Fara í efni

Sala eftir orkugjöfum í Evrópu 2019

Fréttir
Salan á evrópska efnahagssvæðinu skipt eftir orkugjöfum
Salan á evrópska efnahagssvæðinu skipt eftir orkugjöfum

ACEA eru samtök bílaframleiðenda í Evrópu og halda þau m.a. utan um ýmiskonar tölfræði varðandi bílaflotann í Evrópu, sölu nýrra bíla eftir löndum, og ýmislegt fleira. Bílgreinasambandið hefur í mörg ár átt í góðum samskiptum við ACEA og sér Bílgreinasambandið m.a. um að útvega gögn frá Íslandi inn í allar skýrslur og tölfræði ACEA með reglubundnum hætti.

Sala vistvænna bíla í Evrópu 2019

Samtökin gáfu út í dag sölutölur nýrra fólksbíla árið 2019 eftir orkugjöfum og nær það yfir allt evrópska efnahagssvæðið. Samkvæmt þeim sækir flokkurinn "aðrir orkugjafar" mikið á en hann samanstendur af rafmagnsbílum, tengiltvinnbílum, hybrid bílum og bílum sem ganga fyrir einhverskonar náttúrugasi (t.d. metan). Heildarsala þessara bíla nam 11,2% af sölu síðasta árs og var það helst á kostnað díselbíla á meðan bensínbílar héldu hinsvegar sinni hlutdeild nokkurn veginn á milli ára með um 58,5% sölunnar.

Ef nánar er rýnt í skiptinguna innan flokksins "aðrir orkugjafar" þá má sjá að bílar sem eru hlaðanlegir með tengli, þ.e. hreinir rafmagnsbílar og tengiltvinnbílar, standa fyrir um 3,6% af heildarsölunni og er það aukning frá 2,5% árið 2018. Sérstaka athygli vekur hinsvegar að þar af eru hreinir rafmagnsbílar töluvert fleiri en tengiltvinnbílar, sem er öfugt við það sem gerist hér á Íslandi til dæmis.

Frekari samanburður við Ísland

Ef samanburðinum við Ísland er haldið áfram þá er restin af Evrópa þó enn töluvert á eftir Íslandi þegar kemur að hlutfalli vistvænna bíla af heildarsölunni, fyrir utan Noreg. Hlutfall vistvænna bíla (rafmagn, tengiltvinn, hybrid, metan) hélt áfram að aukast hér á landi á síðasta ári og hefur hlutfall þeirra af heildarsölu aldrei verið hærra með 27,5% af heildarsölu. Fóru þar tengiltvinnbílar fremstir í flokki með um 10,3% sölunnar, hybrid bílar um 8,9% og rafmagnsbílar um 7,8%. Eru þetta hlutfallstölur sem eru fáheyrðar annarsstaðar í heiminum fyrir utan Noreg og er líklegt að Ísland verði áfram í fararbroddi þar sem horft er til framlengingar á ívilnunum vegna vörugjalda við kaup á slíkum bílum.

Þá má nefna að sala vistvænna bíla núna í janúar 2020 nam um 52,2% af heildarsölunni. Sé það einhver vísbending þá er ljóst að hlutfall slíkra bíla tekur enn eitt stökkið nú í ár og eflaust á næstu árum. Er í þessu tilliti gleðiefni að tekið var undir tillögur Bílgreinasambandsins í nefndaráliti Efnahags- og viðskiptanefndar fyrir áramót um að framlengja ívilnanir vegna tengiltvinnbíla til 2023 í stað þess að fella þær niður með öllu í lok 2020. Dæmi erlendis frá hafa nefnilega sýnt með greinilegum hætti að slíkar aðgerðir hafa hægt verulega á sölu þessarar tegundar bíla.