Fara í efni

Pottþétt­ur staður til að vera á

Fréttir

Frétt af mbl.is

Volvo á um þess­ar mund­ir ákveðið mó­ment, eins og gjarna er haft á orði um þann sem geng­ur allt í vil. Sú var tíðin að Volvo var bíll sem skóp sína sér­stöðu á markaði með framúrsk­ar­andi ör­ygg­isþátt­um.

Annað var ein­hvern veg­inn bara bón­us og kaup­end­ur gerðu tak­markaðar kröf­ur um­fram það. Sjón­ar­mið þeirra var að tryggja sér sem mest ör­yggi í um­ferðinni; fer­köntuð hönn­un og svo­lít­ill trak­torabrag­ur í akstri var bara eitt­hvað sem maður sætti sig við – þannig lagað. En í kring­um síðustu alda­mót ákvað ein­hver gæfumaður­inn inni á gafli hjá Volvo að ör­yggi, flott út­lit og skemmti­leg­ir akst­ur­seig­in­leik­ar þyrftu ekki að vera gagn­kvæmt úti­lok­andi eig­in­leik­ar og síðan hef­ur hinn sænski fram­leiðandi ekki litið um öxl. Á meðan svali sveit­ung­inn, SAAB, sem þótti lengst af fet­inu fram­ar hvað út­litið varðar, er á hraðri leið í gl­atkist­una er völl­ur­inn á Volvo slík­ur að það eina sem manni kem­ur í hug að segja er: „Hvað ger­ir Volvo eig­in­lega næst?“

Ríf­andi sexí skut­bíll

Í augna­blik­inu er nýi XC90-jepp­inn mál mál­anna hjá Volvo og ekki að undra því að hann hef­ur alls staðar fengið fyr­ir­taks dóma og selst eins og heit­ar lumm­ur. Því er rétt að gefa öðrum bíl­um hins sænska fram­leiðanda gaum og þá er ekki ama­legt að taka hús á skut­bíln­um V60 D4 R-Design. Fyr­ir 20 árum hefði hug­mynd­in um reffi­leg­an Volvo Stati­on með sport­lega akst­ur­seig­in­leika þótt barna­leg í besta falli, en þessi hér er á pari við þá bestu þegar allt er sett upp á strik. Skyndi­lega er skut­bíll frá Volvo orðinn veru­lega tæl­andi val­kost­ur. Útlitið er nefni­lega allt hið flott­asta. Straum­línu­löguð yf­ir­bygg­ing­in hrein­lega lof­ar manni skemmt­un við fyrstu sýn. Fram­hallandi húddið gef­ur bíln­um það yf­ir­bragð að hann sé bú­inn að taka sér stöðu og muni á hverri stundu rjúka af stað. Vold­ug­ar ál­felg­urn­ar fara hon­um sér­lega vel og þessi bíll er flott­ast­ur á fimm arma felg­um sem loft­ar vel um. Aft­ur­end­inn er að sama skapi gletti­lega vel heppnaður og neðri brún stuðarans, með tvö­földu pústi í króm­huls­um, er framúrsk­ar­andi flott.

Að inn­an hef­ur Volvo dottið niður á ein­fald­an en um leið sér­lega smekk­leg­an frá­gang sem er með áþekk­um hætti gegn­um­gang­andi í mód­el­um fram­leiðand­ans. Allt sem ökumaður þarf að eiga við er inn­an seil­ing­ar, sniðug­lega raðað niður stjórn­tækjapanel­inn og það þarf ekk­ert handapat til að finna út úr því sem finna þarf. Auk þess er víðtækt úr­val aðgerðastýr­inga í stýris­hjól­inu, sem auðveld­ar af­greiðslu mála til muna. Þar má meðal ann­ars skipta milli þriggja „prófíla“ eða svip­móta fyr­ir bíl­inn, og stend­ur valið um El­eg­ance, ECO og Per­formance. Þegar bíln­um hef­ur verið ekið um stund blas­ir við að síðast­nefnda still­ing­in verður oft­ast fyr­ir val­inu því þetta er bara þannig bíll.

