Fara í efni

Sala nýrra fólksbíla árið 2019

Fréttir

Sala nýrra fólksbíla á árinu 2019 var nokkuð minni en 2018 en í heildina seldust 11.728 nýir fólksbílar árið 2019 en 17.976 bílar árið 2018. Varð því samdráttur um 34,8% á milli ára en þó má segja að samanburðurinn milli ára hafi farið batnandi eftir því sem leið á árið. Í desember varð til að mynda 22,0% söluaukning þegar 587 bílar seldust borið saman við 482 bíla í desember 2018 og er þetta í fyrsta skipti í næstum 2 ár þar sem söluaukning verður í einstökum mánuðum á milli ára.

Ef horft er lengra aftur í tímann og salan skoðuð frá aldamótum þá hafa um 11.400 fólksbílar selst að meðaltali á ári og salan 2019 er því rétt yfir meðaltalinu. Einnig má hafa í huga að árin 2016-2018 voru mjög stór bílasöluár í sögulegu samhengi og því víst að samanburðurinn við þau yrði alltaf erfiður þó ekki hafi verið búist við alveg eins miklum samdrætti og raun ber vitni. Reyndar þarf líka að horfa til þess að fólksfjölgun hefur átt sér stað í landinu frá aldamótum sem ætti að hafa þær afleiðingar að meðaltal bílasölu þyrfti að hækka og sennilega vera nokkuð yfir 12.000 bílum. Þetta sýnir sig m.a. í því að meðalaldur bílaflotans fer enn hækkandi hér á landi og er í dag 12,3 ár á meðan meðalaldurinn í Evrópusambandinu er 10,8 ár. Endanlegar sölutölur fyrir árið 2019 frá Evrópu liggja ekki enn fyrir en miðað við stöðuna í lok nóvember þá mun 2019 líklegast enda nokkurn veginn á pari við 2018.

Af þeim 11.728 sem seldust á árinu þá keyptu bílaleigur 4.866 bíla eða 41,5% hlutfall. Hlutfallið er í takti við flest ár frá 2009 þegar bílaleiguflotinn fór stækkandi vegna fjölgunar ferðamanna en bílaleigur hafa að meðaltali keypt um 42,6% allra nýrra bíla síðan þá. Bílaleiguflotinn telur hátt í 25.000 bíla og þarf hann að vera svo stór til að taka á móti þeim fjölda ferðamanna sem koma til landsins á hverju ári. Það liggur því fyrir að endurnýjunarþörfin á þessum hluta flotans á hverju ári er mikil og því viðbúið að bílaleigur skipi áfram stóran sess í kaupum á nýjum bílum á næstu árum.

Hlutfall vistvænna bíla (rafmagn, tengiltvinn, hybrid, metan) hélt áfram að aukast og hefur hlutfall þeirra af heildarsölu aldrei verið hærra eða 27,5%. Fara þar tengiltvinnbílar fremstir í flokki með um 10,3% sölunnar, hybrid bílar um 8,9% og rafmagnsbílar um 7,8%. Eru þetta hlutfallstölur sem eru fáheyrðar annarsstaðar í heiminum fyrir utan Noreg og er líklegt að Ísland verði áfram í fararbroddi þar sem horft er til framlengingar á ívilnunum vegna vörugjalda við kaup á slíkum bílum. Er í því tilliti gleðiefni að tekið var undir tillögur Bílgreinasambandsins í nefndaráliti Efnahags- og viðskiptanefndar um að framlengja ívilnanir vegna tengiltvinnbíla til 2023 í stað þess að fella þær niður með öllu í lok 2020 því dæmi erlendis frá hafa sýnt að slíkt hefur hægt verulega á þessarar tegundar bíla.

Toyota var söluhæsta vörumerkið á árinu með 16,8 % hlutfall sölunnar, þar á eftir fylgdu KIA með 12,6 % og Hyundai með 6,8 %.

Bílgreinasambandið telur að ýmsar ástæður hafi verið fyrir því að niðursveiflan 2019 hafi verið meiri en búist var við á árinu 2019 og jafnframt að ýmsar forsendur séu til staðar til að salan taki aftur við sér og aukist að nýju. Eyðsla og mengun bíla með hefðbundnum orkugjöfum fer sífellt lækkandi ásamt því sem úrval og drægni bæði rafmagns- og tengiltvinnbíla er að aukast og mun það halda áfram á árinu 2020. Þetta ætti að leiða til þess að fleiri einstaklingar og fyrirtæki finni sér valkost sem hentar þeim auk þess sem búið er að eyða óvissu um hvort vistvænir bílar njóti áfram ívilnana við kaup. Þá er einnig líklegt að bílaleigur þurfi að halda áfram að endurnýja flotann sinn þar sem hann hefur elst á síðustu misserum. Meðalaldur fólksbílaflotans er einnig að hækka en stórir árgangar í bílaflotanum eru komnir á meðalaldur sem í fyrra var 12,3 ár og fer hækkandi. Bílgreinasambandið spáir því að 12.750 bílar seljist á árinu 2020 og verður það þá 8,7% söluaukning frá árinu 2019.