Fara í efni

Rúm­góður bíll á lægra verði

Fréttir

Toyota Aur­is er sann­ar­lega til í fjöl­mörg­um út­færsl­um: Bens­ín, dísil og hybrid auk þess sem hægt er að fá hann sem hybrid lang­bak og er sá bíll 285 mm lengri en fimm dyra út­gáf­an.

Í dag fæst fimm dyra bens­ín­bíll­inn, Aur­is Live, með 1,6 l vél, sjálf­skipt­ur á sér­verði og er sá bíll til um­fjöll­un­ar hér. Hann kostaði áður 4.120.000 kr. en á sér­verði kost­ar hann 3.890.000 kr. Eins og ég hef áður skrifað þá er það gleðiefni þegar umboðin sjá sér fært að lækka verð á bíl­um og er það já­kvæðari og skemmti­legri frétt en hinar stöðugu og hvim­leiðu frétt­ir um verðhækk­an­ir á hinu og þessu sem gera fátt annað en að hryggja mann. Þessi bíll er býsna spræk­ur enda með 132 hestafla 1,6 l vél.

Leður­klætt stýri, tölvu­stýrð miðstöð og loft­kæl­ing eru meðal staðal­búnaðar í Toyota Aur­is. mbl.is/Þ​órður Arn­ar Þórðar­son

Sá búnaður sem prýðir þenn­an bíl er meðal ann­ars leður­klætt stýri, tölvu­stýrð miðstöð og loft­kæl­ing. Hann er vel bú­inn þrátt fyr­ir að verðið sé lægra en sést hef­ur á þess­um bíl.

Golf­sett og fleira í skottið

Með bros á vör get ég greint frá því að vel megi koma fyr­ir golf­setti í far­ang­urs­rými bíls­ins og kerru líka. Hann leyn­ir nefni­lega á sér og er ótrú­lega rúm­góður. Far­ang­urs­rýmið er 360 lítra og má auðveld­lega stækka það til muna með því að fella aft­ur­sæt­in niður. Aur­is er ekki smá­bíll en er eft­ir sem áður mjög nett­ur og auðvelt er að skutla hon­um inn í lít­il bíla­stæði. Eyðslu­töl­urn­ar eru ekki svo slæm­ar en þær töl­ur sem gefn­ar eru upp inn­an­bæjar eru 7,4 l/​100 km og 4,8 l/​100 km í akstri ut­an­bæjar. Í blönduðum akstri má reikna með eyðslu sem nem­ur 5,7 lítr­um á hverja hundrað kíló­metra sem er vel inn­an marka fyr­ir þá sem láta sig eyðslu­töl­ur varða. Verst er þó að þessi ágæti bíll skuli ekki falla inn í flokk vist­hæfra bíla en til þess að svo sé þarf meng­un­in að vera 120 g af CO2/km eða minna. Meng­un­arstuðull sjálf­skipta bíls­ins er 134 g/​km sem er aðeins yfir viðmiðinu. Aðrar gerðir Aur­is falla þó í flokk­inn.

Spræk­ur og vel bú­inn

Sem fyrr seg­ir er bíll­inn bú­inn öfl­ugri vél og er vel spræk­ur sé maður á þeim bux­un­um. Hann er nokkuð skemmti­leg­ur í akstri og ætli lip­urt stýrið spili ekki ein­hverja rullu í þeirri upp­lif­un. Það gef­ur bíln­um ákveðinn „karakt­er“ og er það vel. Helstu kost­ir þessa bíls eru án efa þeir hversu rúm­góður hann er og snögg­ur. Góður búnaður kem­ur þar á eft­ir en þeir bíl­ar sem Toyota á Íslandi flyt­ur inn eru alla jafna með öll­um helsta búnaði í grunn­inn. Þetta er bíll sem flest­ir ættu að geta látið sér vel lynda og hent­ar meðal­stórri fjöl­skyldu eða ein­stak­ling­um prýðilega. Hann er tíu sek­únd­ur frá 0-100 þannig að ekki er hann sport­ari þó að spræk­ur sé en afar þægi­leg­ur í alla staði og fínn í það helsta sem fólk þarf bíl í.

Oft hef­ur þessi bíll verið bor­inn sam­an við VW Golf, Ford Focus og Audi A3. Þá er að sjá hvað nýtt verð á sjálf­skipt­um Toyota Aur­is með 1,6 l bens­ín­vél ger­ir fyr­ir hann í verðsam­an­b­urði við keppi­naut­ana:

VW Golf fæst ekki sjálf­skipt­ur með 1,6 l bens­ín­vél en ef við skoðum verðið á sjálf­skipt­um Golf með 1,6 l dísil­vél þá kost­ar hann 4.330.000 kr. Fyr­ir Ford Focus í sama flokki þarf að greiða 3.890.000 kr. sem er ná­kvæm­lega það sama og fyr­ir Aur­is sem hér er til skoðunar.

Audi A3 er fá­an­leg­ur með 1,6 l bens­ín­vél en ekki sjálf­skipt­ur. Bein­skipt­ur Audi A3 Sport­back með þeirri vél kost­ar 4.840.000 kr. Eft­ir þessa upp­taln­ingu er óhætt að segja að á þessu verði, 3.890.000 kr. er Toyota Aur­is verðugur keppi­naut­ur fyr­ir Golf, Focus og A3.

mal­in@mbl.is