Fara í efni

Toyota á toppn­um fimmta árið í röð

Fréttir

Frétt af mbl.is

Fátt ef nokkuð get­ur komið í veg fyr­ir að Toyota verði stærsti bíla­fram­leiðandi heims þegar töl­ur síðasta árs eru tekn­ar sam­an.Seldi jap­anski bílris­inn fleiri bíla í nóv­em­ber en Volkswagensam­steyp­an og er það fimmti mánuður­inn í röð sem Toyota er sölu­hærri.

Toyota hafði selt 9,21 millj­ón bíla við nóv­em­ber­lok en á sama tíma­bili af­henti Volkswagen 9,1 millj­ón bíla. Munaði 110.000 ein­tök­um á risun­um tveim­ur þegar mánuður var eft­ir af ár­inu og hafi bilið auk­ist úr 91.000 í októ­ber­lok. Hef­ur VW að und­an­förnu goldið fyr­ir út­blást­urs­hneyksli sem valdið hef­ur sam­drætti í sölu á helstu mörkuðum.

Heild­ar­sala Toyota frá ára­mót­um til nóv­em­ber­loka er 1% minni en á sama tíma­bili í fyrra. Er þar meðtal­in sala á Dai­hatsu og Hino. Nam hún 9.207.000 ein­tök­um, sam­an­borið við 9.095.900 bíla hjá Volkswagensam­steyp­unni. Þrátt fyr­ir lít­ils hátt­ar sam­drátt frá ára­mót­um jókst sala Toyota í nóv­em­ber um 1% miðað við nóv­em­ber í fyrra og nam 854.000 bíl­um. Sam­drátt­ur varð í Jap­an vegna hækk­un­ar á bif­reiðagjöld­um og í Miðaust­ur­lönd­um.

Lækk­andi bens­ín­verð hef­ur hins veg­ar leitt til tals­verðrar upp­sveiflu á stærsta markaði Toyota, í Norður-Am­er­íku sem bætt hef­ur upp sam­drátt á öðrum svæðum. Þar ruku út jepp­ar og pall­bíl­ar jap­anska ris­ans í gríð og erg. Er því ekki út­lit fyr­ir annað en að Toyota hampi titl­in­um stærsti bílsmiður heims þegar árið 2015 verður gert upp. Þykir fyr­ir­tæk­inu samt að í sam­drátt stefni í fyrsta sinn í fjög­ur ár en það áætl­ar að sal­an í ár verði engu að síður 10.098.000 ein­tök.

Volkswagen hafði haft í fullu tré við Toyota í hníf­jafnri keppni fram­an af ár­inu. Á miðju ári virt­ist sem djarf­ar sölu­áætlan­ir stefndu VW á topp­inn því í júnílok hafði fyr­ir­tækið selt fleiri bíla en jap­anski keppi­naut­ur­inn. Upp­frá því tók Toyota hins veg­ar að sækja á og seldi fleiri bíla en VW hvern mánuðinn á fæt­ur öðrum. Hneyksli sem rakið er til blekk­ing­ar­búnaðar í nokkr­um dísil­bíla­mód­el­um VW-sam­steyp­unn­ar og upp komst um í haust, hef­ur virkað sem bremsa á sölu þýska bílris­ans á síðasta fjórðungi árs­ins. Efna­hags­leg­ur sam­drátt­ur í Bras­il­íu, þar sem hlut­deild VW hef­ur verið mik­il, hef­ur einnig tekið sinn toll. Í heild­ina séð hef­ur VW þurft að horfa upp á sölu­sam­drátt síðustu átta mánuðina í röð, miðað við sömu mánuði í fyrra. Sam­drátt­ur­inn frá ára­mót­um til nóv­em­ber­loka nem­ur 2% miðað við sama tíma­bil í fyrra.

http://www.mbl.is/bill/frettir/2016/02/01/toyota_a_toppnum_fimmta_arid_i_rod/