Fara í efni

Raf­magnað út­spil frá Mercedes-Benz

Fréttir

Frétt af mbl.is

Sí­fellt fleiri bíla­fram­leiðend­ur halla sér að öðrum orku­gjöf­um en jarðefna­eldsneyti og sem stend­ur virðist raf­magnið ætlað að verða ofan á. Flest­ir fikra sig hægt í þessa átt með vél­ar­kost­um sem eru beggja blands með ein­hverj­um hætti, ým­ist ein­fald­ur hybrid eða plug-in hybrid.

Nokkr­ir hafa hins veg­ar kosið að fara alla leið og bjóða upp á hrein­ræktaða raf­bíla og það er til marks um ásetn­ing Mercedes-Benz að þar á bæ hafa menn afráðið að taka slag­inn og kynna til sög­unn­ar alraf­magnaðan bíl í B-Class lín­unni. Sum­ir raf­bíl­ar eru ótta­leg­ar „sauma­vél­ar“ hvað aflið varðar en það er gleðiefni hvað Benz B250e er eld­spræk­ur í akstri.

Fjöl­nota­leg­ur í út­liti

Orðið „fjöl­nota­bíll“ er yf­ir­leitt notað bíl­um til hróss því það merk­ir að viðkom­andi bíll sé fjöl­hæf­ur og til margs nýti­leg­ur. Und­ir­ritaður er þó ekki endi­lega aðdá­andi þeirra bíla sem fylla þann flokk, en það er ekki þar með sagt að bíl­arn­ir séu verri fyr­ir bragðið – það er yf­ir­leitt út­litið sem geld­ur fyr­ir fjöl­not­in. Það er að nokkru leyti til­fellið hjá B-Class frá Benz. Það skal tekið fram að í til­felli þessa til­tekna fram­leiðanda er úr háum söðli að detta, því nýir Benz­ar eru yf­ir­leitt fal­leg­ir út­lits, hvort þeir eru sed­an-bíl­ar, skut­vagn­ar eða jepp­ar af hvaða stærðarsort sem vera skal. En B-Class bíll­inn er með strumpa­strætó-brag, svo­lítið bragga­leg­ur, og ekki er fyr­ir hinum íðilfögru straum­lín­um að fara sem ein­kenna flesta fólks­bíla fram­leiðand­ans um þess­ar mund­ir, svo sem C, E og S-Class. En það verður ekki á allt kosið og bíll­inn hef­ur vissu­lega sína kosti, þó að ekki sé hann sæt­asta stelp­an á ball­inu.

Inni erum við að tala sam­an!

Það kveður held­ur við ann­an tón þegar inn fyr­ir er komið því þar þekk­ir maður sig þegar í stað, hafi maður á annað borð setið í Benz ein­hvern tím­ann áður. Flest sem mæt­ir manni hér inni er áþekkt því sem maður á að venj­ast, allt frá gírsveif­inni hægra meg­in í stýris­stokkn­um og að raf­mögnuðum sæt­astill­ing­un­um inn­an á hurðaflek­an­um. Lofttúðurn­ar þrjár eru á sín­um stað og setja sinn auðkenn­is­svip á bíl­inn og miðstöð helstu aðgerða er sömu­leiðis í sams­kon­ar skjá og venj­an er í Benz. Efn­is­valið er allt sam­an tipp topp og fag­ur­fræðilega eru innviðir B-Class eru ákaf­lega vel heppnaðir.

Það er einnig ótví­ræður kost­ur að það er hátt til lofts inni í bíln­um og út­sýni öku­manns er ljóm­andi. Þá er einkar þægi­legt að setj­ast inn í bíl­inn því hvorki þarf að hvorki að setj­ast niður í hann eða príla upp; maður sest bara því sem næst beint inn í hann. Ótví­ræður kost­ur þarna á ferð fyr­ir þá sem eiga erfitt með að príla upp eða snúa upp á búk­inn á sér til að setj­ast niður inni í bíl.

Farþegar í aft­ur­sæti eiga líka sjö dag­ana sæla enda hátt til lofts fyr­ir þá sömu­leiðis og fóta­rými ágætt.

(Raf)mögnuð frammistaða

Kannski vegna þess að B250e býður ekki af sér jafn af­ger­andi feg­urðarþokka og flest­ir aðrir fjöl­skyldumeðlim­ir þá býst maður kannski ekki við því að akst­ur­seig­in­leik­arn­ir töfri mann til­tak­an­lega. En þar skjöplast manni! Bíll­inn er nefni­lega hreint eld­spræk­ur og hest­öfl­in 179 skila togi upp á 340 Nm til hjól­anna og ef maður fer ekki var­lega í inn­gjöf­inni í kyrr­stöðu þá hrein­lega spól­ar hann af stað, á skraufþurr­um vegi. Und­ir­ritaður lenti tvisvar í því að þegar til stóð að sæta fær­is og skjóta sér inn í iðuköst hring­torgs á há­anna­tíma að bíll­inn hrein­lega spólaði af stað þegar gjöf­in var sett í gólfið. Því bjóst ég ekki við.

Að öðru leyti er bíll­inn ein­fald­lega svaka­lega fínn að keyra. Stýr­ing­in er þægi­leg, út­sýni gott sem fyrr seg­ir og aðgengi að aðgerðum á skján­um efst fyr­ir miðri inn­rétt­ing­unni prýðilegt.

Skjót og góð hleðsla

Þá er það raf­magnið. Bíll­inn hleðst til­tölu­lega fljótt og vel og drægið er meira en ásætt­an­legt til inn­an­bæjarakst­urs. Þó þarf að gæta sín á því að ef ekki er stutt á til­tek­inn hnapp í inn­rétt­ingu þá hleður bíll­inn sig, í sam­bandi, ekki nema upp í 80%. En hann er ekki lengi að því og 200 kíló­metra drægi er með því betra sem býðst á markaðnum.

http://www.mbl.is/bill/domar/2016/12/16/rafmagnad_utspil_fra_mercedes_benz/