Fara í efni

Tekið undir umsögn BGS í nefndaráliti vegna tengiltvinnbíla

Fréttir

Að fenginni umsögn frá Bílgreinasambandinu, sem m.a. var studd af Grænni Orku og Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, hefur Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis nú skilað af sér áliti vegna frumvarps um breytingar á ýmsum lögum um skatta (vistvæn ökutæki o.fl.). Þar er m.a. er fjallað um ívilnanir vegna rafmagns-, vetnis-, og tengiltvinnbíla næstu árin. Í áliti sínu tekur nefndin undir sjónarmið Bílgreinasambandsins og leggur þannig til að frumvarpinu verði breytt á þann hátt að það framlengi enn frekar ívilnunum vegna tengiltvinnbíla.

Frumvarpið lagði til áframhaldandi og auknar ívilnanir vegna kaupa á rafmagns- og vetnisbílum til loka ársins 2023 en hinsvegar var á sama tíma lagt til að ívilnanir vegna tengiltvinnbíla yrðu felldar niður með öllu í árslok 2020. Bílgreinasambandið telur það algjörlega ótímabæra aðgerð þar sem vaxtarbroddurinn í sölu vistvænna ökutækja hefur að miklum meirihluta verið í flokki tengiltvinnbíla undanfarin ár og er líklegt að svo verði áfram. Þá er fyrirséð að áframhaldandi þróun verði á þessum bílum á næstu árum þar sem drægni battería mun aukast töluvert og er líklegt að þeir verði áfram dýrir í innkaupum miðað við bíla sem ganga eingöngu fyrir hefðbundnum orkugjöfum. Einnig er lögð sérstök áhersla á það hjá stjórnvöldum að bílaleigum verði gert kleyft að kaupa vistvæna bíla en það er ólíklegt að þær geti tekið stórt skref í átt að hreinni rafmagnsvæðingu í einu vetfangi og því verður að teljast eðlilegt að þær hafi kost á að fjölga tengiltvinnbílum í sínum flota fyrst um sinn.

Tillögur frumvarpsins eins og það var lagt fram:

  • Rafmagns- og vetnisbílar: Heimilt verði að fella niður virðisaukaskatt af kaupverði bíls upp að 6.500.000 krónum en greiddur fullur skattur af kaupverði umfram þá krónutölu (hámarks niðurfelling er þ.a.l. 1.560.000 krónur). Heimildin fallir úr gildi í árslok 2023 eða þegar 15.000 slíkar bifreiðar hafa verið skráðar á götuna, hvort sem fyrr kemur. Þessi heimild var áður 6.000.000 krónur og 10.000 bifreiðar og gilti til lok árs 2020.
  • Tengiltvinnbílar: Heimilt verði að fella niður virðisaukaskatt af kaupverði upp að 4.000.000 krónum, en greiddur fullur skattur af kaupverði umfram þá krónutölu (hámarks niðurfelling er þ.a.l. 960.000 krónur). Heimildin fallir úr gildi í árslok 2020 eða þegar 12.500 slíkar bifreiðar hafa verið skráðar á götuna, hvort sem fyrr kemur. Þessi heimild var áður 4.000.000 krónur og 10.000 bifreiðar.

Bílgreinasambandið gerði ekki athugasemdir við rafmagns- og vetnisbifreiðar, enda um mjög jákvætt skref þar að ræða. Sambandið beitti sér hinsvegar sterklega fyrir því að ívilnanir vegna tengiltvinnbíla myndu ná lengra en frumvarpið lagði til og yrðu þannig í samræmi við ívilnanir rafmagns- og vetnisbíla. Sambandið skilaði inn umsögn þess efnis til Efnahags- og viðskiptanefndar ásamt því að koma fyrir nefndina og færa frekari rök fyrir sínu máli.

Nefndin hefur nú skilað áliti sínu og tekur þar undir sjónarmið Bílgreinasambandsins að mestu leyti. Leggur nefndin til að tímamörk verði lengd og kvóti hækkaður vegna ívilnana tengiltvinnbíla, þannig heimildin nái a.m.k. til ársloka 2022 og að leyfilegur fjöldi bíla verði 15.000 talsins. Áfram verði undanþáguheimild virðisaukaskatts upp að kaupverði 4.000.000 króna en hinsvegar verði þrepalækkun á hámarks ívilnun næstu 3 árin með eftirfarandi hætti:

  • Hámarks ívilnun nú er 960.000 krónur (virðisaukaskattur af 4.000.000 krónum)
  • Í árslok 2020 lækki hámarks ívilnun í 600.000 krónur (virðisaukaskattur af 2.500.000 krónum)
  • Í árslok 2021 lækki hámarks ívilnun í 480.000 krónur (virðisaukaskattur af 2.000.000 krónum)
  • Í árslok 2022 detti ívilnun alveg út.

Þó leggur nefndin einnig til að þetta verði sérstaklega endurskoðað árið 2021 með tilliti til hvort gera þurfi breytingar til að framlengja ívilnanir enn frekar.

Nefndarálitið í heild sinni má finna HÉR.