Fara í efni

Mitsu­bis­hi minn­ir á sig

Fréttir

Frétt af mbl.is

Þegar und­ir­ritaður hugs­ar til baka um svo að segja tvo ára­tugi – aft­ur til alda­móta eða svo – er merki­legt hve mjög hef­ur lækkað risið á hinu forn­fræga jap­anska bíla­merki Mitsu­bis­hi.

Í þá daga voru náms­menn marg­ir hverj­ir á Mitsu­bis­hi Colt, hús­mæður áttu Lancer, spaðarn­ir urruðu um bæ­inn á grásilfruðum Gal­ant, þeir allra svöl­ustu á Eclip­se-sport­bíl og heim­il­is­feðurn­ir áttu Pajero-jeppa, væru þeir á rétt­um stað í til­ver­unni. Síðan þá hef­ur mikið vatn runnið til sjáv­ar og nú er Snorra­búð stekk­ur, eins og þar stend­ur. Pajero er ekki leng­ur aug­lýst­ur sem „kon­ung­ur jepp­anna“, fólks­bíl­arn­ir frá MMC eru liðin tíð. En bata­merki hafa sést í Outland­er-jepp­an­um sem hef­ur rok­selst hér heima og nú er kom­inn ann­ar nett­ur sportjeppi til sög­unn­ar sem gæti lagt sitt af mörk­um við að auka hróður fram­leiðand­ans á ný.

Sver sig í ætt­ina – og þó

Nýliðinn heit­ir kunn­ug­legu nafni, vel að merkja Eclip­se að viðbættu Cross, sem vænt­an­lega er stytt­ing á Cross coun­try eða álíka enda um sport­leg­an jepp­ling að ræða með fína veg­hæð. Hvers vegna MMC afréð að færa nafn sport­bíls yfir á jepp­ling blas­ir ekki við, en allt um það. Til­sýnd­ar er Eclip­se Cross ekki svo gal­inn, og fram­end­inn minn­ir tals­vert á hinn sölu­háa stóra bróður, Outland­er. Það er vel, og von­andi til marks um að heild­stæð hönn­un­ar­stefna sé í far­vatn­inu hjá Mitsu­bits­hi. Eclip­se Cross er sem­sé and­lits­fríður, og hliðarsvip­ur­inn heilt yfir ágæt­ur. Held­ur vand­ast þó málið þegar aft­ur­end­inn er skoðaður; þar er helst eins og hönnuðir hafi ætlað sér að sækja í hug­mynda­smiðju Volvo XC60 (sbr. aft­ur­ljós­in) en hafi svo fyllst eld­móði í þá átt að búa til eitt­hvað í ætt við Pontiac Aztec. Aft­ur­end­inn er sér­kenni­lega marg­brot­inn að sjá og ein­hverra hluta vegna hafa hönnuðir MMC talið það góða hug­mynd að kljúfa rúðuna í aft­ur­hler­an­um með þver­bita. Hið und­ar­leg­asta mál. Framúr­stefnu­lega þenkj­andi bíl­kaup­end­ur sjá ef til vill eitt­hvað áhuga­vert í þessu en íhalds­menn á við und­ir­ritaðan fá ekki skilið hvers vegna ekki var far­in ein­fald­ari leið við frá­gang­inn. Fyr­ir bragðið er heild­ar­svip­ur Eclip­se Cross nokkuð ný­stár­leg­ur og ef­laust smekks­atriði hvernig til hef­ur tek­ist.

