Á árinu 2025 voru samtals nýskráðir 14.556 nýir fólksbílar, sem jafngildir 42% aukningu milli ára. Aukningin var að stórum hluta drifin áfram af nýskráningum einstaklinga en auk þess jukust nýskráningar hjá ökutækjaleigum og öðrum fyrirtækjum milli ára eftir rólegt ár 2024.

Framan af ári voru nýskráningar fólksbíla í hefðbundnum takti miðað við meðaltal síðastliðinna ára. Á síðustu tveimur mánuðum ársins, nóvember og desember, voru nýskráningar töluvert umfram það sem tíðkast að jafnaði á þeim árstíma. Líkleg skýring kann að felast í viðbrögðum heimila og fyrirtækja við annars vegar breytingum á vörugjaldi af ökutækjum, og hins vegar lækkun rafbílastyrks um áramótin. Má gera ráð fyrir að þessar tvær breytingar hafi leitt til að hluti bílakaupa hafi færst fram í tímann, þannig að viðskiptin eigi sér stað áður en breytingarnar taka gildi. Það gæti aftur leitt til samdráttar í nýskráningum á næsta ári.
Hlutfall rafmagns- og tengiltvinnbíla náði á ný fyrra hármarki eftir bakslag árið 2024. Rafmagn var jafnframt algengasti orkugjafinn meðal nýrra fólksbíla á árinu 2025 með 41% hlutdeild. Þar á eftir komu tvinnbílar (e. hybrid) og síðan tengiltvinnbílar (e. PHEV).

Einstaklingar leiddu þann mikla vöxt sem var milli ára í nýskráningum nýrra fólksbíla. Alls nýskráðu einstaklingar 6.684 nýja fólksbíla sem er um 75% aukning milli ára. Þessi mikla hækkun helgast að miklu leyti af óvenjufáum nýskráningum einstaklinga árið á undan.

Nýskráningum einstaklinga fjölgaði þegar líða tók á árið. Stærstu mánuðir ársins í tilviki einstaklinga reyndust vera nóvember og desember, sem er óvenjulegt miðað við árstíðasveiflur síðustu ára. Líkt og áður hefur verið nefnt er líklegt að sú þróun endurspegli viðbrögð heimilanna við breytingum á vörugjaldi af ökutækjum og rafbílastyrk sem tóku gildi um áramótin.

Sé litið til orkugjafa má sjá að rafmagn var vinsælasti orkugjafinn og voru 2 af hverjum 3 nýjum fólksbílum sem einstaklingar nýskráðu á árinu 2025 rafmagnsbílar. Aðeins árið 2023 var hlutfallið hærra, en það var jafnframt síðasta árið sem VSK-ívilnun var í gildi fyrir rafmagnsbíla, en árið 2024 tók rafbílastyrkur við af því fyrirkomulagi.

Önnur fyrirtæki en bílaleigur nýskráðu 1.860 nýja fólksbíla á árinu 2025 sem nemur 22% aukningu milli ára. Algengasti orkugjafinn var rafmagn, með 56% hlutdeild og þar á eftir tengiltvinnbílar með 22% hlutdeild.

Ökutækjaleigur nýskráðu alls 6.009 nýja fólksbíla á árinu sem er 23% aukning milli ára. Tvinnbílar voru algengastir með 38% hlutdeild og þar á eftir tengiltvinnbílar með 22% hlutdeild.

Kia var mest skráða einstaka bíltegundin á árinu 2025, með samanlagt 2.004 nýja fólksbíla eða sem nemur 13,8% hlutdeild. Næst mest skráða bíltegundin á árinu var Tesla með 1.901 nýja fólksbíla eða 13,1% hlutdeild. Þar á eftir var Toyota með 1.737 nýja fólksbíla eða sem nemur 11,9% af hlutdeild.
Hvað gerist á nýju ári? Áhugavert verður að fylgjast með nýskráningum á árinu 2026. Gera má ráð fyrir að hluti þeirra fólksbíla sem fluttir voru til landsins undir lok árs 2025 verði ekki nýskráður fyrr en á árinu 2026. Af þeim sökum munu nýskráningar á fyrri hluta árs ekki endurspegla að fullu áhrif þeirra breytinga sem tóku gildi um áramótin. Því verður áhugavert að skoða upplýsingar um innflutning ökutækja bæði í árslok 2025 og ársbyrjun 2026, þegar þær liggja fyrir á vef Hagstofunnar. Slíkar upplýsingar kunna að varpa betra ljósi á áhrif breytinganna en tímasetning nýskráningar.