Fara í efni

Sölu­aukn­ing í fyrsta sinn í sjö ár

Fréttir

Aukn­ing varð í bíla­sölu í Evr­ópu sem svar­ar 5% á nýliðnu ári. Þar með var bund­inn endi á sex ára viðvar­andi sam­drátt.

Þetta er fyrst og fremst að þakka op­in­ber­um niður­greiðslum til bíla­kaupa, skattafslátt­um og vax­andi straumi neyt­enda yfir á ódýr­ari bíla­merki eins og Dacia og Skoda.

Að sögn bíl­greina­sam­tak­anna evr­ópsku, ACEA, voru 13 millj­ón­ir bíla ný­skráðar í Evr­ópu á nýliðnu ári. Grein­end­ur segja að fyr­ir utan fram­an­greinda hvata hafi verið um mikla sölu til bíla­flota að ræða. Því end­ur­spegli aukn­ing­in alls ekki vax­andi til­trú neyt­enda á af­komu sína. 
   
Renault-sam­steyp­an seldi 13% fleiri bíla í Evr­ópu en árið 2013. Þar munaði miklu mik­il sala á  Dust­er jepp­an­um og Sand­ero hlaðbakn­um sem áttu sinn þátt í 23% sölu­aukn­ingu Dacia. Einnig ýttu góðar viðtök­ur Capt­ur jepp­lings­ins und­ir 9% aukn­ingu í sölu Renault­mód­ela. 

Volkswagen var stærsti bílsmiður Evr­ópu í fyrra og jókst sala sam­steyp­unn­ar um 7%. Þar munaði um vel­gengni Skoda Rapid, Yeti jepp­ann og nýja kyn­slóð Leon frá spænska bílsmiðnum Seat. Jókst sala bæði Skoda­bíla og Seat um 14% á ár­inu en 4% aukn­ing varð í sölu VW-mód­ela og 5% hjá Audi.

PSA Peu­geot Citroen bætti við sig um 4% frá fyrra ári á Evr­ópu­markaði. Þar munaði mestu um 308 hlaðbak­inn og jepp­ling­ana 2008 og 3008 frá Peu­geot og nýja Cact­us-jepp­ans frá Citroen.