Áætlanir greiningarfyrirtækja ganga út á að bílasala í heiminum í ár aukist frá í fyrra. Gera þau ráð fyrir að salan verði einhvers staðar á bilinu 85,5 til 87 milljónir nýrra fólks- og pallbíla.
Hvar sem lokatalan lendir á þessu bili verður um umtalsverða aukningu að ræða frá í fyrra, er 83,3 milljónir léttra bíla seldist.
Til septemberloka nam salan á árinu rúmlega 64,5 milljónum bíla að samkvæmt niðurstöðum ítalska greiningarfyrirtækisins focus2move. Það spáir því að lokatala ársins verði 86,7 milljónir eintaka, sem er 3,1% aukning frá í fyrra.
Toyota er söluhæsti bílsmiðurinn, hafði selt 6,19 milljónir bíla til septemberloka sem er 9,6% hlutdeild í heildarmarkaðinum. Í öðru sæti var Volkswagen með 4,98 milljónir bíla eða 7,7% hlutdeild og í þriðja sæti bandaríski bílrisinn Ford með 4,36 milljónir bíla sem er 6,8% markaðsskerfur.
Í sætum fjögur til fimmtán eru eftirtalin bílamerki: Hyundai með 3,56 milljónir bíla, Nissan 3,53 milljónir, Honda með 3,16 milljónir, Kia með 2,1 milljónir, Renault með 1,52 milljónir, Peugeot með 1,41 milljón, Mercedes-Benz með 1,32 milljónir, BMW með 1,31 milljón, Audi 1,3 milljónir, Fiat með 1,36 milljónir og Wuling hinn kínverski með 1,25 milljónir bíla sem er 1,9% hlutdeild í heimsmarkaði fyrir bíla.
Í framangreindum tölum er um að ræða bílamerki, ekki heildarsölu bílsmiða. Buick-merkið í eigu General Motors hefur selt um 856.000 bíla á árinu og 361.000 bílar hafa selst af lúxusbílamerki Toyota, Lexus. Þá hefur Jeep, sem er í eigu Fiat Chrysler-samsteypunnar, selt um 658.000 bíla og Ram pallbíladeildin hefur selt 408.000 pallbíla í ár. Sölutölur pallbílanna Ford F-150 og Chevy Silverado eru innifaldar í heildarsölu Ford og Chevrolet hér að framan.
Fyrir utan toppslaginn og keppni VW og General Motors um að skáka Toyota úr efsta sætinu á sér einnig stað jöfn keppni framleiðenda lúxusbíla neðar á listanum. Mercedes hefur selt ögn fleiri bíla en BMW, sem aftur á móti hefur selt aðeins betur en Audi. BMW hefur verið að selja betur síðustu vikur og mánuði en Mercedes og því ljóst að hörðum slag þeirra um að geta sagst mestur lýkur ekki fyrr en á gamlársdag segir í frétt á mbl.is