbl.is
Bílasala jókst um 13,7% í Evrópu í nýliðnum nóvember, samanborið við nóvember í fyrra. Bandarísk bílmerki sóttu mjög á í sölu, aðallega á kostnað Volkswagen sem heldur áfram að gjalda fyrir útblásturssvindlið svonefnda.
Samkvæmt upplýsingum frá samtök evrópskra bílsmiða námu nýskráningar í nóvember 1,12 milljón eintaka, samanborið við 989.758 í fyrra.
Skerfur Volkswagen í heildarmarkaðinum dróst saman úr 13,5% í 12,2% og þótt fyrirtækið yki sölu sína um 3,1% er það langt undir vexti markaðarins, sem ókst um 13,7%. Í heild jókst sala allrar VW-samsteypunnar um 3,9%. Misjafnt var gengi þýska bílsmiðsins eftir mörkuðum og lækkaði sala hans til dæmis um 20% í Bretlandi í nóvember í ár miðað við sama mánuð í fyrra.
Fiat Chrysler, Ford og Opel juku öll sölu sína um rúm 18%, Renault um 15,1% og PSA Peugeot Citroen um 12,8%.
Að mati sérfræðinga hjá greiningarfyrirtækinu Ernst & Young hefur bílamarkaðurinn vaxið um 8,6% frá áramótum til nóvemberloka. Gerir E&Y ráð fyrir að vöxtur haldi áfram en eitthvað geti þó hægst á honum.
http://www.mbl.is/bill/frettir/2015/12/15/uppsveifla_allra_nema_volkswagen/