Frétt af mbl.is
Jaguar Land Rover (JLR), helsti framleiðandi lúxusbíla í Bretlandi, setti sölumet í aprílmánuði, fjórða mánuðinn í röð. Alls seldi fyrirtækið 41.341 bíl, 11 prósentum meira en í apríl 2015.
Sé litið til fyrstu fjögurra mánuða ársins seldi JLR 200.154 bíla, 24 prósentum meira en á sama tímabili 2015. Salan eykst á öllum helstu mörkuðum JLR. Þannig nam aukningin 25% í Bretlandi í apríl, 11% í Kína, 10% á meginlandi Evrópu og 2% í Norður-Ameríku.
Andy Goss, framkvæmdastjóri sölusviðs Jaguar Land Rover, segir að viðbrögð markaðarins við nýja sportjeppanum Jaguar F-PACE séu mjög ánægjuleg en apríl var fyrsti heili mánuðurinn sem bíllinn var í sölu. Einnig hafi Jaguar XE og Land Rover Discovery Sport hlotið góðar móttökur ásamt, en alls seldust rúmlega 44 þúsund bílar af síðarnefndu tegundinni fyrstu fjóra mánuði ársins.
Á síðasta ári framleiddi Jaguar Land Rover meira en 500 þúsund bíla í verksmiðjum sínum í Solihull, Birmingham og Liverpool, eða 5% meira en 2014. JLR er stærsti bílaframleiðandi Bretlands. Í janúar útnefndi Bloomberg fyrirtækið besta vinnuveitanda Bretlands 2016 en fjöldi starfsmanna hefur þrefaldast undanfarin fimm ár á sama tíma og framleiðslan hefur tvöfaldast.
Jaguar Land Rover hefur fjárfest í innviðum sínum fyrir meira en 12 milljarða sterlingspunda undanfarin fimm ár sem skapað hafa fjölda nýrra starfa. Rúmlega 80% tekna JLR verða til utan Bretlands.
http://www.mbl.is/bill/frettir/2016/05/11/metsala_jaguar_land_rover_i_april/