Fara í efni

Nýr Nissan Qashqai kemur skemmtilega á óvart.

Fréttir

Nýr Nissan Qashqai er nýkominn til landsins og hefur vakið verðskuldaða athygli. Nissan hóf framleiðslu á þessum bíl árið 2007 og fljótlega seldist hann það vel að tvöfalda þurfti framleiðsluna.

Þessi nýja kynslóð þarf því að feta í þau gæfuspor og gott betur og byrjunin lofar góðu, því hann var meðal annars kosinn bíll ársins hjá What Car? Það er reyndar auðvelt að sjá hvers vegna þegar þessi bíll er prófaður og alltaf gaman þegar bílar koma manni jafn þægilega á óvart og þessi gerði um síðastliðnu helgi

Nýtískulegur og flottur að innan

Nýr Qashqai er laglegasti bíll og mun sportlegri útlits en sá sem hann leysir af hólmi.

Mælaborðið er sérlega stílhreint með krómi og glansandi svörtum lit, og stórum litaskjáum sem myndu sóma sér í mun hærri verðflokki.

Aftursveigð framljósin, króm og díóður allan hringinn er venjulega eitthvað sem maður sér í dýrari bílum. Það sama er uppi á teningnum innan dyra, því að króm og svartur glosslitur ásamt stemningslýsingu gefur tilfinningu fyrir því að maður sitji í helmingi dýrari bíl hið minnsta. Útsýni er með betra móti miðað við nýtískubíl og er mikill kostur af sérlega stórum og vel formuðum hliðarspeglum. Það tekur líka tíma að setja sig inn í allan búnaðinn sem þessi bíll býður upp á en sem betur fer er uppröðunin skynsamleg og alls ekki ruglingsleg eins og stundum vill verða í vel búnum bílum. Það er kannski helst að takkar fyrir Stop&Go og spólvörn séu of neðarlega vinstra megin en það er ekki stór yfirsjón. Sæti eru nokkuð þægileg fyrir þennan stærðarflokk og auðvelt að stilla setu svo vel sé. Nýr Qashqai er með lengra hjólhaf og þess vegna er fótarými meira í aftursætum. Þar er líka slétt gólf og auðvelt fyrir krakkana að ganga um bílinn. Ekki skemmir heldur fyrir að Isofix-festingar eru vel útfærðar með lokum sem ber þess vitni að hugsun hefur verið lögð alla leið í hönnun bílsins. Það er kannski helst farangursrýmið sem er Akkilesarhæll bílsins, því það er aðeins 430 lítrar, sem er reyndar 20 lítrum meira en í gamla bílnum. Gólfið í því er frekar hátt þar sem það er lagskipt og fara eflaust margir af þessum 430 lítrum því undir gólfið.

Bókstaflega hlaðinn búnaði

Eins og áður sagði er búnaðarlistinn langur í öllum útfærslum Qashqai og þá sérstaklega Acenta og Tekna sem verða aðalsöluútgáfur hans hérlendis. Við höfðum Tekna-útfærsluna til reynslu og það er óhætt að segja að þar er um sérlega vel búinn bíl að ræða. Fyrir utan grunnbúnað eins og regnskynjara, tvöfalt miðstöðvarkerfi, blátannarbúnað, íslenskt leiðsögukerfi, smartsímatengingu og 7 tomma snertiskjá er talsvert meira á boðstólum í Tekna sem staðalbúnaður. Má þar nefna Xenon/Díóðuljós, akreinavara, neyðarhemlun, 360° myndavél, 19 tomma álfelgur og sólþak. Við prófuðum aðeins neyðarhemlunina sem byrjar á að gefa hljóðmerki ef komið er of hratt að næsta bíl, og smellir síðan bremsunum á ef ökumaður bregst ekki við. Smáforritin í snertiskjánum eru einföld og þar af leiðandi þægileg í notkun, en hægt er að tengjast Facebook og fleira ef ökumaður er með smartsíma. iPhone-notendur þurfa þó að tengjast með USB-snúru. Leiðsögukerfi er íslenskt og sýnir meðal annars veitingastaði og bensínstöðvar sem er kostur hérlendis þar sem of lítið af slíkum möguleikum hefur verið fyrir hendi.

Vel heppnuð dísilvél

Nissan hefur tekist vel til í fleiri þáttum í smíði á Qashqai því að hann er feikilega skemmtilegur akstursbíll. Hann er fyrir það fyrsta lipur og gefur góða tilfinningu fyrir akstri. Við reyndum hann með 1,6 lítra dísilvélinni sem verður eina vélin í boði til að byrja með. Sú vél er ótrúlega öflug miðað við stærð og kemur verulega á óvart hvað togið endist vel út snúningssviðið. Meira að segja með CVT-sjálfskiptingunni virkar hún frískleg. Þótt slík sjálfskipting eigi að kallast stiglaus virkar hún alls ekki þannig og hægt er til dæmis að skipta henni upp og niður með valskiptingu. Með sex gíra beinskiptingunni er bíllinn sérlega léttur í akstri og skiptingar auðveldar, sem og létt kúplingin svo að notkun hennar verður hreinn og klár barnaleikur. Fjöðrunin er líka alveg mátuleg, því þótt að hún gleypi vel manngerðar ójöfnur borgarumferðarinnar virkar hún líka mátulega stíf í beygjum. Það sem finna má að honum í akstri er smávegis veghljóð og mikið hljóð frá hjólaskálum þegar sandur og möl lendir á þeim.

Dísilvélin góð í samanburði

Það er augljóst þegar horft er á nýjan Qashqai hvaða bíl hann á að keppa við því að hann og Kia Sportage er mjög líkir útlits. Þótt Sportage sé helst seldur hér með tveggja lítra dísilvélinni er 1,6 lítra vélin í Nissan-bílnum bara svo góð að þær eru fyllilega sambærilegar. Grunnverð Sportage með beinskiptingu og tveggja lítra dísilvélinni er 5.990.777 kr. sem er talsvert fyrir ofan fimm milljónir fyrir Qashqai. Sportage með 1,7 lítra dísilvélinni er reyndar undir honum í verði en sú vél er ekki eins öflug og Nissan-vélin. Aðrir samkeppnisaðilar eru Suzuki S-Cross og Skoda Yeti og það er helst að Skodinn geti keppt við Qashqai í verði. Grunnverð S-Cross með 1,6 lítra dísilvél er 5.190.000 kr. sem er 200.000 kr. dýrara en Qashqai í Visia útfærslu en Yeti er hins vegar á 4.880.000 beinskiptur. Vert er að benda á þann möguleika að bæði Qashqai og S-Cross eru fáanlegir með framdrifi eingöngu og það gæti dugað mörgum, því að bíllinn er ennþá með sömu veghæðina. Þannig er Qashqai 400.000 kr. ódýrari en fjórhjóladrifsbíllinn að jafnaði, en þar bætir S-Cross um betur og kostar aðeins 3.980.000 kr., reyndar þá með bensínvélinni. Því miður verður Qashqai ekki lengur fáanlegur sjö sæta, það verður hins vegar nýr X-Trail sem væntanlegur er seinna á þessu ári.

Njáll Gunnlaugsson mbl.is