Fara í efni

Þegar hlustað er á það sem fólkið vill

Fréttir

Frétt af mbl.is

Í flest­um bók­um um ný­sköp­un er að finna til­vitn­un í Henry Ford, sem á að hafa sagt eitt­hvað á þá leið að það væri af og frá að leita til viðskipta­vin­anna eft­ir hug­mynd­um að nýj­um vör­um. „Ef ég hefði spurt fólkið hvers kon­ar far­ar­tæki það vildi, þá hefði það beðið um hraðskreiðari hest,“ sagði Ford – en sagði samt ekki því fræðimenn hafa ekki enn getað sann­reynt að um­mæl­in séu frá hon­um kom­in.

Mottóið hjá Nis­s­an er al­veg í hina átt­ina: Hlust­um á það sem fólkið vill, og sköff­um það. Árang­ur­inn fer ekki milli mála: Nis­s­an X-Trail er mest seldi sportjeppi í heimi og frá því X-Trail (sem heit­ir Rogue á Banda­ríkja­markaði) fór fyrst á markað árið 2000 hafa yfir 3,7 millj­ón­ir ein­taka af þess­um fjöl­skyldu­væna og praktíska bíl runnið út af færi­bandinu.

Í júní voru bíla­blaðamenn boðaðir til Vín­ar­borg­ar á kynn­ingu á upp­færðum X-Trail og nýj­um Qashqai. Skrifað var um Qashqai í Bíla­blaði Morg­un­blaðsins í júlí, en bann var á um­fjöll­un um X-Trail fram í októ­ber og því ekki fyrr en nú að segja má les­end­um frá þess­ari nýj­ustu end­ur­holdg­un óska­barns Nis­s­an-fjöl­skyld­unn­ar.

Ekki er hægt að segja að ráðist hafi verið í rót­tæk­ar breyt­ing­ar á X-Trail, en margt smátt ger­ir eitt stórt og fyr­ir vikið er óhætt að kalla nýja mód­elið allt aðra skepnu. Útlits­breyt­ing­arn­ar gera nýja X-Trail vöðvastælt­ari og t.a.m. er búið að stækka grillið og gera það töffara­legra (og í leiðinni fela alls kyns skynj­ara á smekk­leg­an hátt) og ný fram- og aft­ur­ljós gefa vel heppnaðan augnsvip.

Að inn­an er líka búið að skerpa á út­lit­inu og t.d. hægt að velja sér­lega vel heppnuð sæti sem hafa verið saumuð í nokk­urs kon­ar „þrívídd­ar-áferð“ svo að sæt­is­bakið minn­ir mest á maga­vöðvana á Ro­bocop.

En það sem á eft­ir að verða til þess að selja 3,7 millj­ón­ir ein­taka til viðbót­ar af X-Trail eru not­enda­vænu tækni­breyt­ing­arn­ar hér og þar. Til dæm­is er búið að bæta hljóðein­angr­un­ina og hljóm­tæk­in svo að ökumaður og farþegar geta ferðast í meiri ró og heyrt bet­ur í upp­á­halds­tón­list­inni. Mynda­vél­ar og skynj­ar­ar hjálpa við að leggja í stæði og lækka háu ljós­in ef bíll kem­ur á móti. Svona má lengi telja. Allt eru þetta eig­in­leik­ar sem finna má í dýr­ari sportjepp­um, en ekki er al­gengt að finna svona tækni í bíl­um í sama verðflokki og X-Trail.

Ek­inn var stutt­ur hring­ur út fyr­ir Vín­ar­borg og spanað á mal­ar­slóða sem skóg­ar­höggs­menn nota til að grisja bratt­ar fjalls­hlíðarn­ar í aust­ur­rísku sveita­sæl­unni. Er skemmst frá því að segja að ekk­ert truflaði: Vel fór um öku­mann og farþega í öll­um sæt­um, út­sýni gott og akst­ur­seig­in­leik­ar prýðileg­ir.

Otsukares­ama­desu er eitt af þess­um und­ar­legu japönsku orðum sem hafa ólíka merk­ingu eft­ir aðstæðum. Jap­an­ir nota þetta orð til að kasta kveðju á koll­ega sína á vinnustaðnum til að þakka þeim fyr­ir vel unn­in störf og þýðir þá laus­lega „þú hef­ur unnið mikið og hlýt­ur að vera lú­inn“, eða öllu held­ur „vel gert!“. Sama orð er notað í lok vinnu­dags þegar haldið er út á kara­oke-klúbb­inn og skálað með vinnu­fé­lög­un­um. Um Nis­s­an X-Trail má segja það sama: Vel gert og skál: Otsukares­ama­desu.

http://www.mbl.is/bill/domar/2017/11/06/thegar_hlustad_er_a_thad_sem_folkid_vill/