Frétt af mbl.is
Króatíski frumkvöðullinn Mate Rimac mætti til bílasýningarinnar í Genf í byrjun mars með bíl sem talsverð eftirvænting hefur ríkt eftir. Hér er um að ræða fyrsta ofurrafbíl heimsins, eins og tekið er til orða, Rimac Concept One.
Alls ráðgerir Rimac smíði átta útgáfa af ofurrafbílum og er Concept One sá fyrsti. Tilkynnt var um áform um þróun hans og smíði fyrir fimm árum.
Þeir sem áhuga kynnu á að verða sér úti um eintak þurfa eiga minnst eina milljón dollara handbæra, það er nokkurn veginn verðmiði bílsins. En Rimac óttast það ekki og segist sannfærður um að hafa hannað hinn fullkomna ofurbíl fyrir rafbílamarkaðinn.
Nýstárleg aflrásin er algjör frumsmíði Rimac og er hönnuð til að þyngdardreifingin verði sem jöfnust í bílnum. Rafmótor er byggður inn í hvert hjólanna fjögurra fyrir aukið afl og betri stjórn á bílnum. Innanvert skín lúxus allt í gegn og þykir smíðin einstaklega vönduð.
Sé spurt um hraða er svarið þann veg, að topphraðinn er 355 km/klst og á 100 km/klst ferð úr kyrrstöðu nær hann á einungis 2,6 sekúndum. Sé það rétt er um einstaklega tilkomumikið upptak af rafbíl að vera. Þessi snerpa er ekki allt því 200 km ferð úr kyrrstöðu nær Rimac-bíllinn á 6,2 sekúndum og 300 km á 14,2 sekúndum. Mesta afl er 800 kílóvött og togið 1600 Nm.
RimacConceptOne er ekki eini rafmagnaði ofurbíllinn sem er um það bil að koma á götuna. Tesla er með smíði Model R ofurbílsins bígerð, Faraday boðar Future og í Singapúr er bílsmiðurinn Vanda Electric að leggja dröög að ofurbílnum Dendrobium.
http://www.mbl.is/bill/frettir/2016/03/29/fyrsti_ofurrafbillinn_afhjupadur/