Fara í efni

Nissan miðlar orku inn á þýska raforkukerfið

Fréttir

Nissan miðlar orku inn á þýska raforkukerfið

Sem umfangsmikil aflstöð fyrir raforku uppfyllir Nissan Leaf, fyrstur rafbíla, nú skilyrði þýsku orkustofnunarinnar German Transmission System Operator (TSO) til að mega miðla (selja) raforku inn á grunnraforkukerfið þar í landi. Þetta eru mikil tímamót í samgöngu- og raforkumálum sem hefjast í borginni Hagen, skammt frá Dortmund, þegar miðlun grænnar orku Leaf hefst inn á kerfið. Forsenda þess er að Leaf uppfyllir ströng ákvæði laga um raforkusala.

Leaf getur bæði tekið við og miðlað raforku

Fyrirtækin sem unnið hafa að verkefninu eru tæknifyrirtækið The Mobility House, orkusalinn ENERVIE, orkudreifingarfyrirtækið Amprion og Nissan sem lagt hefur verkefninu lið með miðlun upplýsinga um tækni Leaf og ekki síst háþróaða hleðslu- og orkustjórnun bílsins sem getur bæði tekið við og miðlað raforku af rafhlöðunni. Þessi sérstaða Leaf lagði grunninn að því að unnt var að uppfylla lagaákvæðin. Þetta þýðir í raun að nú er hægt að samþætta rafhlöðu og orkustjórnarkerfi Leaf þýska raforkukerfinu sem er risastórt skref í því að gera eigendum rafbíla kleift að selja raforku af bílum sínum inn á orkukerfi Þýskalands.

Tekjumöguleikar eigenda rafbíla

Í fleiri og fleiri löndum á meginlandi Evrópu geta notendur rafbíla nýtt rafhlöðu bílsins til að geyma og miðla raforku til annarra nota, t.d. með því að tengja bílinn inn á raforkuinntak heimilis þeirra eða við hleðslustöðvar á vinnustað. Tæknin nefnist Vehicle-to-Grid Technology (V2G) sem gerir eigendum rafbíla Nissan kleift að selja orku af rafhlöðu bílsins inn á almenna raforkukerfið á háannatíma þegar raforkuverð er hátt og kaupa á móti raforku inn á rafhlöðuna utan háannatímans þegar verðið er lægra. Hugmyndina þróaði Nissan upphaflega sem leið fyrir eigendur til að afla sér aukatekna sem mismunur raforkuverðsins skapar við kaup og sölu.

Léttir álagi af raforkukerfunum

Ábati orkufyrirtækjanna af V2G er annars vegar sá að með rafbílum geta raforkufyrirtækin aukið sölu sína á grænni raforku og hins vegar létt álagi af raforkuflutningskerfinu og þeim virkjunum sem fyrir eru. Mikið álag getur valdið óstöðugleika og flökti í raforkuafhendingu til viðskiptavina. Þegar það gerist er vel þekkt að orkufyrirtækin grípi til raforkuskerðinga og tímabundinnar stöðvunar á afhendingu raforku. Sala á raforku af rafhlöðum Leaf inn á grunnkerfið í Þýskalandi er til þess fallið að létta á flutningskerfinu og draga úr raforkuskerðingum.

https://www.youtube.com/watch?v=3pNbKfXVIeU