UM FARNA KÍLÓMETRA Í ÓHAMINGJUSÖMU HJÓNABANDI
Næsta skref í nýju tekjuöflunarkerfi fyrir ökutæki og eldsneyti var lagt fram á Alþingi þann 22. október af fjármála- og efnahagsráðherra, í formi lagafrumvarps um kílómetragjald vegna notkunar ökutækja. Eigendur raf- og tengiltvinnbíla þekkja fyrsta skrefið. Markmiðið, samkvæmt frumvarpshöfundi, er að allir sem nota vegakerfið greiði gjald í samræmi við notkunina, innan sama kerfis.
Vont er þeirra ranglæti, verra þeirra réttlæti
Þrátt fyrir ætlað sanngirnimarkmið frumvarpsins mun það hafa verulegar afleiðingar og margir munu finna fyrir ójafnri ábyrgð. Á næsta ári munu:
- Eigendur rafmagnsfólksbíla greiða um 12% hærra kílómetragjald en á þessu ári.
- Eigendur smábíla sem eyða 5 lítrum af bensíni á hundraðið greiða 19,2% meira en á þessu ári.
- Eigendur jeppa og annarra stærri fólksbíla sem eyða 15 lítrum á hundraðið greiða 7% minna en á þessu ári.
- Eigendur eyðslufrekra vöruflutningabíla greiða 8,9% minna en á þessu ári.
- Eigendur hreinorku vöruflutningabíla greiða 3,1% meira á þessu ári.
Samkvæmt frumvarpshöfundi er markmiðið að tryggja að allir greiði sanngjarnt gjald fyrir notkun vegakerfisins. Sanngirni er honum augljóslega ofarlega í huga. Hins vegar sýna áhrifin, sem rakin hafa verið, að þeir sem hafa fjárfest í grænni tækni munu bera þyngri byrðar á meðan þeir sem nýta eyðslufrekari ökutæki hagnast.
„Við ætlum að setja loftslagsmál í forgang“
Í aðdraganda hjúskapar síðustu ríkisstjórnar var gerður kaupmáli sem frumvarpið vísar til. Samkvæmt skoðanakönnunum voru skilnaðarbörnin, þegnarnir, því fegnir að því sambandi lyki. Ekkert barnanna átti hins vegar von á að fá reikning fyrir búskiptunum.
Fyrirsögnin hér að ofan er tekin úr kaupmálanum en óhætt er að segja að efni hans endurspeglaði bjartsýni. „Markmiðið er að bæta lífskjör þeirra sem verst standa og styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækja. Áfram verður unnið að því að breytingar á sköttum og gjöldum styðji við loftslagsmarkmið.“
Um síðustu áramót tóku gildi lagabreytingar sem urðu þess valdandi að dýrara varð að fjárfesta í fólksbifreið sem eyðir litlu eða engu. Á sama tíma var eignarhald bifreiðanna gert óhagstæðara með hækkun bifreiðagjalds og upptöku kílómetragjalds.
Lagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir er ætlað að bæta ríkinu tekjumissi vegna ökutækja og það mun að óbreyttu raungerast. Í þeim efnum er markmiðið að tekjurnar nemi rúmum 102 milljörðum kr. árið 2029, sé tekið mið af spá Hagstofunnar um þróun landsframleiðslu. Til samanburðar námu tekjurnar tæpum 52 milljörðum kr. árið 2023.
Markviss skot geiga síður
Með frumvarpinu er ætlunin að afnema aðra eldsneytisskatta en kolefnisgjald sem hækka mun 100%. Kílómetragjaldið á að stoppa í gatið sem myndast og rúmlega það. Hugmyndafræðin er sú að allir ökutækjaeigendur sem teljast hafa sambærileg áhrif á vegakerfið greiði það sama.
„Við ætlum að setja loftslagsmál í forgang“ sagði ríkisstjórnin.
Afleiðingar frumvarpsins, sem voru raktar hér að framan, bera þess ekki vott að loftslagsmál séu lengur í forgangi. Ekki er lengur gert ráð fyrir að skattar á eigendur ökutækja styðji loftslagsmarkmið. Sjálfur vegurinn er mönnum hins vegar ofarlega í huga og það á að sækja meira skattfé í hann og ríkissjóð en hliðaráhrifin eru orðin aukaatriði.
Hliðaráhrifin
Eins og glögglega má sjá af framangreindri upptalningu afleiðinga mun frumvarpið veikja hvata til orkuskipta í samgöngum. Núverandi kerfi hefur veitt talsverða hvata til einstaklinga og fyrirtækja sem hafa aðlagað sig bæði með kaupum á eyðslugrönnum og umhverfisvænum ökutækjum sem eyða engu eða litlu jarðefnaeldsneyti. Með þessu frumvarpi, ásamt skattabreytingum síðasta árs, birtist sú mynd að þessi aðlögun hafi frekar verið eins og að taka lán og nú sé gjalddagi kominn. Þeir sem hafa fylgt hvötum standa nú frammi fyrir auknum kostnaði, sem birtist hver á fætur öðrum.
Umfjöllun frumvarpsins beinist nær öll að umferð á vegum. Þess er hins vegar lítt getið að áhrifin verði víðtækari en svo að aðeins notkun veganna sé undir. Tvöföldun kolefnisgjalds lendir á þeim sem ekki nota vegi í sinni starfsemi. Eigendur báta, þeir sem hita hús með olíu, iðnaðurinn, landbúnaðurinn, sjávarútvegurinn og eigendur staðbundinna tækja á borð við ljósavélar taka á sig verulega hækkun álaga. Ef fram fer sem horfir munu álögur á strandsiglingar hækka á sama tíma og Vegagerðin er að skoða hvernig þá megi efla eftir skipun hins nýfráskilda innviðaráðherra.
Úr hvaða veski?
En hver mun greiða? Atvinnulífið, svaraði nýskilinn innviðaráðherrann. Flestir gera sér grein fyrir að svarið er ekki einlægt því skattar rata í verðlag vöru og þjónustu. Þeir sem hafa fjárfest í eyðslugrannri bifreið munu greiða og þá helst þeir sem fara þurfa langan veg. Sama á við um þá sem þurfa á vöruflutningi að halda og þá helst þeir sem reka starfsemi langt frá vörudreifingarmiðstöðvum og verslunum. Eigendur smábáta munu greiða, bændur munu greiða, iðnaðurinn mun greiða o.fl.
Á endanum munu tveir hópar fá reikninginn, annars vegar neytendur, líklega fá neytendur á landsbyggðinni hann hæstan, og hins vegar viðskiptavinir útflutningsfyrirtækjanna. Verði staða útflutningsfyrirtækjanna slík að þau geti ekki hækkað verð munu þau sitja uppi með reikninginn með mögulegum áhrifum í heimabyggð.
Tækifæri til úrbóta
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu og Bílgreinasambandið hafa þegar komið á framfæri ábendingum um hvernig megi milda áhrif frumvarpsins og munu halda því áfram. Fróðlegt verður að sjá hvort þingmenn í kosningaham muni gefa sér tíma til að leggja við hlustir.
Höfundar: María Jóna Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins og Benedikt S. Benediktsson framkvæmdastjóri SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu