Eru nýir, óseldir bílar að safnast saman í svo miklum mæli að þeir þekja heilu hektarana? Í stuttu máli, nei. En því er engu að síður haldi fram í grein sem fer nú eins og stormsveipur um netið, og vitnað var í í DV.
Sagan gengur út á að bílaframleiðendur séu seinir til að bregðast við minnkandi bílasölu í kjölfar efnahagshrunsins, og hafi lítið hægt á framleiðslu sinni.
Að hluta til á það að skýrast af viðleitni þeirra til að halda uppi sölutölum, en að hluta til á það bara að vera þrjóska. Það hafi í för með sér að um allan heim fyllist risastór bíla- og geymslusvæði af óseldum bílum sem enginn vill.
Því er haldið fram að þetta sé að verða svo mikið vandamál, að bílaframleiðendur séu að verða uppiskroppa með pláss. Ennfremur er því haldið fram að bílarnir eyðileggist af því að standa óhreyfðir, og því sé um fullkomna sóun að ræða.
Kyrrstæðir bílar = heimsendir?
Greinin í DV vitnar í grein, sem birtist á vefsíðunni Zero Hegde þann 16. maí, og er endurbirting á grein eftir höfund sem kallar sig Vincent Lewis.
Dodge Durango jeppar. Myndin er frá því fyrir hrun, en Lewis taldi hana sýna kirkjugarð nýrra bíla.
Sá hefur meðal annars gefið bók með samsæriskenningum þar sem hann dregur í efa allt frá fréttaflutningi til sögubóka og að skipið sem sökk eftir árekstur við ísjaka 1912 hafi í raun verið Titanic.
Í grein sinni segir Lewis að bílar séu að safnast upp á mörghundruð stöðum á jörðinni, og skipti milljónum. Um ástæður segir Lewis: „Bílaiðnaðurinn getur ekki hætt að framleiða bíla, því þá þyrfti að loka verksmiðjum og segja upp tugþúsundum starfsfólks. Það myndi bæta enn frekar við kreppuna.
Dómínó-áhrifin yrðu skelfileg, því stálframleiðendur gætu ekki selt stálið sitt. Þeir tugþúsundir staða sem framleiða íhluti í bíla yrðu líka fyrir áhrifum, í raun myndi heimurinn hætta að snúast.“
Þau svo að Lewis sé ekki að tala um raunverulega snúning jarðar um möndul sinn, eru áhrifin sem hann lýsir til þess gerð að mála mjög dökka mynd og vekja ugg í brjósti fólks.
Samsæri eða tilbúningur?
Í lýsingu á bók sinni segir Lewis: „Samsæriskenningasmiðir horfa ekki á bara það sem er skrifað og sett fram í fjölmiðlum, þar með talið bókum.“ Munið, hann er að segja þetta um bók.
Myndin af Nissan akstursbrautinni, sem tekin var rétt eftir hrun. Það kom Lewis miki á óvart að bílarnir væru ekki þar lengur í síðustu viku.
„Þeir leitast við að sjá smáatriði sem öðrum yfirsjást og staðreyndir sem voru vísvitandi huldar, og sannreyna þau eftir því sem atburðir þróast og nýjar uppgötvanir koma í ljós.“
Sé hins vegar horft framhjá því sem Lewis skrifar, kemur í ljós að greinin hans er lítið annað en skrumskæling á grein sem Matt Hardigree, bílablaðamaður á Jalopnik, skrifaði í janúar 2009.
Í greininni rekur Hardigree stuttlega hvernig efnahagshrunið hefur leitt til hruns í bílasölu, þannig að nýir bílar liggi nú óseldir á víð og dreif. Svo mikið var satt og rétt, eða var allavega í þá daga.
Hargidree segist sjálfur hafa stuðst við myndagrein í Guardian, sem fjallaði um nákvæmlega sama vanda, fjórum dögum áður. Hardigree notar að einhverju leiti sömu myndir og birtust í Guardian-greininni, sem Lewis notar svo aftur með sinni og segir nýjar.
Í ágúst 2009, sjö mánuðum eftir að myndagreinin birtist, flutti Guardian fréttir af því að bílafjöldinn sem á þeim hefði sést væri að mestu farinn af geymslusvæðum og í hendurnar á nýjum kaupendum. Markaðurinn hefði náð sæmilegu jafnvægi, meðal annars vegna aðgerða breskra stjórnvalda sem borguðu fólki fyrir að setja gamla bíla í brotajárn og kaupa nýja.
Fyrstu fréttir Guardian af samansöfnum óseldra bíla virðast reyndar vera frá seinni hluta október 2008. Lesendur ættu væntanlega að geta tengt saman þá punkta sem til þarf til að sjá ástæðuna.
Neitar að trúa því að vandinn sé ekki til staðar
En af hverju er sagan ekki sönn? Hvað er því til sönnunar að það sé ekki óeðlileg samsöfnun nýrra, óseldra bíla, að eiga sér stað víðsvegar um heim?
