Fara í efni

Nýskráning sendi-, vöru- og hópbifreiða 2025

Fréttir

Á árinu 2025 voru nýskráðar 3.230 nýjar og notaðar bifreiðar í flokki hefðbundinna atvinnubifreiða þ.e. sendi-, vöru- og hópbifreiða sem jafngildir 3% fækkun frá árinu á undan. Orkuskipti umræddra bifreiða hafa verið hægfara í samanburði við fólksbifreiðar en engu að síður í gangi og tóku stökk á árinu sem var að líða. Algengasti orkugjafinn var dísel, með 67% hlutdeild, en þar á eftir kom rafmagn, með 20% hlutdeild.

Stærstur hluti umræddra bifreiða voru sendibifreiðar og voru nýskráðar samtals 2.255 sendibifreiðar, sem jafngildir 9% fækkun milli ára. Hlutfall rafmagnsbifreiða var 20% af nýskráningum sendibifreiða sem er hæsta hlutfallið til þessa. Dísel var áfram algengasti orkugjafinn líkt og fyrri ár með 62% hlutdeild.

Næst fjölmennasti flokkur atvinnubifreiða voru vörubifreiðar. Samtals voru nýskráðar 755 smáar og stórar vörubifreiðar á árinu 2025 sem er 26% aukning milli ára. Aukningin var að stærstum hluta drifin áfram af fjölgun minni vörubifreiða sem eru skilgreindar sem 3,5-12 tonn að heildarþyngd.

Töluverður endasprettur var í nýskráningum minni vörubifreiða undir lok árs og má leiða að því líkum að hann tengist annarsvegar breytingum á vörugjaldi og hins vegar lækkun rafbílastyrks fyrir litlar vörubifreiðar, en bæði tók gildi um áramótin. Það síðarnefnda kann að vera ástæða þess að aukning rafmagnsbíla var áberandi í nýskráningum vörubifreiða á árinu en hlutdeild í nýskráningum fór úr 2% í 24%. Dísel var engu að síður áfram ráðandi orkugjafi með 75% hlutdeild.

Samanlagt voru nýskráðar 220 stórar og smáar hópbifreiðar á árinu 2025 sem er 10% fækkun milli ára. Algengasti orkugjafinn var dísel líkt og fyrri ár með 88% hlutdeild. Rafmagn jók hins vegar vægi sitt og nam 11% af nýskráningum á árinu.