Fara í efni

Nýr GLS flaggskipið í jeppalínu Mercedes-Benz

Fréttir

Mercedes Benz hefur kynnt nýjasta lúxusjeppann GLS og er þetta nýjasta nafnabreytingin hjá þýska lúxusbílaframleiðandanum sem hefur undanfarið endurskipulagt nafnakerfið á bílalínu sinni. GLS tekur við af stóra GL jeppanum og verður flaggskip jeppalínu Mercedes-Benz.

Þessi sjö sæta jeppi er talsvert breyttur miðað við forverann bæði hvað varðar útlit og búnað. Mesta útlitsbreytingin er að framan og sver sú breyting sig í ætt við aðra nýhannaða bíla Mercedes-Benz. Mikil breyting verður á innanrýminu þar sem nýjasta tækni og hönnun verður í forgrunni. Innanrými GLS líkist að mörgu leyti hinum glæsilega S-Class lúxusbíl og er ekkert sparað í efnisvali eða glæsileika.

GLS kemur í nokkrum útfærslum með mismunandi vélum. Öflugasta gerð GLS verður AMG GLS63 með 577 hestafla vél. GLS500 4Matic verður með V8 vél með tveimur forþjöppum og 455 hestöfl. Báðir þessir bílar eru aflmeiri en forverar þeirra.

Þriggja lítra dísilútgáfa jeppans verður 255 hestöfl en einnig má fá hann með þriggja lítra bensínvél með tveimur forþjöppum og er hún 329 hestöfl. Allar útfærslur hins nýja GLS verða með 9G-TRONIC sjálfskiptingu. Þá verða allar útfærslur GLS í boði með hinu fullkomna 4MATIC aldrifskerfi frá Mercedes-Benz. Auk þess er GLS vel búinn nýjustu öryggis- og aksturskerfum Mercedes-Benz. Má þar nefna DYNAMIC SELECT, sem gerir ökumanni kleift að velja á milli fimm aksturskerfa og laga þannig eiginleika bílsins að aðstæðum hverju sinni. Bíllinn er einnig með COLLISION PREVENTION ASSIST PLUS, CROSSVIND ASSIST og ATTENTION ASSIST kerfunum sem aðstoða ökumann í mörgum aðstæðum.