Nú í janúar sl. lauk fyrsta námskeiði er Bílgreinasambandið stóð fyrir í samvinnu við Opna háskólann í Reykjavík. Námið var sérsniðið að þörfum millistjórnenda og stjórnenda í bílgreininni en námslínan byggðist á víðtækri þekkingu sérfræðinga HR í stjórnendaþjálfun og til hliðsjónar þarfagreiningu stjórnenda úr greininni, starfsfólks Bílgreinasambandsins og kennara innan HR.
Námið fór af stað í september sl og að jafnaði fór kennsla fram tvo heila daga í mánuði að desember undanskildum. Þau fög sem farið var í voru:
- Markaðsmál og almannatengsl
- Persónuleg þróun stjórnenda, tímastjórnun og markmiðasetning
- Þjónustu og gæðastjórnun
- Samningatækni
- Samfélagsleg ábyrgð
- Fjármál og áætlanagerð
- Mannauðsstjórn og leiðtogafræði.
25 aðilar skráðu sig á námskeiðið og þess má geta að í lok hvers dags skiluðu nemendur inn skjali þar sem þeir lögðu mat á viðkomandi námskeið þe. efnið og kennslu. Er skemmst frá því að segja að nemendur voru mjög ánægðir með allt sem að þessu námi laut og fékk námskeiðið hæstu einkunn.
Að öllu óbreyttu, miðað við jákvæða niðurstöður af þessu námskeið mun Bílgreinasambandið athuga með áframhaldandi samstarf við Opna háskólann um sambærilegt námskeið nú í haust ef næg þátttaka verður. Nánar má sjá um námskeiðið á vef Opna háskólans http://www.ru.is/opnihaskolinn/bilgreinar/
Á meðfylgjandi mynd eru nokkrir af þeim er sátu stjórnendanámskeiðið sl. haustönn.