Í nóvember voru nýskráðir alls 1.405 nýir fólksbílar. Fjöldi nýskráninga í nóvember er meiri en tíðkast öllu jafna í mánuðinum líkt og sjá má á myndinni hér að neðan. Líkleg skýring á þessari aukningu eru viðbrögð heimila og fyrirtækja við tillögum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um hækkun vörugjalda á ökutæki sem kynntar voru upp úr miðjum október sl. Reynslan sýnir að þegar skattahækkanir hafa verið boðaðar á innflutning ökutækja færist hluti fyrirhugaðra bílakaupa fram og á sér stað áður en skattahækkanir taka gildi. Má gera ráð fyrir að nýskráningar í desember verði einnig vel umfram það sem tíðast hefur þann mánuðinn. Það mun væntanlega á móti leiða til þess að nýskráningar á næsta ári dragist saman sem því nemur. Þá segir reynslan okkur einnig að vörugjaldshækkanir á nýjum bílum hafa tilhneigingu til að koma fram í formi hækkana á eftirmarkaði. Þannig er afar hætt við að sveiflur á bílamarkaði muni aukast , a.m.k. tímabundið.
Verði tillögur fjármála- og efnahagráðuneytis að lögum má gera ráð fyrir verulegum skattahækkunum á tvinnbíla, tengiltvinnbíla, hefðbundna bensín- og dísilbíla og jafnframt minni vörubifreiðar. Slíkar hækkanir munu að öllum líkindum skila sér að hluta eða öllu leyti út í verð umræddra bíla þó það sé vitaskuld viðfangsefni hvers söluaðila að taka ákvörðun um hvort og hvernig hann tekst á við þær. Skattlagning rafmagnsbíla mun hins vegar ýmist hækka eða lækka eftir því hvort vegur þyngra í heildarverði annars vegar lægri rafbílastyrkur eða hins vegar niðurfelling 5% vörugjalds. Til framtíðar má gera ráð fyrir að breytingarnar leiði til breytinga á samsetningu nýskráðra fólksbíla m.t.t. orkugjafa, með lægra hlutfalli tvinnbíla, tengiltvinnbíla og hefðbundinna bensín- og dísilbíla á sama tíma og hlutfall hreinorkubíla eykst. Töluverð óvissa ríkir þó um hvenær sú þróun muni sjást með skýrum hætti í tölum um nýskráningar þar sem enn er óljóst hvenær nýskráningar allra þeirra fólksbíla sem búist er við í árslok munu eiga sér stað. Þá er ekki víst að tölur næsta árs verði að fullu marktækar í ljósi þess að innkaup næsta árs á bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti eru líkleg til að færast á þetta ár.
Heilt yfir hefur verið góður taktur í nýskráningum fólksbíla það sem af er ári og hafa samtals 12.853 nýir fólksbílar verið skráðir sem er 36,6% aukning samanborið við sama tímabil í fyrra. Algengasti orkugjafinn er rafmagn en meira en 1 af hverju 3 nýjum fólksbílum eru alfarið knúinn rafmagni. Þar á eftir koma tvinnbílar (e. hybrid) og tengiltvinnbílar (e. PHEV). Rétt er að taka fram að þær blikur sem eru á lofti í efnahagslífinu geta einnig haft töluverð áhrif á bílasölu komi þær fram í kaupmætti almennings og fyrirtækja.


*Janúar-nóvember
Einstaklingar hafa nýskráð 5.654 nýja fólksbílar það sem af er ári sem er 61% aukning milli ára. Orkuskipti einstaklinga eru í fullum gangi en 65% nýrra fólksbíla eru alfarið knúnir rafmagni og um 19% eru tengiltvinnbílar.


*Janúar-nóvember
Almenn fyrirtæki (annað en bílaleigur) hafa nýskráð 1.533 nýja fólksbíla það sem af er ári sem er 30% aukning milli ára. Orkuskipti þeirra eru komin vel á veg og voru 57% nýskráninga rafmagnsbílar og þar á eftir komu tengiltvinnbílar með 22% hlutdeild.


*Janúar-nóvember
Ökutækjaleigur hafa skráð það sem af er ári 5.663 nýja fólksbíla sem er 20% aukning milli ára. Hlutfall bílaleigubíla í nýskráningum nýrra fólksbíla er um 44% það sem af er ári. Algengasti orkugjafinn er tvinnbílar (e. hybrid) og þar á eftir koma tengiltvinnbílar (e. PHEV).


*Janúar-nóvember
Kia er áfram mest skráða einstaka bíltegundin það sem af er ári með samanlagt 1.855 nýskráða fólksbíla sem er 14,4% af öllum nýskráðum nýjum fólksbílum. Þar á eftir kemur Tesla með 1.639 fólksbíla sem er 12,8% af nýskráningum og síðan Toyota með 1.500 nýja fólksbíla sem er 11,7% af nýskráningum.