Fara í efni

Skylt að kveikja á ökuljósum

Fréttir

Að gefnu tilefni vill Samgöngustofa hvetja ökumenn til að gæta þess að ökuljós séu kveikt.

„Það er nokkuð áberandi að eigendur nýrra bíla sem búnir eru dagljósabúnaði haldi að með þeim búnaði kvikni á öllum ökuljósum og þ.m.t. ljósum að aftan en í mörgum tilfellum er það ekki raunin,“ segir í tilkynningu frá stofnuninni.

Samgöngustofu hefur borist fjöldi ábendinga um að nýir bílar séu með öllu ljóslausir að aftan í myrkri, þoku og slæmu skyggni vegna þess að ökumenn virðast halda að dagljósabúnaðurinn, sem kviknar á sjálfkrafa þegar bíllinn er ræstur, dugi allan sólarhringin og við allar þær aðstæður sem krefjast notkunar ökuljósa.

Stofan segir að á mörgum þessara bíla þurfi að kveikja sérstaklega á ökuljósum og sé  ökumönnum skylt að gæta þess. Einhver óhöpp og árekstrar hafa verið raktir til þess að sjáanleiki bifreiða var mjög lítill af völdum þessa og því mikilvægt að ökumenn hafi þetta í huga.