Fara í efni

Tví­orka á verði ein­orku

Fréttir

Frétt af mbl.is

Hvaða bíll er það eig­in­lega sem ber sama heiti og göm­ul bíó­mynd um tölvu­leik? Audi A3 e-tron er nýj­asta viðbót­in frá þýska lúx­us­bíla­fram­leiðand­an­um og er svo­kallaður ten­gilt­vinn­bíll en þeir hafa líka verið kallaðir tví­orku­bíl­ar.

Það þýðir ein­fald­lega að hann er með bæði bens­ín­vél og raf­mótor auk þess að hafa raf­hlöðu sem dug­ar hon­um til að kom­ast í borg­arsnattið á raf­orkunni einni sam­an. Nokkr­ir slík­ir bíl­ar hafa litið dags­ins ljós að und­an­förnu en ekki marg­ir í þess­um flokki og í raun og veru er eini beini keppi­naut­ur hans syst­ur­bíll­inn VW Golf GTE. Audi A3 var líka val­inn heims­bíll árs­ins í fyrra svo að það var með tals­verðri eft­ir­vænt­ingu sem blaðamaður Morg­un­blaðsins tók við lykl­un­um að þess­um fal­lega en jafn­framt áhuga­verða bíl.

Tals­vert þyngri

Að utan er A3 e-tron eins og venju­leg­ur A3 Sport­back en þó má sjá á díóðuaðalljós­um og aft­urstuðara sem nán­ast fel­ur púst­kerfið að þarna sé e-tron á ferðinni. Auðvitað er hann merkt­ur sem slík­ur en raf­hleðslu­teng­ing­in er vand­lega fal­in bakvið hring­ina fjóra í grill­inu. Það sem aðgrein­ir hann hins veg­ar frá Sport­back er tals­vert meiri þyngd en þar mun­ar næst­um þriðjungi. A3 Sport­back er aðeins rúm 1.200 kg en þessi bíll er far­inn að slaga lang­leiðina upp í 1.600 kíló. Það finnst al­veg þegar bíln­um er ekið að hann er stífari en hefðbund­inn A3 á fjöðrum en þar sem 125 kíló­gramma raf­hlöðunni er komið fyr­ir und­ir aft­ur­sæt­inu er þyngd­ar­dreif­ing­in góð og bíll­inn laus við að vera und­ir­stýrður. Það er nokk­urt veg­hljóð í bíln­um og ef­laust er þar tvennt að koma til, ann­ars veg­ar hörð Run-Flat dekk­in og hins veg­ar þyngd­in sem press­ar bíl­inn meira niður á mal­bikið. Að inn­an er e-tron að mestu eins og Sport­back fyr­ir utan far­ang­urs­rýmið sem hef­ur minnkað um 100 lítra þar sem koma þurfti bens­ín­tanki fyr­ir und­ir gólfi þess. Pláss í sæt­um er gott og þá sér­stak­lega frammí þar sem sæt­in eru vel löguð og gefa góðan stuðning bæði til hliðanna og und­ir fæt­ur.

Mjög vel bú­inn

Óhætt er að segja að e-tron sé vel bú­inn bíll. Hann er með 7 tommu lita­skjá sem kem­ur upp úr mæla­borðinu en þar er leiðsögu­kerfi, tvö­föld miðstöð, akst­urstölva, blát­ann­ar­búnaður og sta­f­rænt út­varp sem staðal­búnaður. Fyr­ir fram­an öku­mann er líka 3,5 tommu lita­skjár milli mæl­anna og það eru díóðuaðalljós og regn­skynj­ari. Auk þess eru fjar­lægðarskynj­ar­ar, netteng­ing og val­hnapp­ur með snertifleti val­búnaður en slík­ur búnaður var ein­mitt í próf­un­ar­bíln­um. Með hon­um fylg­ir hleðslu­snúra fyr­ir heim­araf­magn en hleðslukap­all fyr­ir hleðslu­stöðvar kost­ar 30.000 kr í viðbót. Hleðslu­tími á venju­legri inn­stungu er tæp­ar fjór­ar klukku­stund­ir og þegar bíll­inn er full­hlaðinn á hann að ná um 50 kíló­metr­um á raf­magn­inu einu sam­an. Akst­urs­drægni á báðum driflín­um er sam­an­lagt 940 km og upp­gef­in eyðsla á að geta farið niður í 1,5 lítra á hundraðið sem er auðvitað ekki raun­hæft. Fyr­ir þann sem keyr­ir mikið inn­an­bæjar og not­ar bíl­inn sjald­an á lengri ferðum ætti það þó að geta farið nærri lagi.