Vel bú­inn bíll í bak og fyr­ir

Þegar inn í bíl­inn er sest er allt á sömu ágæt­is­bók­ina lært; þessi jepp­ling­ur er drekk­hlaðinn allskon­ar búnaði og allt leik­ur í hönd­um öku­manns. Lít­ill skjár lyft­ist upp úr inn­rétt­ing­unni aft­an við stýrið þegar bíll­inn er ræst­ur og gef­ur þar öku­manni til kynna hraða bíls­ins, til að lág­marka viðbrigðin við að taka aug­un af veg­in­um og skoða hraðamæl­inn í mæla­borðinu. Heads-up display kall­ast það víst og er al­geng­ur búnaður í tals­vert dýr­ari bíl­um. Annað er eft­ir þessu, tengi­mögu­leik­ar við snjallsíma og annað sem nú­tíma öku­menn sækja í, og eng­in leið er að halda öðru fram en að Eclip­se Cross sé í takt við tím­ann. Sæt­in eru þægi­leg og ökumaður sit­ur nokkuð hátt. Þrátt fyr­ir að inn­rétt­ing­in sé úr plasti þá er hún smekk­leg og pass­ar bíln­um vel. Þá eru helstu hljóðrænu skoðun­ar­atriði í góðu lagi, hurðaskell­ir eru þétt­ir og traust­vekj­andi, og stefnu­ljósið hljóm­ar að sama skapi vel. Plássið í fram­sæt­um er feikigott og drjúgt í aft­ur­sæt­um líka. Full­orðnir sleppa þar vel, en fyr­ir barna­fjöl­skyldu er bíll­inn framúrsk­ar­andi rúm­góður. Skottið er einnig fínt en ég saknaði króka í hliðum inn­rétt­ing­ar­inn­ar þar til að festa inn­kaupa­pok­ana, nokkuð sem ætti að vera staðal­búnaður í bíl­um sem á annað borð skarta far­ang­urs­rými í skott­inu.

Við hitt­umst þá aft­ur, CVT

Les­end­ur þessa blaðs vita sjálfsagt núorðið að sá er þetta rit­ar mun seint sækj­ast eft­ir for­mennsku eða öðrum ábyrgðar­stöðum í aðdá­enda­klúbbi CVT sjálf­skipt­inga, en þess­ar stig­lausu sjálf­skipt­ing­ar njóta all­nokk­urr­ar hylli hjá ýms­um bíla­fram­leiðend­um, illskilj­an­legt sem það er. Ekki var því til­finn­ing­in já­kvæð fyrst í stað enda tals­verðir for­dóm­ar til staðar, en viti menn, CVT-skipt­ing­in reynd­ist bara vel sóma­sam­leg og ekk­ert til að fár­ast yfir. Eclip­se Cross er spræk­ur af stað og merki­lega lítið af afl­inu við inn­gjöf hvín bara af yf­ir­snún­ingi og beint út í kos­mós­inn eins og CVT-skipt­ing­um er tamt að gera; þvert á móti skil­ar skipt­ing­in afl­inu úr vél­inni með góðu móti til hjól­anna. Bíll­inn nýt­ur sin vel á greiðri lang­keyrslu milli bæj­ar­fé­laga en held­ur fannst mér hann þó hnika til hliðanna þegar ekið var um hring­torg, þó hafa beri í huga um leið að bíll­inn sem hér um ræðir er ekki hannaður eða kynnt­ur sem sport­bíll. Fjöðrun­in er líka góð, mjög mátu­lega stíf, svo hún plu­m­ar sig líka vel á hol­ótt­um mal­ar­veg­um; þvotta­bretti koma Eclip­se Cross ekki úr stuði.

Annað skref í rétta átt

Þrátt fyr­ir að ákveðinn fyr­ir­vari sé sett­ur í hönn­un bíls­ins að aft­an­verðu þá er Eclip­se Cross til marks um að MMC ætli sér hluti á næstu mánuðum og miss­er­um. Þetta er áhuga­verður bíll, fer­lega skemmti­leg­ur í akstri og framúrsk­ar­andi vel bú­inn marg­vís­leg­um auka­hlut­um. Þegar haft er í huga að verðið er í kring­um fimm millj­ón­ir þá er ekki við öðru að bú­ast en að bíll­inn komi til með að auka enn við sölu MMC-bíla hér á landi, en eins og kunn­ugt hef­ur Outland­er mok­selst und­an­farna mánuði, svo eft­ir var tekið. Hvað út­litið varðar þá hafa skrýtn­ari bíl­ar tínst út –Citroën Cact­us og Nis­s­an Juke koma upp í hug­ann í fljótu bragði –og hver veit nema Eclip­se Cross falli í kramið. Hann er alltént prýðilega bú­inn, fínn í akstri og skap­lega verðlagður. Hljóm­ar eins og sölu­vara hvað mig varðar.

Jón Agnar Ólafsson mbl.is   https://www.mbl.is/bill/domar/2018/04/10/mitsubishi_minnir_a_sig/