Þriðjudaginn 11. mars mun Orka náttúrunnar taka í notkun fyrstu hraðhleðslustöð fyrir rafbíla hér á landi. Hún verður við höfuðstöðvar fyrirtækisins á Bæjarhálsi 1. Stöðin er sú fyrsta af tíu sem komið verður upp á næstu mánuðum víðsvegar um sunnan- og vestanvert landið. Átak Orku náttúrunnar, sem er í samstarfi við B&L og Nissan í Evrópu, er mikilvægt skref í uppbyggingu innviða fyrir rafbíla hér á landi.
Þetta kemur fram í frétt frá Orkuveitunni.
Í tengslum við þennan viðburð efnir Orka náttúrunnar til málþingsins Í samband við náttúruna. Það verður haldið á Bæjarhálsi 1 og stendur frá kl. 13:00 til 15:30, þegar hraðhleðslustöðin verður formlega tekin í notkun.
Lykilerindi flytur Norðmaðurinn Ole Henrik Hannisdahl. Hann er verkefnisstjóri Grønn Bil en markmið þess verkefnis er að árið 2020 verði komnir 200 þúsund rafbílar á norskar götur. Ole Henrik mun segja frá reynslu Norðmanna af hraðhleðslustöðvum í erindinu Fast chargers: Who needs them, and for what?
Á málþinginu mun Páll Erland, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, gera grein fyrir tækifærum sem í rafbílavæðingunni felast og kynna framlag fyrirtækisins til rafbílavæðingar. Fundarstjóri verður Hildigunnur Thorsteinsson.