Vel út­færð driflína

Að sögn hönnuða Audi er driflín­an í A3 e-tron ein sú full­komn­asta sem Audi hef­ur smíðað. Vél­in í A3 e-tron er aðeins 1,4 lítra bens­ín­vél en þar sem hún er búin bæði forþjöppu og millikæli skil­ar hún 150 hest­öfl­um og 250 Newt­on­metra togi. Vél­in er með blokk úr áli og vikt­ar aðeins 100 kíló, en hún er staðsett aðeins meira til hægri en í hefðbundn­um A3. Ástæðan er 34 kílóa raf­mótor­inn sem kem­ur aft­an við sving­hjólið, en hann skil­ar mest 99 hest­öfl­um og sam­an skila mótor­arn­ir 204 hest­öfl­um og 350 Newt­on­metra togi. Fyr­ir aft­an raf­mótor­inn kem­ur svo sex þrepa sjálf­skipt­ing með tveim­ur kúpl­ing­um sem þýðir ein­fald­lega að snún­ing­ur­inn frá raf­mótorn­um fer í gegn­um mis­mun­andi hlut­föll gír­kass­ans. Það kem­ur sér vel þar sem hann snýst aðeins upp í 2.200 snún­inga. Raf­mótor­inn dreg­ur vél­ina í gang með því að nota seinni kúpl­ing­una en það tek­ur inn­an við hálfa sek­úndu, að sögn Audi. Það finnst þó nokkuð vel þegar þessi skipt­ing verður og þá sér­stak­lega þegar bíln­um er gefið snöggt inn. Það gæti hugs­an­lega komið sér illa þegar bregðast þarf snöggt við og því nauðsyn­legt að ökumaður sé meðvitaður um þetta hik. Það er hins veg­ar ekki mikið hik á hon­um þegar kem­ur að upp­tak­inu og þökk sé forþjöpp­unni er aflið gott upp allt snún­ings­sviðið sem er góð til­breyt­ing frá dísil­bíl­un­um sem all­ir virðast bjóða uppá nú til dags.

Eng­inn beinn keppi­naut­ur

Það er erfitt að finna Audi A3 e-tron keppi­naut þar sem ekki marg­ir ten­gilt­vinn­bíl­ar eru í boði í heim­in­um í þess­um flokki, og þeir sem eru til hafa ekki enn komið hingað til lands. Stutt er í að VW Golf GTE komi til lands­ins en það er syst­ur­bíll e-tron og verður vænt­an­lega eitt­hvað aðeins und­ir hon­um í verði. Hinn keppi­naut­ur hans er BMW i3 en BL hef­ur ekk­ert gefið í skyn að þeir muni flytja hann inn enn sem komið er. Grunn­verð A3 e-tron er hins veg­ar nokkuð gott þegar horft er á staðal­búnað bíls­ins og er ein­fald­lega það sama og á A3 Sport­back 1,4 TFSI CoD eða 5.190.000 kr. A3 e-tron er bet­ur bú­inn en hann og auk þess með raf­mótor­inn og allt sem hon­um fylg­ir svo að það kem­ur nokkuð á óvart að verðið sé svona gott. Segja má ein­fald­lega að verið sé að bjóða tví­orku­bíl á verði ein­orku­bíls.

http://www.mbl.is/bill/domar/2015/05/12/tviorka_a_verdi_einorku/