Hver vill bíl sem er „verðlaus“? Kannski við öll. Á endanum verða allir bílar verðlausir en eftir misjafnlega langa endingu. Því ætli það sé ekki góður mælikvarði á ágæti bíls hversu langt má keyra hann áður en hann bókstaflega hrynur og verður verðlaus.
Sé sú aðferð brúkuð segir fyrirtækið Mojo Motors í New York að Toyota smíði endingarbestu fólks- og pallbílana. Að meðaltali má aka Toyotum rúmlega 320 þúsund kílómetra áður en þær teljast verðlausar, að því er fram kemur á bílasöluvefsíðu Mojo Motors, mojomotors.com.
Í greiningu fyrirtækisins voru Hondabílar þeir einustu til viðbótar sem lifa að jafnaði rúmlega 200.000 mílur, eða 320 þúsund km, áður en þeir ná hinu fræðilega verðleysisgildi. Bandarísku bílsmiðirnir Ford, Dodge og Chevrolet voru í næstu þremur sætum, aðallega vegna traustrar endingar pallbíla þeirra.
Talsmaður Mojo Motors segir að hjá því verði ekki komist að bílar séu eign sem verði að afskrifa með tímanum. Gömul þumalputtaregla segi að flestir bílar falli um 40% um leið og þeim er ekið af bílasölu. Að meðaltali séu afskriftirnar 55% á fyrstu þremur árum bíls. Fyrirtækið freistaði að finna út áreiðanleika og endingu bíla með því að greina rúmlega hálfa milljón fólks og pallbíla á bílasölum af árgerðunum 1995 til 2014.
Niðurstaðan varð sú, að áður en þeir hrynja og geta ekki meir endast eftirfarandi bílamerki að meðaltali sem hér segir:
1. Toyota – 337.128 km
2. Honda – 334.401
3. Ford – 317.454
4. Dodge – 317.161
5. Chevrolet – 313.206
6. Nissan – 312.804
7. Subaru – 302.992
8. GMC – 301.734
9. Acura – 286.315
10. Mazda – 284.366
agas@mbl.is