Fyrir utan þá staðreynd að Vince Lewis er samsæriskenningarsmiður, og að Zero Hedge, sem endurbirti greinina með Lewis sem gestapenna, er ekki beinlínis þekkt fyrir áreiðanlegar eða vandaðar fréttir (síðan átti þó stóran þátt í að afhjúpa Goldman Sachs á sínum tíma, svo dæmi sé tekið um raunverulegar fréttir sem rata á síðuna), hefur Hardigree (sá sem skrifaði greinina sem Lewis skrumskældi) tekið saman nokkur atriði því til sönnunar að hér sé verið að blása upp vandamál sem er ekki til staðar.
Til dæmis nefnir hann að jafnvel þó gervihnattamyndir Google séu ekki uppfærðar mjög reglulega, er þó hægt að ganga úr skugga um að mörg svæðanna sem nefnd eru í greininni eru nú svo gott sem tóm.
Lewis segir um þetta, þegar hann sér að bílarnir sem fylltu akstursbraut Nissan í Sunderland eru horfnir:„Ég trúi því ekki að þeir hafi allir verið seldir í skyndi. Ætli þeir hafi ekki bara flutt þá í burtu til endurvinnslu, til að búa til pláss fyrir næsta risaframleiðsluskammt.“
Eldgamlar myndir og eðlileg bílastæði
Hardigree segir Lewis skorta grundvallarþekkingu á því hvernig heimurinn virkar, og setti saman lista yfir það sem er athugavert við grein hans.
Fyrst af öllu eru margar myndirnar með greininni mjög gamlar. Margar þeirra eru jú endurbirtar úr fimm ára gamalli grein, en sumar eru jafnvel eldri en það. Til dæmis fylgir greininni mynd af Dodge Durango jeppum sem er frá því fyrir hrun, og svipaða sögu er að segja að mynd af Honda Accord bílum.
Sé flett upp í frétta- og myndaveitum á borð við Getty, AFP eða AP kemur í ljós að stærstur hluti myndanna er dagsettur í kringum hrun, þegar offramboð á bílum var raunverulegt vandamál.
Næst bendir Hardigree á að Lewis virðist halda að hver bíll sé framleiddur eftir pöntun og sendur svo beint til kaupanda síns. Eitt af svæðunum sem Lewis bendir á sem safnhaug, Royal Portbury Docks í Avonmouth, ekki langt frá Bristol, er í raun uppskipunarsvæði þar sem um 700.000 bílar hafa viðdvöl á hverju ári, á leið til söluaðila og kaupenda. Þannig sé með mörg önnur svæði, því einhvers staðar verði bílasölur og -umboð að geyma lager sinn.
Það að bíll standi óseldur í nokkrar vikur eða mánuði sé því alveg eins og að varahlutur liggi óseldur inni í hillu í einhvern tíma
Vænisýkibull og rangar fullyrðingar
Í þriðja lagi vitni Lewis til dagsetninga skjáskota af Google Maps, því til sönnunar að bílar hafi þá daga staðið á ákveðnum stöðum. Lewis virðist því halda að Google Maps virki í rauntíma, á meðan þær eru að meðaltali eins til þriggja ára gamlar.
Í fjórða lagi telji Lewis að bílar eyðileggist við það að standa í nokkra mánuði. Hardigree bendir hins vegar á að oft dugi að fara yfir einfalda hluti til að bílar sem hafa staðið, jafnvel í mörg ár, séu fullkomlega nothæfir.
Þó svo að það hafi kannski ekki úrslitaáhrif á raunmæti greinarinnar, vísar það enn og aftur til þess að Lewis sé ekki beinlínis að skrifa af þekkingu.
Í fimmta lagi virðist Lewis taka öllum árstíðarsveiflum í sölu sem merki um vísvitandi offramleiðslu til að halda sölutölum uppi. Þannig hafi síðasti vetur verið harður í Bandaríkjunum, og færri bílar selst en við var búist. Í staðinn verða færri bílar keyptir til landsins þar til lagerstaða kallar á annað.
Í sjötta lagi bendir Hardigree fólki á að lesa grein Lewis. Hún sé einfaldlega full af röngum fullyrðingum og ályktunum. Til dæmis segi Lewis að vandinn sé til kominn vegna þess að fjölskyldur geti ekki lengur keypt sér nýjan bíl á hverju ári.
Hardigree bendir á að þegar ástandi var hvað best í Bandaríkjunum, 1969, hafi meðalaldur bíla á götunni verið 5,1 ár. Í fyrra hafi hann verið 11,4 ár. Fjölskyldur hafi því ekki verið að kaupa bíla á hverju ári.
„Lokaniðurstaðan er þessi: Greinin er vænisýkibull sem inniheldur ekki minnsta snefil af raunveruleika,“ segir Hardigree að lokum í nýrri grein, og bætir við: „Mitt ráð? Ekki gleypa við þessu.“ Segir í frétt á mbl.is