Skoda Fabia er bíll ársins að mati breska tímaritsins What Car? en útnefning blaðsins þykir eftirsótt. Hann varð einnig hlutskarpastur í flokknum besti borgarbíllinn.
Þetta er í annað sinn sem Fabia hlýtur titilinn en 15 ár eru frá því það átti sér stað síðast, árið 2000. Varð hann hlutskarpastur 26 bíla sem komist höfðu í lokavalið.
Dómararnir hrósuðu Skoda Fabia fyrir afkastagetu og skilvirkni hinnar 1,2 lítra bensínvélar sem í honum væri en hún er með forþjöppu. Þá tiltóku þeir að Fabia væri rúmbetri og nytsamlegri en bæði Ford Fiesta og Volkswagen Polo og stæði þeim einnig framar að hagnýtum tæknibúnaði.
„Fabia verðskuldar að vinna okkar eftirsóttustu útnefningar, ekki bara vegna þess að bíllinn er vel búinn og praktískur, heldur einnig vegna keppinautanna frá bílrisunum sem hann lagði að velli,“ sagði ritstjóri What Car?, Jim Holder.
„Við höfum ekið og metið öllum keppinautum hans og það er sama hvernig á það er litið, Fabia er alhliða besti smábíllinn sem til sölu er í Bretlandi í dag,“ bætti ritstjórinn við segir í frétt á mbl.is
Sjá má sigurvegara í 16 mismunandi flokkum What Car? verðlaunanna hér.