Aukning varð í bílasölu í Evrópu sem svarar 5% á nýliðnu ári. Þar með var bundinn endi á sex ára viðvarandi samdrátt.
Þetta er fyrst og fremst að þakka opinberum niðurgreiðslum til bílakaupa, skattafsláttum og vaxandi straumi neytenda yfir á ódýrari bílamerki eins og Dacia og Skoda.
Að sögn bílgreinasamtakanna evrópsku, ACEA, voru 13 milljónir bíla nýskráðar í Evrópu á nýliðnu ári. Greinendur segja að fyrir utan framangreinda hvata hafi verið um mikla sölu til bílaflota að ræða. Því endurspegli aukningin alls ekki vaxandi tiltrú neytenda á afkomu sína.
Renault-samsteypan seldi 13% fleiri bíla í Evrópu en árið 2013. Þar munaði miklu mikil sala á Duster jeppanum og Sandero hlaðbaknum sem áttu sinn þátt í 23% söluaukningu Dacia. Einnig ýttu góðar viðtökur Captur jepplingsins undir 9% aukningu í sölu Renaultmódela.
Volkswagen var stærsti bílsmiður Evrópu í fyrra og jókst sala samsteypunnar um 7%. Þar munaði um velgengni Skoda Rapid, Yeti jeppann og nýja kynslóð Leon frá spænska bílsmiðnum Seat. Jókst sala bæði Skodabíla og Seat um 14% á árinu en 4% aukning varð í sölu VW-módela og 5% hjá Audi.
PSA Peugeot Citroen bætti við sig um 4% frá fyrra ári á Evrópumarkaði. Þar munaði mestu um 308 hlaðbakinn og jepplingana 2008 og 3008 frá Peugeot og nýja Cactus-jeppans frá Citroen.
Söluaukning í fyrsta sinn í sjö ár
19.01.2015
Fréttir