Fara í efni

Nýr Focus með nýrri hönnun

Fréttir

Ford Focus af árgerðinni 2015 verður frumsýndur á bílasýningunni í Genf í mars í næstu viku. Hann tróð þó upp á sýningu í Barcelona um nýliðna helgi. Útlit hans hefur tekið áberandi breytingum og er jafnvel tilfinningaþrungið nú.

Framendi bílsins er öllu meitlaðri og yfirbyggingin sniðin betur að innvolsinu. Grillið að framan er nýtt og einnig er um að ræða talsverðar útlitsbreytingar í innra rými. Og vart þarf að taka fram að þar er að finna nýjan tæknibúnað sem léttir ökumanni lífið auk þess sem sparneytni bílsins er sögð hafa tekið miklum framförum.

Nýi Focusinn kemur á markað í Evrópu á seinni helmingi ársins. Evrópubíllinn verður í fyrsta sinn búinn SYNC 2-miðlunarbúnaðinum og einnig verður aflrásin í honum uppfærð með nýju 1,5 lítra EcoBoost-bensínvélinni og TDCi-dísilvélinni.

Vinnustaður ökumanns í Ford Focus af árgerðinni 2015.

Hermt er að þessar vélar hafi í för með sér 19% sparneytni miðað við fyrri árgerðir Ford Focus. Einnig verður boðið upp á 1,0 lítra EcoBoost-vélina sem losar aðeins 99 g/km af gróðurhúsalofti.

 

Ford segist hafa bætt aksturseiginleika nýja bílsins með stífari framfjöðrun og endurkomu dempara, rafdrifnu aflstýri og nýrri stöðugleikastillingu.

Frá því Ford Focus var fyrst hleypt af stokkum árið 1998 hafa rúmlega 12 milljónir eintaka verið seldar um veröld víða, þar af 6,9 milljónir í Evrópu. Focus var mest seldi einstaki bíllinn í heiminum á nýliðnu ári, 2013, en hann fór þá í 1,1 milljón eintaka, þar af seldust 300.000 bara í Kína.

„Okkur þótti ekki nóg að vera númer eitt, við vildum gera fólk agndofa með nýrri frábærri útgáfu af Focus,“ segir Stephen Odell, forstjóri Ford í Evrópu. „Nýi Focusinn sameinar nútímahönnun, háþróaða tækni, eldsneytisskilvirkni í sérflokki og akstursánægju sem annáluð þykir.“ agas@mbl.is