Fara í efni

Óljós skilaboð og fyrirætlanir stjórnvalda í orkuskiptum

Fréttir

Í lok þessa árs fellur virðisaukaskattsívilnun fyrir hreinorkubíla niður og að óbreyttu hækkar því verð umtalsvert í byrjun næsta árs. Í fjármálaáætlun fyrir árin 2024-2028 kemur fram að draga eigi verulega úr stuðningi við orkuskipti í samgöngum. Í stuttu máli er gert ráð fyrir því að stuðningur við orkuskipti í samgöngum muni dragast saman um 57% á tíma gildandi fjármálaáætlunar, þ.e. úr 11,6 milljörðum kr. á líðandi ári í 5 milljarða á árinu 2026. Hins vegar, þrátt fyrir að áramótin séu handan við hornið, liggur ekki fyrir hvernig þessum stuðningi skal háttað og óvissan og framtíðarsýn þegar kemur að framkvæmd orkuskipta enn og aftur óljós.

Fjármála- og efnahagsráðherra og innviðaráðherra hafa báðir tjáð sig um skattlagningu á notkun ökutækja. Allir verða að taka þátt, losun verður að minnka og hér verður að vera til heimagerð orka m.a. til að knýja ökutækin. Þó að það sé frábært liggur leiðin ekkert skýrar fyrir og fyrir vikið er stefnumörkunin óljós. Gera verður kröfu til þess að slík skattlagning verði kynnt með góðum fyrirvara til þess að einstaklingar og fyrirtæki geti búið sig undir og aðlagað sig breyttu umhverfi.

Frá 2011 hefur efnahagslegum hvötum verið beitt til að draga úr losun í vegasamgöngum. Fyrirsjáanleikinn í þeim efnum hefur oftar en ekki verið lítill og nú standa bæði kaupendur og seljendur ökutækja enn og aftur frammi fyrir því að áform stjórnvalda eru óljós þegar kemur að skattheimtu, ívilnunum og markmiðum. Bæði innflytjendur ökutækja og neytendur eru settir í þá stöðu að vita ekki hvert vöruverð hreinorkubíla verður frá næstu áramótum.

Stjórnvöld víkja frá stefnu um hröð orkuskipti

Stjórnvöld hafa sett metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og eins og oft áður er stefnt að betri árangri á því sviði en hjá öðrum þjóðum. Það eru hins vegar ekki ný sannindi að til þess að sett markmið náist þarf leiðin að þeim að vera skýr. Stjórnvöld hafa gengist undir alþjóðlegar skuldbindingar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 29% fyrir árið 2030 miðað við losun ársins 2005. Jafnframt er í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar sett landsmarkmið um 55% samdrátt fyrir sama tímabil. Til að ná þessum markmiðum var lagt upp með að hraða orkuskiptum.

Tíðar og fyrirvaralitlar breytingar á lögum gera allar langtímaáætlanir erfiðar. Um síðustu áramót voru innleiddar breytingar á vörugjöldum á ökutæki þar sem 5% vörugjald var lagt á hreinorkuökutæki. Þessi breyting hafði í för með sér að vörugjöld hækkuðu minna á ökutæki sem nota jarðefnaeldsneyti en önnur. Þarna skýtur skökku við og er ekki í neinu samræmi við þær skuldbindingar sem stjórnvöld hafa undirgengist. Það sem af er ári eru 64,3% innfluttra ökutækja jarðefnaeldsneytisökutæki. Sé miðað við meðal endingartíma ökutækja má gera ráð fyrir því að þau verði enn á götunum langt fram á næsta áratug.

Hinn 30. ágúst sl. birti Umhverfisstofnun bráðabirgðaniðurstöður um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi árið 2022. Þar kemur m.a. fram að losun vegna vegasamgangna hafi aukist um 8% frá fyrra ári en alls jókst slík losun um 65.839 tCO2-ígildi. Á engan hátt er því unnt að koma auga á að sett markmið séu að nást. Við erum í raun að fjarlægjast þá stöðu sem stefnt er að árið 2030.

Fyrirsjáanleiki skiptir höfuðmáli fyrir atvinnulífið

Á síðasta ári óskaði umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, eftir aðstoð atvinnulífsins við að afmarka aðgerðir sem stefna að árangri m.t.t. loftslagsmarkmiða stjórnvalda. Atvinnulífið tók verkefnið alvarlega og skilaði ráðherra sl. vor fjölmörgum tillögum. Bílgreinasambandið hafði ásamt Samtökum ferðaþjónustunnar umsjón með gerð tillagna um samdrátt losunar í vegasamgöngum sem voru hvorki meira né minna en 83 talsins, en þar var lögð helst áhersla á mótun langtíma- og þrepaskiptrar stefnu a.m.k. til ársins 2030 um skattheimtu af jarðefnaeldsneyti og ökutækjum. Tillagan er ákall um fyrirsjáanleika. Orkuskipti í vegasamgöngum er gríðarlega umfangsmikið og flókið verkefni vegna fjölda hagaðila og fjárhags- og tæknilegra áskorana. Til þess að leysa slíkt verkefni vel þarf að ná heildstæðri nálgun og stilla upp aðgerðum sem vinna saman, eru fyrirsjáanlegar, hagkvæmar og mælanlegar.

Fyrir bílgreinina sem atvinnugrein skiptir í sjálfu sér ekki máli hvort hún fæst við hreinorku- eða jarðefnaeldsneytisökutæki. Bílgreinin hefur hins vegar sýnt það í verki að greinin er tilbúin að vinna ötullega með stjórnvöldum að orkuskiptum í vegasamgöngum í einni mestu umbreytingu allra tíma. Það sem skiptir bílgreinina máli, rétt eins og aðrar atvinnugreinar, er fyrirsjáanleikinn og því óskum við sem innan bílgreinarinnar störfum, eftir því að stjórnvöld sýni spilin og geri almennilega grein fyrir hvernig leiðin liggur að orkuskiptum og með góðum fyrirvara.