Í haustbyrjun kynnir Toyota á Íslandi nokkra nýja bíla til sögunnar. Meðal þeirra er nýr og endurbættur Yaris en ekki er um nýja kynslóð að ræða.
Engu að síður er mikill munur á bílnum frá því sem nú er og munar þar mestu um nýja og mjög afgerandi hönnun á framenda bílsins sem gefur honum mjög ákveðinn og skemmtilegan svip. Einnig eru breytingar á aðalljósum, hliðarspeglum, afturstuðara og afturljósum. Í Yaris er nú Toyota Touch 2 margmiðlunarkerfið með 7" skjá. Breytingar hafa verið gerðar á innréttingu auk þess sem afturfjöðrun er ný, svo nokkur dæmi séu nefnd um breytingarnar sem verða á Yaris í haust.
Tveir alveg nýir
Á þessu ári verður brotið blað í sögu Lexus þegar kynntur verður fyrsti sportjeppi framleiðandans í millistærð, Lexus NX 300h.
Að sögn Páls Þorsteinssonar hefur Lexus ekki verið með sportjeppa í þessum stærðarflokki áður. „Hefur djörf og afgerandi hönnun bílsins vakið verðskuldaða athygli en Lexus NX er hlaðinn þeim þægindum sem eru aðalsmerki Lexus. Skarpar og ákveðnar línur gefa bílnum svip sem eftir er tekið,“ sagði Páll. Lexus NX er búinn 2,5 lítra bensínvél auk hybrid-kerfis og verður fáanlegur í fjórum útfærslum; Comfort, Business, F-Sport og Luxury.
Ný kynslóð Aygo verður kynnt í september, en þetta er bíll sem beðið hefur verið eftir með mikilli eftirvæntingu. „Aygo hefur vakið mikla athygli fyrir líflega og skemmtilega hönnun sem gefur eigendum kost á að breyta útliti bílsins eftir sínu höfði. Til dæmis má skipta út ýmsum hlutum í yfirbyggingu og innréttingu eftir smekk hvers og eins,“ sagði Páll enn fremur. Aygo er vel búinn, með aðdraganlegu leðurklæddu veltistýri með aðgerðarhnöppum, rafmagni í rúðum að framan og sex loftpúðum. Í Aygo er einnig x-touch margmiðlunarkerfið með 7" skjá, bakkmyndavél, útvarpi, Bluetooth, USB-tengi og fjórum hátölurum. njall@mbl.is