Fara í efni

Sala nýrra fólksbíla í janúar 2023

Fréttir

Sala nýrra fólksbíla í janúar 2023

Sala nýrra fólksbíla í janúar dróst saman um 17,2% miðað við janúar í fyrra, en alls voru skráðir 733 nýir fólksbílar nú en voru 885 í fyrra.

Til einstaklinga seldust 369 nýir fólksbílar í janúar samanborið við 521 á sama tíma í fyrra og er því samdráttur í sölu til einstaklinga 29,2% milli ára.

Almenn fyrirtæki (önnur en ökutækjaleigur) keyptu 158 nýja fólksbíla í janúar í ár miðað við að hafa keypt 143 bíla í janúar í fyrra og er því aukning þar milli ára um 10,5%.

Ökutækjaleigur keyptu 201 nýjan fólksbíl í janúar samanborið við 213 á sama tíma í fyrra og er því samdráttur slíkra skráninga 5,6%. Ef horft er til heildarfjölda skráninga þá er samt sem áður aukning í hlutfalli skráðra fólksbíla í ökutækjaleigur milli ára en í ár er hlutfall ökutækjaleiga 27,4% af heildarskráningum á móti 24.1% í fyrra.

Hlutfall rafbíla er hæst þegar við skoðum heildarsölu eftir orkugjöfum á árinu eða 26,9%. Dísel bílar koma þar á eftir með 20,6%, hybrid 20,5%, bensín 16,6% og tengiltvinn 15,3%.

Ef skoðuð er breyting á sölu orkugjafa milli áranna 2022 og 2023 er aukning í sölu á bensín, dísel- og hybridbílum en samdráttur í sölu á nýskráðum raf- og tengiltvinnbílum. Ef við skoðum sölu til einstaklinga þá er aukning í sölu dísel og hybrid fólksbílum milli ára en samdráttur í sölu á bensín, raf- og tengiltvinnbílum.

Í janúar var mest selda tegundin Toyota með 141 selda fólksbíla, þar á eftir kemur KIA með 120 selda fólksbíla og þriðja mest selda tegundin í janúar var Hyundai með 70 fólksbíla skráða.