Þann 1. september 2015 tekur nýr mengunarstaðall, Euro 6, gildi í Evrópu fyrir bensín- og dísilvélar í bílum. Þessi nýi staðall leysir þar með Euro 5 staðalinn af hólmi.
Toyota hefur í kjölfarið ákveðið að bjóða ekki Land Cruiser 200 jeppann í Evrópu með vélum sem uppfylla nýja staðalinn og verður bíllinn því ekki á boðstólum í Evrópu eftir að Euro 6 tekur gildi.
Tíðindi fyrir Toyota-fólk
Þetta teljast allnokkur tíðindi fyrir bíla- og jeppaáhugafólk í álfunni, ekki síst á Íslandi þar sem Toyota Land Cruiser jeppar hafa notið mikilla vinsælda um áratugaskeið.
„Land Cruiser 200 á sér stóran hóp aðdáenda hér á landi eins og aðrir Land Cruiser bílar og áfram gefst tækifæri til að kaupa bílinn því hann verður seldur hér á landi til 1. september,“ segir Páll Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Toyota á Íslandi. „Viðurkenndir söluaðilar Toyota á Íslandi munu taka við pöntunum til 20. maí nk.“
Ljóst má vera að um vatnaskil er að ræða í framboði og sölu jeppa hérlendis enda hefur Land Cruiser jafnan verið með söluhæstu jeppum. 200 bíllinn hefur þar ekki verið undanskilinn. Það verður því nokkur sjónarsviptir að nýjum árgerðum þessa stæðilega jeppa eftir 1. september næstkomandi.
Þeir sem hafa lagt það í vana sinn að festa kaup á nýjum Land Cruiser þegar hann kemur út þurfa þó ekki að övænta því Páll bendir á að Land Cruiser 150 verður framleiddur með vélum sem uppfylla nýja Euro 6 staðalinn og verður Land Cruiser 150 því í boði hér á landi áfram segir í frétt á mbl.is