Sport­leg­ur út­lits og í akstri

R-Design merk­ir að hér er vel í lagt hvað hönn­un­arþátt­inn varðar. Það er hverj­um öku­manni aug­ljóst um leið og sest er inn í bíl­inn. Blá ljós í mæla­borði og áls­leg­inn miðju­stokk­ur auka bara á eft­ir­vænt­ing­una eft­ir bíltúrn­um og hurðaskell­ur­inn er þétt­ur og traust­vekj­andi. Sæt­in hafa veru­lega upp­hleypt­an hliðarstuðning og eru frek­ar stíf við setu; alls ekki svo óþægi­legt sé, öðru nær. Stýrið, klætt nappa-leðri, er einkar þægi­legt og mátu­lega st­amt viðkomu til að halda vel í þegar lagt er í hann. Þegar ekið er svo af stað kem­ur ber­lega í ljós að öll fyr­ir­heit­in sem fel­ast í hönn­un og út­liti bíls­ins eru langt því frá að vera út í blá­inn. Fyrst er að nefna gír­kass­ann. Hann er ein­fald­lega framúrsk­ar­andi skemmti­leg­ur, átta þrepa sjálf­skipt­ur, og svo viðbragðsfljót­ur að unun er að reyna. Upp­takið er feikigott og skipt­ing­arn­ar þaðan í frá nán­ast full­kom­lega tíma­sett­ar og aflið ríf­legt í hverju þrepi. Togið er hörkugott og það þarf að hafa tölu­vert fyr­ir því að toppa þenn­an úr kyrr­stöðu á ljós­um. Fyr­ir þá sem vita bet­ur eru flip­ar sitt­hvoru meg­in við stýrið til að hand­stýra skipt­ing­unni en það er ekki hlaupið að því að gera bet­ur en gír­kass­inn. Fjöðrun­in er skemmti­lega stíf og sport­leg og bíll­inn stein­ligg­ur á vegi, þökk sé 18 tommu ál­felg­um og vel breiðum dekkj­um. Ef tekið er á því örl­ar á und­ir­stýr­ingu en það er ekki fyrr en í fulla hnef­ana og þá er gott að minna sjálf­an sig á að hér er um Volvo Stati­on að ræða, ótrú­legt en satt. Því­lík skemmt­un!

Um ör­yggið er óþarfi að fjöl­yrða á þess­um vett­vangi en bíla­áhuga­menn vita sem er að þar hafa fáir staðist Volvo snún­ing­inn síðustu ára­tugi.

Um­hverf­i­s­vænn með af­brigðum

Maður skyldi ætla að jafn mik­ill sport­bíll gengi þvert á þær flottu töl­ur sem Volvo hef­ur verið að ná í eldsneyt­is­notk­un og út­blæstri en aft­ur er hætt við því að fara þar vill­ur veg­ar því að töl­urn­ar fyr­ir þenn­an bíl koma skemmti­lega á óvart og vel það. Spar­neytn­in er gapandi góð (reynd­ar tókst ekki al­veg að halda bíln­um í inn­an­bæjarakstri í upp­gefn­um 4,2 lítr­um en það munaði svo sem eng­um ósköp­um) og CO2-gildið ekki nema 112 grömm á hundraðið. Öll þessi skemmt­un án þess að um­hverfið þurfi að líða fyr­ir það? Magnað!

Í sam­keppn­inni við skut­bíla á borð við Audi A4 og BMW 3-Series hef­ur Volvo búið til ein­stak­lega aðlaðandi val­kost sem hef­ur út­litið, akst­ur­seig­in­leik­ana og ör­yggið með sér og er um­hverf­i­s­vænn í ofanálag. Allt í allt er Volvo V60 D4 R-Design ein­fald­lega leiðandi val­kost­ur í sín­um flokki.

http://www.mbl.is/bill/domar/2015/08/04/pottthettur_stadur_til_ad_vera_a/