Toyota Auris er sannarlega til í fjölmörgum útfærslum: Bensín, dísil og hybrid auk þess sem hægt er að fá hann sem hybrid langbak og er sá bíll 285 mm lengri en fimm dyra útgáfan.
Í dag fæst fimm dyra bensínbíllinn, Auris Live, með 1,6 l vél, sjálfskiptur á sérverði og er sá bíll til umfjöllunar hér. Hann kostaði áður 4.120.000 kr. en á sérverði kostar hann 3.890.000 kr. Eins og ég hef áður skrifað þá er það gleðiefni þegar umboðin sjá sér fært að lækka verð á bílum og er það jákvæðari og skemmtilegri frétt en hinar stöðugu og hvimleiðu fréttir um verðhækkanir á hinu og þessu sem gera fátt annað en að hryggja mann. Þessi bíll er býsna sprækur enda með 132 hestafla 1,6 l vél.
Leðurklætt stýri, tölvustýrð miðstöð og loftkæling eru meðal staðalbúnaðar í Toyota Auris. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Sá búnaður sem prýðir þennan bíl er meðal annars leðurklætt stýri, tölvustýrð miðstöð og loftkæling. Hann er vel búinn þrátt fyrir að verðið sé lægra en sést hefur á þessum bíl.
Golfsett og fleira í skottið
Með bros á vör get ég greint frá því að vel megi koma fyrir golfsetti í farangursrými bílsins og kerru líka. Hann leynir nefnilega á sér og er ótrúlega rúmgóður. Farangursrýmið er 360 lítra og má auðveldlega stækka það til muna með því að fella aftursætin niður. Auris er ekki smábíll en er eftir sem áður mjög nettur og auðvelt er að skutla honum inn í lítil bílastæði. Eyðslutölurnar eru ekki svo slæmar en þær tölur sem gefnar eru upp innanbæjar eru 7,4 l/100 km og 4,8 l/100 km í akstri utanbæjar. Í blönduðum akstri má reikna með eyðslu sem nemur 5,7 lítrum á hverja hundrað kílómetra sem er vel innan marka fyrir þá sem láta sig eyðslutölur varða. Verst er þó að þessi ágæti bíll skuli ekki falla inn í flokk visthæfra bíla en til þess að svo sé þarf mengunin að vera 120 g af CO2/km eða minna. Mengunarstuðull sjálfskipta bílsins er 134 g/km sem er aðeins yfir viðmiðinu. Aðrar gerðir Auris falla þó í flokkinn.
Sprækur og vel búinn
Sem fyrr segir er bíllinn búinn öflugri vél og er vel sprækur sé maður á þeim buxunum. Hann er nokkuð skemmtilegur í akstri og ætli lipurt stýrið spili ekki einhverja rullu í þeirri upplifun. Það gefur bílnum ákveðinn „karakter“ og er það vel. Helstu kostir þessa bíls eru án efa þeir hversu rúmgóður hann er og snöggur. Góður búnaður kemur þar á eftir en þeir bílar sem Toyota á Íslandi flytur inn eru alla jafna með öllum helsta búnaði í grunninn. Þetta er bíll sem flestir ættu að geta látið sér vel lynda og hentar meðalstórri fjölskyldu eða einstaklingum prýðilega. Hann er tíu sekúndur frá 0-100 þannig að ekki er hann sportari þó að sprækur sé en afar þægilegur í alla staði og fínn í það helsta sem fólk þarf bíl í.
Oft hefur þessi bíll verið borinn saman við VW Golf, Ford Focus og Audi A3. Þá er að sjá hvað nýtt verð á sjálfskiptum Toyota Auris með 1,6 l bensínvél gerir fyrir hann í verðsamanburði við keppinautana:
VW Golf fæst ekki sjálfskiptur með 1,6 l bensínvél en ef við skoðum verðið á sjálfskiptum Golf með 1,6 l dísilvél þá kostar hann 4.330.000 kr. Fyrir Ford Focus í sama flokki þarf að greiða 3.890.000 kr. sem er nákvæmlega það sama og fyrir Auris sem hér er til skoðunar.
Audi A3 er fáanlegur með 1,6 l bensínvél en ekki sjálfskiptur. Beinskiptur Audi A3 Sportback með þeirri vél kostar 4.840.000 kr. Eftir þessa upptalningu er óhætt að segja að á þessu verði, 3.890.000 kr. er Toyota Auris verðugur keppinautur fyrir Golf, Focus og A3.
malin@mbl.is