Fara í efni

Nýskráðir fólksbílar í ágúst 2025

Fréttir

Það sem af er ári hafa 9.820 nýir fólksbílar verið skráðir, þar af voru 604 þeirra nýskráðir í ágúst. Það jafngildir 28,3% aukningu frá sama tímabili í fyrra. Aukningin er á breiðum grunni, bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum, eftir rólegt ár í fyrra. Mesta breytingin milli ára er í nýskráningum einstaklinga sem hefur aukist um tæplega helming.

*Janúar-ágúst

Rafmagns- og tengiltvinnbílar (PHEV) eru um helmingur allra nýskráðra nýrra fólksbíla það sem af er ári og nálgast fyrra hámark. Á sama tíma er hlutdeild hefðbundinna bensín- og dísilbíla áfram að dragast saman milli ára og er samanlagt 22%.

Nýskráning rafmagnsbíla hefur tekið við sér eftir verulegan samdrátt á síðasta ári og er rafmagn aftur orðið algegnasti orkugjafinn með um 32% hlutdeild. Séu bílaleigubílar, sem er meira en helmingur nýskráðra fólksbíla, teknir út þá er hlutdeild rafmagnsbíla tæplega 60% af nýskráningum fólksbíla á árinu.

*Janúar-ágúst

Mesta aukningin í nýskráningum fólksbíla er hjá einstaklingum en þeir hafa nýskráð 3.486 nýja fólksbíla það sem af er ári. Það jafngildir 48,6% aukningu milli ára. Orkuskipti einstaklinga eru í fullum gangi og er 61% af nýjum fólksbílum rafmagnsbílar og um 21% tengiltvinnbílar. Fæstir þessara bíla eru hefðbundnir bensínbílar eða um 2%.

*Janúar-ágúst

Fyrirtæki, önnur en ökutækjaleigur, hafa nýskráð 1.093 nýja fólksbíla það sem af er ári. Það er 30,7% aukning milli ára. Flestir þessara bíla eru rafmagnsbílar eða um 54% og þar á eftir koma tengiltvinnbílar með 24% hlutdeild.

*Janúar-ágúst

Ökutækjaleigur hafa, líkt og síðustu fjögur ár, nýskráð flesta nýja fólksbíla það sem af er ári eða 5.239 bíla. Þeim fjölgaði um 17,1% milli ára. Flestir nýir bílaleigubílar eru tvinnbílar (e. hybrid) og fæstir eru rafmagnsbílar.

*Janúar-ágúst

Sé horft til einstakra bíltegunda er Kia með flestar nýskráningar það sem af er ári með samanlagt 1.665 nýskráða fólksbíla. Það jafngildir 17% hlutdeild af öllum nýskráðum fólksbílum. Þar á eftir kemur Toyota með 1.166 nýja fólksbíla sem er 12% hlutdeild og síðan Tesla með 829 fólksbíla og 8% hlutdeild.