Fara í efni

Toyota Land Cruiser 200 hætt­ir brátt í sölu í Evr­ópu

Fréttir

Þann 1. sept­em­ber 2015 tek­ur nýr meng­un­arstaðall, Euro 6, gildi í Evr­ópu fyr­ir bens­ín- og dísil­vél­ar í bíl­um. Þessi nýi staðall leys­ir þar með Euro 5 staðal­inn af hólmi.

Toyota hef­ur í kjöl­farið ákveðið að bjóða ekki Land Cruiser 200 jepp­ann í Evr­ópu með vél­um sem upp­fylla nýja staðal­inn og verður bíll­inn því ekki á boðstól­um í Evr­ópu eft­ir að Euro 6 tek­ur gildi.

Tíðindi fyr­ir Toyota-fólk

Þetta telj­ast all­nokk­ur tíðindi fyr­ir bíla- og jeppa­áhuga­fólk í álf­unni, ekki síst á Íslandi þar sem Toyota Land Cruiser jepp­ar hafa notið mik­illa vin­sælda um ára­tuga­skeið.

„Land Cruiser 200 á sér stór­an hóp aðdá­enda hér á landi eins og aðrir Land Cruiser bíl­ar og áfram gefst tæki­færi til að kaupa bíl­inn því hann verður seld­ur hér á landi til 1. sept­em­ber,“ seg­ir Páll Þor­steins­son, upp­lýs­inga­full­trúi Toyota á Íslandi. „Viður­kennd­ir söluaðilar Toyota á Íslandi munu taka við pönt­un­um til 20. maí nk.“

Ljóst má vera að um vatna­skil er að ræða í fram­boði og sölu jeppa hér­lend­is enda hef­ur Land Cruiser jafn­an verið með sölu­hæstu jepp­um. 200 bíll­inn hef­ur þar ekki verið und­an­skil­inn. Það verður því nokk­ur sjón­ar­svipt­ir að nýj­um ár­gerðum þessa stæðilega jeppa eft­ir 1. sept­em­ber næst­kom­andi.

Þeir sem hafa lagt það í vana sinn að festa kaup á nýj­um Land Cruiser þegar hann kem­ur út þurfa þó ekki að övænta því Páll bend­ir á að Land Cruiser 150 verður fram­leidd­ur með vél­um sem upp­fylla nýja Euro 6 staðal­inn og verður Land Cruiser 150 því í boði hér á landi áfram segir í frétt á mbl.is