Frétt af mbl.is
Það er vel þekkt leyndarmál í bílaheiminum að Apple áætli að koma með rafbíl á markað áður en þessi áratugur er á enda runninn.
Leitt hefur verið getum að því að það verði eitthvað nýtt og spennandi eins og þegar þessi framleiðslurisi kynnir eitthvað. Öðru hverju kemur upp orðrómur um þetta frá fyrrverandi starfsmönnum Apple en sá nýjasti bendir til þess að fyrirtækið hafi komið sér upp lepp til að koma bílaáformum sínum í framkvæmd. Fyrirtækið Future Faraday hefur vaxið gríðarlega og virðist hafa djúpa vasa þegar kemur að peningamálum og það hefur komið þessum orðrómi af stað.
Með 500 starfsmenn fyrir árslok
Faraday Future er tiltölulega nýtt fyrirtæki í rafbílabransanum og byrjaði í fyrra á að kaupa fyrrverandi rannsóknarstofu Nissan í Kaliforníu. Þegar er fyrirtækið komið með yfir 400 starfsmenn og verða þeir komnir yfir 500 fyrir árslok. Meðal starfsmanna má nefna aðalhönnuð BMW i8 bílsins, en Apple hefur áður sýnt rafbílaþróun BMW sérstakan áhuga. Aðrir lykilstarfsmenn eru rafhlöðusérfræðingur frá SpaceX, fyrrverandi innréttingahönnuður frá Ferrari auk fyrrverandi starfsmanna Ford, General Motors og Volvo svo eitthvað sé nefnt. Faraday hefur ekki viljað gefa upp hver sé framkvæmdarstjóri fyrirtækisins, en talsmaður þess er Nick Sampson sem áður vann sem undirvagnshönnuður fyrir Tesla.
Fyrsti bíllinn tilbúinn 2017
Faraday Future stefnir að því að byggja bílaverksmiðju í Kaliforníu eða öðru nágrannafylki sem mun kosta 120 milljarða króna. Meðal atriða sem fyrirtækið segist ætla að þróa eru nýir íhlutir og sjálfkeyrandi bílar. Fyrsti bíllinn er áætlaður árið 2017 og á að hafa rafhlöðu með 15% meira drægi en bílar Tesla eða meira en 500 km. Aðeins ein lítil tölvumynd hefur verið birt af bakhluta bílsins. Faraday vill ekki gefa upp hvaða fjársterku aðilar standa að baki fyrirtækinu. „Við viljum halda samstarfsaðilum okkar leyndum,“ sagði talsmaður fyrirtækisins í viðtali við Wall Street Journal. Hvort bíllinn verður með epli á framenda sínum fáum við vonandi að sjá á næstu misserum.
http://www.mbl.is/bill/frettir/2015/11/11/nyr_framleidandi_kvedur_ser_hljods/