Fara í efni

Mitsubishi frumsýnir nýjan Outlander PHEV

Fréttir

Mitsubishi frumsýnir nýjan Outlander PHEV

Laugardaginn 29. september frumsýnir HEKLA nýjan og enn betri Mitsubishi Outlander PHEV. Sýningin er haldin í Mitsubishi-salnum að Laugavegi 170 – 174 og stendur milli klukkan 12 og 16.

Outlander PHEV hefur notið mikilla vinsælda frá kynningu hans árið 2013 og er mest seldi bíllinn á Íslandi í dag. Vinsældirnar eru hins vegar ekki bundnar við Ísland eitt, því Outlander PHEV hefur nú selst í vel yfir 100.000 eintökum í Evrópu frá því að hann var kynntur til leiks. Bíllinn hefur verið á toppnum í sínum flokki í Evrópu síðustu þrjú ár, þrátt fyrir síaukna sókn annarra tegunda inn á sama markað. 

Frá upphafi hefur Outlander PHEV verið í stöðugri þróun til að tryggja áframhaldandi stöðu meðal fremstu tengiltvinnbíla. Þær breytingar sem nú hafa verið gerðar á nýjum Outlander PHEV eru fyrst og fremst tæknilegs eðlis og snúa að meiri sparneytni og afkastagetu. Þannig státar hann nú af enn meiri sparneytni og bættum aksturseiginleikum, auknum afköstum, endurbættu aldrifi og meiri þægindum á öllum sviðum.

„Nýr Outlander PHEV er bæði sparneytnari og öflugri en fyrri útgáfur og akstursupplifunin er enn betri. Snjóstilling er nýung sem mun án efa falla í kramið hjá Íslendingum en hún auðveldar bílnum að taka af stað og beygja þegar grip er lítið á sleipu yfirborði“, segir Björn Gunnlaugsson vörumerkjastjóri Mitsubishi. „Outlander PHEV er einfaldlega tilvalinn valkostur fyrir fólk sem er að leita sér að öflugum, þægilegum og fjórhjóladrifnum jeppa sem hentar jafnt í borgarakstri og á vegum úti. Við hvetjum alla til að koma og njóta dagsins með okkur, gæða sér á léttum veitingum og kynna sér kosti nýja bílsins,“ segir Björn.