Opel, hið fornfræga þýska merki með alla sína hönnunarsögu, hefur heldur legið í láginni hérlendis undanfarin misseri og lítið borið á bílum þaðan um allnokkurt skeið.
Seigfljótandi tilfærsla á umboðinu frá BL til Bílabúðar Benna hefur ekki hjálpað til og þegar hér er komið sögu þarf nánast að skóla bílaáhugamenn og -kaupendur til upp á nýtt í bílnum frá þessum framleiðanda. Það sem ekki sést dettur fólki ekki í hug þegar kemur að því að kaupa sér nýjan bíl. Nú hillir loks undir endurkomu Opel á Íslandsmarkaði og er það vel því margar spennandi tegundir eru væntanlegar á göturnar. Undirrituðum gafst nýverið færi á að prófa nokkra af nýjustu bílum Opel og sá sem hér blasir við var þar á meðal, hinn skemmtilegi borgarbíll, Opel Adam.
Adam fellur lóðbeint í flokk svokallaðra borgarbíla, sem eru smáir, liprir, neyslugrannir en vel búnir bílar sem eru einkar lífsstílsdrifnir og gera því eigendum sínum kleift að sérsníða þá að sínum óskum á ýmsa lund. Að sögn er nánast hægt að búa til nýjar samsetningar af Opel Adam út í það óendanlega en sérfræðingar Opel viðurkenndu að líklega væru samsetningarnar ekki nema um milljón. Þar með er eitt frumskilyrða vel heppnaðra bíla í A-flokki uppfyllt; að þeir séu sérlausnamiðaðir svo við liggur bilun. Bíll hvers og eins verður eiginlega framlenging á persónuleika eigandans, eins sértækt og fingrafar hans, því í steinsteypufrumskóginum gildir að skapa sér sérstöðu og hasla sér völl með stíl. Tími lágstemmdra og feiminna smábíla er liðinn og það rækilega. Adam er líka bráðlaglegur á að líta og það er eiginlega stóra málið, áður en kemur að praktískum atriðum. Hann er einfaldlega hinn reffilegasti, það er ákveðið „attitude“ í því að bjóða hann einungis þriggja dyra og framendinn er mjög vel heppnaður.
Léttur, lipur, ljúfur
En ekki verður hjá því komist að taka praktíkina út sömuleiðis og þar heldur Adam áfram að vinna sér inn stig. Innandyra kemur Adam eiginlega á óvart því mælaborðið er býsna veglegt á að líta, og samlitt ytra byrði bílsins. Sá sem var prófaður var blár sem þýddi að innanstokks rímaði allt við aðallitinn. Það er hinsvegar smekklega gert um leið og þess gætt að bíllinn sé nógu gæjalegur til að trekkja markhópinn til. Aðgerðaskjár af fínni stærð og tengi fyrir snjallsímann spillir ekki fyrir heldur. Sætin voru prýðileg og tilfinningin í heildina góð. Öll umgjörð ökumanns og farþega í framsæti er til fyrirmyndar og fótarýmið ríflegt.
Tveir farþegar komast með fínu mótir fyrir í aftursætinu, en þrír munu eiga í vandræðum með það. Borgarbílar í A-flokki eru heldur ekkert að eltast við það heldur gera sér far um að láta vel fara um fjóra alls ásamt góðu farangursrými, og það er til staðar í Adam.
Þó að bíllinn sé ekki beint kraftmikill þá er í honum snerpa sem vakti lukku hjá undirrituðum og Adam er skemmtilegur í borgarakstri. Stýrið svarar vel og hann tekur u-beygju á tíkalli, eins og þar stendur.
Öryggið og útblásturinn
Helst má telja Opel Adam það til lasts að jafn nettur bíll skuli ekki ná í tveggja stafa tölu þegar kemur að koltvísýringsútblæstri. Týpan sem prófuð var, Adam Slam (hinar heita meðal annars Jam og Glam), blæs út 115 g á kílómetrann og svoleiðis vaxtaverki verður Opel að laga fyrir næsta umgang af þessum annars fína bíl því þetta skiptir sífellt fleiri neytendur máli. Þá hefur það vakið nokkra athygli að Adam hlaut aðeins fjórar stjörnur í Euro NCAP-prófinu en fimm stjörnur eru almennt venja fyrir nýja bíla nú til dags.
Þegar allt er sett upp á strik er Opel Adam huggulegasti bíll sem mun pluma sig vel í borgarsnattinu. Framleiðendur Opel hafa dottið niður á laglega hönnun sem má byggja á og geri þeir það ásamt því að bæta það sem upp á vantar í öryggi og útblæstri þá er hér kominn bíll sem mun láta enn frekar að sér kveða í sínum stærðarflokki ásamt leiðtoganum Mini og Fiat 500.
jonagnar@mbl.is